Rödd nemenda áberandi á þingi um jafnréttismál
Jafnrétti í víðum skilningi var yfirskrift þings Menntavísindasviðs sem haldið var í Háskóla Íslands þann 9. janúar síðastliðinn. Skipulagning þingsins var að þessu sinni í höndum jafnréttisnefndar Menntavísindasviðs. Fyrirkomulag þingsins var með þeim hætti að starfsfólk gat valið úr sex mismunandi vinnusmiðjum er lutu að jafnréttismálum. Að vinnusmiðjum loknum var hlýtt á erindi nemenda og loks tóku við pallborðsumræður.
Kraftmiklar umræður sköpuðust í smiðjum um kennsluefni, námsframboð fyrir margbreytilega nemendahópa, öruggt náms- og starfsumhverfi, aðgengismál, samskipti við fólk með fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn, jafnrétti og stefnumótun á stórum vinnustað.
Brýnt að raddir allra hópa heyrist
Staða hinsegin fólks hefur verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni upp á síðkastið. Ný lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt á Alþingi í fyrra en lögin fela í sér mikilvæga breytingu á réttarstöðu hinsegin fólks. Vallý Hirst Baldurs, formaður Q-félags hinsegin stúdenta, og Sólveig Daðadóttir, fræðslustýra samtakanna, fræddu fundarmenn um stöðu hinsegin stúdenta í háskólasamfélaginu.
„Ísland er í 18. sæti á lista ILGA Europe þegar kemur að lagalegum réttindum hinsegin fólks og er því engin paradís líkt og ráðamenn hafa ítrekað bent á. Það hefur sýnt sig að fólk utan hinsegin samfélagsins veit í raun og veru lítið um veruleika þeirra,“ sögðu þau meðal annars í erindi sínu.
Í máli þeirra kom einnig fram að fræðsla sé lykilatriði til að bæta stöðu hinsegin fólks. „Við sjáum marga snertifleti við Menntavísindasvið því þar er verið að mennta nemendur sem munu að öllum líkindum starfa í skólakerfinu. Ef staða hinsegin fólks er hluti af þeirri fræðslu sem þetta fólk mun miðla í starfi, þá er það risastórt skref í rétta átt.“
Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, nemi við Háskóla Íslands og fulltrúi ungliðahreyfingar Öryrkjabandalags Íslands, flutti áhrifamikinn fyrirlestur um aðgengismál. Margrét Lilja er með sjaldgæfan bandvefssjúkdóm sem hefur það í för með sér að hún þarf oftast að nota hjólastól til að komast sína leið.
„Við eigum öll að hafa sama aðgang að samfélaginu. Þrátt fyrir það að samkvæmt reglugerðum eigi að byggja húsnæði og mannvirki án hindrana rekst fatlað fólk óvíða á tálma. Aðhald er lítið og það þyrfti að setja upp opinbert aðgengiseftirlit með mannvirkjum,“ sagði Margrét en hún hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum í tengslum við aðgengisátak Örykjabandalagsins.
Þegar nemendur höfðu lokið erindum sínum var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal. Í pallborðsumræðum tóku þátt þeir sem stýrðu vinnusmiðjum, þ.e. Arnar Gíslason verkefnisstjóri á rektorsskrifstofu, Arngrímur Vídalín aðjúnkt, Íris Ellenberger lektor, Ólafur Páll Jónsson prófessor, Ruth Rauterberg aðjúnkt, Hanna Ragnarsdóttir prófessor og Lára Rún Sigurvinsdóttir mannauðstýra Menntavísindasviðs. Auk þess tóku fulltrúar nemenda þátt í pallborðinu.
Brynja E. Halldórsdóttir, formaður jafnréttisnefndar Menntavísindasviðs var fundarstýra þingsins.
Standa þarf vörð um jafnrétti í öllu starfi
Öflugt jafnréttisstarf er unnið innan Háskólans og er jafnrétti eitt af þremur megingildum í stefnu skólans. Í vinnusmiðjum var hver einstaklingur metinn á eigin forsendum án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Rauði þráðurinn á vel heppnuðu þingi var að stöðugt þyrfti að standa vörð um jafnrétti í öllu starfi Háskólans.