Skip to main content
19. júní 2019

Rúmlega 140 brautskráðir frá Endurmenntun HÍ

Brautskráning kandídata frá Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ) fór fram við hátíðlega athöfn í Háskólabíó föstudaginn 14. júní. Að þessu sinni voru brautskráðir 141 kandídat af fimm námsbrautum, jákvæðri sálfræði - diplómanámi á meistarastigi, leiðsögunámi á háskólastigi, námi til löggildingar fasteigna- og skipasala, sálgæslu - diplómanámi á meistarastigi og sérnámi í hugrænni atferlismeðferð.

Athöfnin var öll túlkuð á táknmáli sem helgast m.a. af því að fyrstu tveir nemendurnir með táknmál að móðurmáli voru að ljúka leiðsögunámi frá EHÍ. Öll kennsla í leiðsögunáminu í vetur var túlkuð á táknmáli og nú getur íslensk ferðaþjónusta tekið á móti ferðamönnum og veitt leiðsögn um landið á táknmáli.

Ný tækifæri og nýir möguleikar
Kristín Jónsdóttir Njarðvík endurmenntunarstjóri flutti ávarp við upphaf athafnarinnar og þakkaði útskriftarnemum samfylgdina. Hún benti á að EHÍ hefði afgerandi forystu á sviði símenntunar á Íslandi og þar fengi fólk tækifæri til að efla sig í starfi, ná meiri árangri í því sem það væri að gera, halda inn á ný svið og kynnast því sem aðrir eru að fást við í sínu starfi.

Hátíðarræðu flutti Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Í máli hennar kom meðal annars fram að í ákveðnum skilningi væri útskrift endapunktur en hún væri einnig upphafið að einhverju nýju. Námið sem fólk hefði lagt stund á og lokið skapaði ný tækifæri og möguleika.

Magnús Friðrik Ólafsson, kandídat úr sérnámi í hugrænni atferlismeðferð, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema. Hann sagði áheyrendum frá ferðalagi sínu í gegnum námið með eiginkonu sinni en þau eignuðust m.a. barn á meðan á þessu ferðalagin stóð.

Myndir frá brautskráningarathöfninni má finna á Facebook-síðu Endurmenntunar HÍ.

Háskóli Íslands óskar útskriftarnemum frá Endurmenntun HÍ innilega til hamingju með áfangann.
 

Frá brautskráningu Endurmenntunar Háskóla Íslands