Skip to main content
1. febrúar 2023

Rannsakar leikreglur stefnumótaheims unga fólksins

Rannsakar leikreglur stefnumótaheims unga fólksins - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rómantíkin og leikreglur í stefnumótaheimi unga fólksins á Íslandi er viðfangsefni doktorsrannsóknar Unnar Eddu Garðarsdóttur, aðjunkts við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknin er á byrjunarstigi en Unnur Edda fékk nýlega styrk frá Háskóla Íslands til hennar. Ástin sem félagslegt fyrirbæri hefur lítið verið rannsökuð á Íslandi en ásamt leikreglum á vettvangi ástarinnar hyggst Unnur Edda einblína á kynjaða dýnamík í gagnkynhneigðum samböndum.

Samtöl við samstarfskonu kveiktu áhugann

„Kveikjan að rannsókninni var í raun margþætt. Í fyrsta lagi er hún að einhverju leyti persónuleg. Ég var sjálf í langtímasambandi þegar ég var ung og man eftir að hafa fylgst með vinkonum mínum feta sig áfram í stefnumótaheiminum og hversu áhugavert mér fannst það. Þegar ég hætti síðar í sambandi og fór að feta mig þar áfram sjálf man ég vel hversu mikið leikreglurnar höfðu breyst frá því að ég var einhleyp,“ rifjar Unnur Edda upp.

Hún bætir við að hún hafi átt mörg samtöl um viðfangsefnið við leiðbeinanda sinn í doktorsnámi, Berglindi Rós Magnúsdóttur, prófessor á Menntavísindasviði: „Við Berglind höfum mikið verið að velta fyrir okkur leikreglunum í tilhugalífinu en hún gerði nýlega rannsókn á upplifun og orðræðu miðaldra fólks sem gengið hafði í gegnum skilnað,“ segir Unnur en doktorsverkefni hennar er byggt á stærra rannsóknarverkefni Berglindar Rósar sem nefnist „Ást og ástarsambönd í íslenskum síðnútíma“. Berglind Rós hefur á undanförnum árum byggt upp nýtt svið hér á landi um ástarrannsóknir.

Unnur kannar reglur stefnumótaheimsins en einblínir á ungt fólk og samskipti þess. „Ég mun meðal annars styðjast við kenningar Önnu Guðrúnar Jónasdóttur um ástarkraftinn en sú kenning snýst um að ástarkrafturinn sé dálítið eins og vinnukrafturinn samkvæmt marxískum kenningum. Anna Guðrún rýnir í hvernig ástarkrafturinn getur verið hagnýttur og hvernig honum er dreift meðal fólks,“ bætir Unnur Edda við.

Rannsóknin verður þríþætt. Fyrsti hlutinn byggist fyrst og fremst á djúpviðtölum við fólk á aldrinum 20-30 ára. Enn fremur fá aðrir þátttakendur upphaf á sögu sem þeir eiga að ljúka en þessi aðferð, sem nefnist sögulokaaðferðin, hefur verið talsvert notuð í rannsóknum undanfarin ár. Á bak við hana býr sú kenning að þannig sé hægt að skoða hvernig fólk mótar hugmyndir sínar um félagsleg fyrirbæri. Í þriðja hluta rannsókninnar verða svo rýnihópar með fólki sem skilgreinir kynvitund sína á ólíka vegu. Með því vonast Unnur Edda til þess að geta séð hvernig hópflæðið verður í rýnihópunum, hvort fólk muni jafnvel öðlast skilning hvert á öðru eða jafnvel takast á um ólíkar hugmyndir. 

Rannsóknin geti mögulega nýst í námskrár

Unnur Edda vonast til þess að rannsóknin muni varpa ljósi á veruleikann í tilhugalífi ungs fólks og um leið á undirliggjandi orðræðu ungmenna á stefnumótamarkaðnum. Hún sér fyrir sér að rannsóknin geti bæði verið fræðileg og hagnýt. Mögulega væri hægt að nýta þekkinguna til að hjálpa ungu fólki að feta sín fyrstu skref í ástarmálum. „Í skólum erum við ekki mikið að undirbúa ungt fólk fyrir þennan hluta þess að vera fullorðinn. Hugsanlega verður hægt að notast við þessa rannsókn til þess að móta námskrá fyrir unglinga til að hjálpa þeim að feta sig áfram á tilhugalífinu þegar þar að kemur.“ 

Doktorsverkefni Unnar Eddu hlaut þriggja ára styrk úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og leiðbeinandi hennar er Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið.

Höfundur greinar: Álfheiður R. Sigurðardótti, MA-nemi í blaða- og fréttamennsku
 

Unnur Edda Garðarsdóttir