Skip to main content
15. apríl 2025

Rannsóknasetur um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi stofnað á afmæli Vigdísar

Frá fundinum

Ísland hefur náð langt í jafnréttismálum en talsvert kynjabil er enn til staðar þegar kemur að efnahagslegri þátttöku og ákvarðanatöku, í stjórnunarstöðum í atvinnulífinu, fjárfestingum og við stofnun fyrirtækja. Til þess að vinna að því að loka því bili var nýtt Rannsóknasetur um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands stofnað í dag við athöfn í Hátíðasal skólans, á 95 ára afmælisdegi brautryðjandans Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.

Tilgangur rannsóknasetursins er að efla og dýpka þekkingu á stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi, með það að markmiði að stuðla að raunverulegu jafnrétti í efnahagslegri þátttöku, ákvarðanatöku og leiðtogastöðum, bæði innanlands og með hagnýtingu og kynningu rannsókna á alþjóðavettvangi. Þetta er gert með því að vinna að rannsóknum, hér á landi og erlendis, þróa hagnýtar lausnir sem byggja á traustum gögnum og miðla þekkingu sem nýst getur til stefnumótunar og kerfisbreytinga. Setrið leitast við að kortleggja orsakir og hindranir sem viðhalda þessu kynjabili og leiða fram lausnir sem stuðla að kerfisbreytingum.

Þá er það markmið aðstandenda setursins að byggja upp öflugan vettvang fyrir þverfaglegar rannsóknir og þekkingarmiðlun á sviði jafnréttis í atvinnulífi og fjárfestingum. Setrið rannsakar viðhorf, áhrif laga og stefnumótunar, framkvæmd ráðninga og þróun leiðtogahæfni með sérstaka áherslu á áhrif kyns en einnig fleiri þátta. 

Asta Dis

Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild og helsti hvatamaðurinn að stofnun rannsóknasetursins, ávarpar gesti í Hátíðasal í dag. MYND/OZZO

Rannsóknir innan setursins

Meginrannsóknir setursins snúa að því hvernig loka megi því kynjabili sem enn er til staðar í íslensku atvinnulífi. Ísland hefur trónað á toppi lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir þau lönd þar sem mest kynjajafnrétti er undanfarin 15 ár. Þrátt fyrir það er Ísland í sjöunda sæti þegar kemur að efnahagslegri þátttöku og sé litið til hlutfalls kvenna í stjórnunar- og leiðtogastöðum er Ísland í 44.  sæti. „Þegar ég segi frá þessu á fundum og ráðstefnum þá verða gestir mjög hissa og virðast ekki hafa áttað sig á þessu, jafnvel haldið að við værum fremst á öllum sviðum. Við höfum fram til þessa bent á ýmsar leiðir sem stjórnendur, fjárfestar og stjórnvöld geta farið til þess að brúa þetta bil en það hefur gengið hægt þótt auðvitað sé alltaf einhver árangur af slíkri umræðu,“ segir Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild og helsti hvatamaðurinn að stofnun rannsóknasetursins.

Ásta Dís var meðal þeirra sem tók til máls á athöfninni í Hátíðasal en auk hennar fluttu ávarp Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og stjórnarformaður rannsóknasetursins, Snædís Ögn Flosadóttir, forstöðumaður á mörkuðum Arion banka, og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ. Viðar Lúðvíksson, hæstaréttarlögmaður og meðstjórnandi í stjórn rannsóknasetursins, stýrði fundinum.

Katrin Jakobsdottir

Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er stjórnarformaður hins nýja rannsóknaseturs og hún ávarpaði gesti í Hátíðasal í dag. MYND/OZZO

Aðild að setrinu á stór hópur fræðimanna við Háskóla Íslands og erlenda háskóla. „Við munum einnig beina sjónum okkar að áhrifum gervigreindar á vinnumarkað í samstarfi við hóp rannsakenda m.a. í Noregi og Svíþjóð og það verður áhugavert að sjá hvernig það samstarf þróast á næstu árum. Ég sé heilmikil tækifæri á þessu sviði enda margt sem á eftir að skoða og rannsaka er varðar notkun gervigreindar innan fyrirtækja og stofnana. Innan setursins er einnig unnið að rannsóknum á sviði jafnlaunavottunar en jafnlaunavottun hefur verið afar umdeild víða um heim. Jafnlaunastaðallinn sem innleiddur var á Íslandi og jafnlaunavottunin sem á honum byggir eru einstök á heimsvísu. Rannsóknirnar beinast að áhrifum jafnlaunavottunarinnar á lýðfræðilegan launamun, bæði kynbundinn launamun og launamun eftir þjóðerni og er teymið sem sinnir rannsóknum fræðafólk frá Íslandi og Bandaríkjunum,“ segir Ásta Dís enn fremur.

Ásta Dís Óladóttir ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, í Hátíðasal í dag. MYND/OZZO

Samstarf við Stanford-háskóla 

Eitt af verkefnum setursins er innleiðing og þróun rammans Public Leadership for Gender Equality (PL4GE), sem mótaður var við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum. „Markmiðið er að aðlaga rammann að íslensku samfélagi en jafnframt að nýta íslenska reynslu og þekkingu til að styðja við innleiðingu hans í öðrum löndum þar sem jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi er skemmra á veg komið. Þannig verður Ísland ekki einungis móttakandi alþjóðlegrar þekkingar heldur virkur mótandi og miðlari þekkingar. Ég tel að með þessari samlegð rannsókna, stefnumótunar og framkvæmdar og með breiðri samvinnu við atvinnulíf, stofnanafjárfesta og stjórnvöld geti setrið orðið hreyfiafl breytinga sem skili sér í aukinni þátttöku, jöfnu aðgengi og auknum efnahagslegum jöfnuði, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi,“ segir Ásta Dís enn fremur.

samningur

Samningur um stuðning Arion banka við rannsóknir á sviði jafnra tækifæra í efnahags- og atvinnulífi var undirritaður í Hátíðasal í dag. MYND/OZZO

Samningur við Arion banka 

Ásta Dís segir að mikil áhersla hafi verið lögð á rannsóknir á fjárfestingum út frá kynjasjónarmiði en þar sé sjónum beint að stofnanafjárfestum og hvað þeir geta gert til þess að jafna leikinn. „Rannsóknir á þessu sviði snúa að greiningu á mögulegum samfélagslegum, efnahagslegum og fjárhagslegum ávinningi af því að fjárfesta með kynjagleraugum. Það er ekki að ástæðulausu að Alþjóðabankinn bendir á að með því að jafna hlutföll og stuðla að jafnari tækifærum geti verg landsframleiðsla á heimsvísu aukist um allt að 20%,“ bendir hún á.

Enn fremur eru Ásta Dís og samstarfsfólk farin af stað með nýtt rannsóknaverkefni á vegum setursins sem snýr að fjárfestingum kvenna hér á landi. „Þar beinum við sjónum okkar að því hvað hvetur konur til að fjárfesta en einnig því hvað hindrar þær helst. Í þessari rannsókn erum við í samstarfi við rannsakendur bæði á Norðurlöndum en einnig í Bandaríkjum. Þá er það viðurkenning fyrir okkur og ánægjulegt að Arion banki hafi séð hag af því að styðja dyggilega við rannsóknir á sviði jafnra tækifæra í efnahags- og atvinnulífi,“ segir hún en samstarfssamningur milli rannsóknaseturins og bankans var undirritaður á athöfninni í dag. 

„Sá samningur og samstarfið við Arion banka er okkur í setrinu mikils virði og er það mikil viðurkenning á því að við erum á réttri leið og að það sem við höfum gert fram til þessa er að skila árangri, þótt það mætti vissulega gerast hraðar.“

Fjölmenni var í Hátíðasal í dag þegarRannsóknasetur um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands var formlega sett á laggirnar

Fjölmenni var í Hátíðasal í dag þegarRannsóknasetur um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands var formlega sett á laggirnar. MYND/OZZO