Rýna í áhrif af styttingu námstíma til stúdentsprófs
Háskólanemar eru að jafnaði gagnrýnni og virkari í kennslustundum en áður en á sama tíma virðist tungumálafærni þeirra hafa hrakað nokkuð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrstu niðurstöðum rannsóknar á viðhorfum háskólakennara til styttingar á námstíma til stúdentsprófs.
Fyrir sex árum varð einhver sú umfangsmesta breyting sem gerð hefur verið á íslenska framhaldsskólakerfinu þegar námstími til stúdentsprófs var styttur úr fjórum árum í þrjú. Vorið 2019 brautskráðist svo fyrsti heili árgangurinn sem fór í gegnum þriggja ára kerfið. Í dag starfa allir framhaldsskólar landsins eftir skipulagi þriggja ára kerfisins og því er áhugavert að skoða hvaða áhrif breytingin hefur haft í för með sér innan menntakerfisins.
Doktorsneminn María Jónasdóttir hefur ásamt Guðrúnu Ragnarsdóttur lektor og Elsu Eiríksdóttur dósent unnið að rannsókn á áhrifum styttri námstíma til stúdentsprófs en þær starfa alla á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Í rannsókninni kanna þær meðal annars viðhorf kennara við Háskóla Íslands til breytinganna, sérstaklega með tilliti til undirbúnings framhaldsskólanema fyrir nám á viðtökuskólastiginu, háskólanum. Rannsakendurnir tóku sextán viðtöl við reynda háskólakennara og deildarforseta af öllum sviðum Háskólans til að komast að því hvort þeir upplifa breytingar í sínu starfi í kjölfar styttingarinnar. Að sama skapi vildu þær komast að því með hvaða hætti háskólarnir bregðast við þessum breyttu aðstæðum.
„Þetta er partur af stærra rannsóknarverkefni sem við vinnum að ásamt Valgerði S. Bjarnadóttur þar sem verið er að skoða stefnubreytingar í framhaldsskólum og útfærslur á þeim stefnum,“ segir María. Hugmyndin með rannsókninni segja þær vera að skoða áhrif styttingarinnar í stærra samhengi og kortleggja afleiðingar hennar fyrir skólakerfið í heild sinni. „Við erum að skoða þetta svolítið út frá kenningum um stigveldi þekkingar, hvaða þekking og námsgreinar hafa haldið sinni stöðu og úr hverjum hefur verið dregið,“ segir Elsa.
Ólík upplifun eftir fræðasviðum
Það sem vakti athygli þeirra við fyrstu greiningu á viðtalsgögnunum var hversu mikill munur var á svörum viðmælenda eftir því á hvaða fræðisviði þeir störfuðu. Viðmælendur töluðu þannig á mjög ólíkan hátt um hvaða áhrif stytting stúdentsprófsins hefði haft á þeirra svið. Þrátt fyrir þennan mun voru ákveðin atriði sem allir viðmælendur, þvert á fræðisvið, nefndu. Þeir nefndu meðal annars að skort hefði heildarsýn þegar ráðist var í breytingarnar og að meira samráð hefði mátt vera haft á milli skólastiga við breytingarnar. Allir viðmælendurnir höfðu enn fremur orð á því að íslenskukunnátta og ritfærni nemenda hefði versnað og almenn tungumálakunnátta þeirra sömuleiðis – að ensku undanskilinni.
María nefnir jafnframt að áhugaverð umræða hafi skapast um prófahæfni nemenda en hana töldu viðmælendur hafa breyst verulega á undanförnum árum. „Viðmælendur töluðu um að nemendur svari í mjög stuttum texta, nýti illa prófatímann sem þeir fá og eigi erfitt með að svara opnum spurningum,“ segir hún. Hún segir þó afar misjafnt á milli viðmælenda hversu mikið þeir tengdu þessa breyttu námshegðun við styttingu námstíma til stúdentsprófs. Undir þetta tekur Guðrún og nefnir að líklega liggi þar samverkandi þættir að baki, sem þær eigi eftir að kafa dýpra í. Á þeim fræðasviðum sem fundu einna mest fyrir breytingunum var þegar hafin umræða um aðlögun að þeim, svo sem með því að taka upp stífari inntökuskilyrði og bjóða upp á undirbúningsáfanga áður en nám hefjist.
Fyrir sex árum varð einhver sú umfangsmesta breyting sem gerð hefur verið á íslenska framhaldsskólakerfinu þegar námstími til stúdentsprófs var styttur úr fjórum árum í þrjú. Vorið 2019 brautskráðist svo fyrsti heili árgangurinn sem fór í gegnum þriggja ára kerfið. Á Menntavísindasviði Háskóla Íslans er verið er að rýna í hvaða áhrif þessar breytingar höfðu. MYND/Kristinn Ingvarsson
Líflegri kennslustundir og virkari nemendur
Guðrún bendir á að gögnin sem þær söfnuðu sýni einnig fram á jákvæða þróun. Viðmælendur töldu nemendur vera gagnrýnni en áður og virkari í skólastofunni. „Þeir eru miklu upplýstari um pólitísk málefni og tilbúnari til viðræðna í kennslustund. Kennslustundirnar verða líflegri þannig að það er önnur hæfni sem nemendur búa yfir í dag og hún er mikilvæg, bæði fyrir háskólastigið og okkur sem gagnrýna þjóðfélagsþegna,“ segir hún. Guðrún bendir á að líklega megi rekja þetta til grunnþátta menntunar sem innleiddir voru í aðalnámskrá framhaldsskóla árið 2011, viðfangsefni sem eiga að ganga þvert á námsgreinar.
Að sögn Maríu, Guðrúnar og Elsu er rannsókninni þó hvergi nærri lokið og þær einungis rétt byrjaðar að krafsa í yfirborðið. „Við ætluðum upphaflega bara að skoða áhrif styttingarinnar en okkur varð fljótlega ljóst að við þyrftum að skoða hana út frá stigveldi þekkingar og mörgum fleiri þáttum,“ segir Guðrún.
Ætlunin er að tala við fleiri aðila, meðal annars þá sem tóku þátt í stefnumótuninni og fólk innan framhaldsskólanna sjálfra. Jafnframt stendur til að skoða betur inntak náms á framhaldsskólastigi, til dæmis með því að kanna hvaða námsgreinar og valfög hafa haldist inni eða dottið út með styttingu námstíma til stúdentsprófs.
Höfundur greinar: Bríet Einarsdóttir, MA-nemi í fjölmiðla- og boðskiptafræði.