Skip to main content
10. október 2024

Rannsóknarverkefni og sumarskóli tengd HÍ fá styrk frá Aurora-samstarfinu

Rannsóknarverkefni og sumarskóli tengd HÍ fá styrk frá Aurora-samstarfinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindafólk Háskóla Íslands kemur að þremur af sjö rannsóknarverkefnum innan Aurora-háskólanna sem fengu nýverið hvatastyrki fyrir rannsóknarsamstarf. Aurora styrkir einnig sumarskóla um miðlun jarðvísinda fyrir unga vísindamenn sem fulltrúar HÍ stýra.

Markmiðið með hvatastyrkjunum er að stuðla að auknu rannsóknarsamstarfi milli vísindafólks innan Aurora-háskólanna. Styrkirnir eru fjármagnaðir undir hatti nýs samstarfstímabils Aurora, sem ber heitið Aurora 2030, og hlaut veglegan stuðning frá Evrópusambandinu í gegnum áætlun fyrir evrópsk háskólanet (e. European Universities Initiative).

Kallað var eftir umsóknum um styrki til rannsókna í upphafi árs 2024 þar sem áhersla var á gæði, frumleika og hagkvæmni. Einnig áttu rannsóknarverkefnin að vinna að markmiðum Aurora 2030 áætlunarinnar og stuðla að myndun nýrra rannsóknarhópa. 

Alls bárust 26 framúrskarandi umsóknir frá öllum Aurora-háskólunum en þær snertu alls 87 ólíka rannsóknarhópa innan skólanna. Rannsóknarverkefnin sjö sem hlutu styrki fá að meðaltali 15 þúsund evrur í styrktarfé. Þrjú verkefnanna tengjast vísindastarfi innan HÍ og að þeim koma þrír prófessorar og samstarfsfólk þeirra.

  • Bing Wu, prófessor í umhverfisverkfræði, leiðir rannsóknarsamstarf sem nefnist MIMIC og er á sviði umhverfismála. Rannsóknarverkefnið sjálft nefnist Transport and Adsorption Behaviours of Microplastic Fibres in Membrane Biofilm Reactors og að því kemur einnig vísindafólk frá háskólanum í Duisburg-Essen í Þýskalandi og Rovira i Virgili háskólanum á Spáni.  
  • Jón Ólafsson, prófessor í menningarfræði, tekur þátt í rannsóknarsamstarfinu Ecodelib ásamt vísindafólki við Vrije-háskólann í Hollandi og háskólann Paris-Est Créteil í Frakklandi sem leiðir verkefnið. Yfirskrift þess er Deliberation for Ecological and Sustainable Universities.  
  • Ólöf Guðný Geirsdóttir, prófessor í næringarfræði, kemur að rannsóknarsamstarfi sem kallast Nutriage24 en þar mun vísindamannahópur rýna í félagslegar og næringarfræðilega aðstæður aldraðra í þremur löndum. Verkefnið ber heitið Healthy eating: A cross-cultural analysis of the social and nutritional conditions of aging in the Czech Republic, Iceland, and Spain. Auk Ólafar og samstarfsfólks kemur vísindafólk við Rovira i Virgili háskólann á Spáni og Palacký-háskólann í Tékklandi að verkefninu.

Áætlað er að öll rannsóknarverkefnin hefjist nú í haust og standi í tvö ár. 

Hægt er að kynna sér verkefnin sjö á vef Aurora.

Sumarskóli um miðlun jarðvísinda fær einnig styrk

Þessu til viðbótar hefur Rikke Pedersen, verkefnisstjóri við HÍ og forstöðumaður Norræna eldfjallasetursins (e. Nordic Volcanological Center) fengið styrk frá Aurora til að standa fyrir sumarskóla um eldfjöll og vísindamiðlun fyrir vísindafólk sem er að hefja sinn feril. Sumarskólinn er samstarfsverkefni við tvo aðra Aurora-skóla, Federico II háskólannn í Napólí á Ítalíu og Vrije-háskólann í Hollandi. Þetta er annar af tveimur sumarskólum sem Aurora-samstarfið styrkir að þessu sinni.

Stefnt er að því að veita sambærilega styrki til rannsóknarsamstarfs árlega næstu þrjú árin og næst verður auglýst eftir umsóknum um styrki snemma árs 2025. 

 

Styrkhafar úr HÍ þau Bing Wu, Jón Ólafsson, Ólöf Guðný Geirsdóttir og Rikke Pedersen.