Rýna í leiðir til að endurhugsa ferðaþjónustu að loknum faraldri
Vísindamenn við Háskóla Íslands eru hluti af rannsóknarhópi um sjálfbæra ferðaþjónustu á norðurslóðum sem nýverið sendi frá sér skýrslu um áhrif ofgnóttar ferðamennsku og leiðir til að endurhugsa ferðaþjónustu að loknum kórónuveirufaraldri.
Áður en heimsfaraldur COVID-19 skall á í ársbyrjun 2020 voru margir áfangastaðir á norðurslóðum að vinna að því að byggja upp ferðaþjónustu. Sumir áfangastaðir stóðu einnig frammi fyrir áskorunum vegna mikils og ósjálfbærs vaxtar ferðaþjónustu á skömmum tíma. Markmið verkefnisins Partnership for Sustainability: Arctic Tourism in Times of Change er að greina og lýsa forsendum og leiðum til sjálfbærrar ferðaþjónustu á norðurslóðum.
Verkefnið naut stuðnings norðurslóðaáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar á árunum 2018-2021 og einn afrakstur verkefnisins er ný skýrsla sem ber heitið Arctic Tourism in Times of Change Uncertain Futures: From Overtourism to Re-starting Tourism. Þar er fjallað um niðurstöður vinnustofu rannsakenda, nemenda, forsvarsfólks ferðaþjónustufyrirtækja, aðila úr stoðkerfi greinarinnar og frumkvöðla sem ræddu áskoranir ofgnóttar ferðamennsku (e. overtourism), áhrif COVID-19 og leiðir til að endurræsa og endurhugsa ferðaþjónustu til framtíðar.
Þar kemur fram að lykilatriði fyrir sjálfbæra stjórnun ferðaþjónustu sé að aðilar séu meðvitaðir um að þeir tilheyra víðtæku kerfi ferðaþjónustu sem hefur áhrif á hvernig þeir geta tekið á krísuástandi og áskorunum eins og að byggja upp ferðaþjónustu á jaðarsvæðum eða of hröðum og miklum vexti ferðaþjónustu.
COVID-19 hafði mikil áhrif á ferðaþjónustu hvarvetna á norðurslóðum en áhrifin birtust með ólíkum hætti eftir svæðum. Heimsfaraldurinn dró fram veikleika ferðaþjónustu en undirstrikaði einnig efnahagslegt og samfélagslegt mikilvægi hennar. COVID-19 krísan leiddi til þess að fólk tók að endurhugsa forsendur fyrir vexti ferðaþjónustu og neikvæðum afleiðingum hans á loftslag, vistkerfi og samfélög. Endurhugsun ferðaþjónustu á tímum COVID-19 felur í sér að rýna undirliggjandi gildi ferðamennsku jafnt sem ferðaþjónustu sem atvinnugreinar og þróa ferðavörur sem hafa gildi fyrir nærsamfélög og efla þannig samfélög og umhverfi. Skýrslan undirstrikar þörfina á því að ferðaþjónusta sé byggð upp í samtali og samvinnu atvinnugreinarinnar og nærsamfélaga á norðurslóðum.
Vísindamenn frá sjö háskólum á Norðurlöndum og í Kanada koma að vinnslu skýrslunnar en þeirra á meðal eru Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, og Johannes Welling, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn.