Rannsakar húmor og félagslega samheldni tveggja ára barna
Leikskólaárin eru ein af þeim mikilvægustu í lífi ungra barna. Í leikskólanum stíga þau sín fyrstu skref við að efla félagsleg samskipti við önnur börn. Samskipti ungra barna eru töluvert öðruvísi en samskipti fullorðinna og en þau fyrrnefndu eru viðfangsefni Bryndísar Gunnarsdóttur, doktorsnema og aðjunkts við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem einblínir á óyrt félagsleg samskipti tveggja ára barna í leikskóla á Íslandi. Þar er átt við hvers kyns samskipti sem ekki koma fram í töluðu máli.
Bryndís er lærður leikskólakennari og í því starfi sá hún greinilega í hversu miklum félagslegum samskiptum yngstu börnin á leikskólanum eiga og hvað þau hafa mikla þörf og löngun til að eiga í samskiptum við önnur börn.
Rannsóknir benda til mikilla óyrtra samskipta barna
Bryndís segir að orðaræðan, bæði í leikskólum og í samfélaginu, sé stundum á þá leið að tveggja ára börn séu sjálfhverf og leiki sér helst ein eða í samhliða leik. Þar sé litið fram hjá þeim óyrtu samskiptum sem eiga sér stað milli barnanna. „Mjög áhugaverðar rannsóknir hafa verið gerðar á undanförnum 10-15 árum þar sem niðurstöður sýna að þau eiga í félagslegum samskiptum sem oft eru óyrt, en mig langaði að skoða nákvæmlega hvernig þessi samskipti líta út,“ segir Bryndís.
Í rannsókninni skoðar Bryndís hvernig börn nota líkamstjáningu og óyrtar aðferðir til að hefja samskipti við jafnaldra en einnig skoðar hún hvernig þessi samskipti byggja upp félagslega samheldni barnanna. Þær óyrtu aðferðir sem Bryndís skoðar í rannsókninni eru til dæmis augnasamband, snerting, húmor og kímni, bros og önnur svipbrigði. Börnin nota þessar aðferðir til þess að eiga í samskiptum og tjá þannig áhuga sinn á því að vera saman.
Rannsóknin var gerð í leikskóla á Íslandi og voru þátttakendur rannsóknarinnar 19 börn á yngstu deild. Bryndís tók samskiptin þeirra upp á myndband þar sem hún einbeitti sér að þeim aðstæðum þar sem börnin voru annaðhvort í frjálsum leik tvö eða fleiri saman. „Ég fylgdi börnunum yfir heilt skólaár og greindi svo samskipti með aðferðum samtalsgreiningar þar sem farið er í smáatriðum yfir stutt samskipti og þau greind mjög nákvæmt,“ bætir Bryndís við.
Óyrt samskipti barna eins og samtöl fullorðinna
Spurð um niðurstöður rannsóknarinnar segir Bryndís að úrvinnsla sé enn í gangi en hluti þeirra liggi þó fyrir. „Í fyrsta lagi sýna þær að þessar óyrtu líkamlegu tjáningaraðferðir sem börnin nota eru mjög gagnlegar og þau hafa mikla getu til að nota þær,“ nefnir hún. Auk þess séu þessar óyrtu aðferðir barnanna oft byggðar upp eins og töluð samtöl fullorðinna, börnin séu mjög góð í að lesa í aðstæður og svör annarra barna og leiðrétta sig ef þess er þörf. Samkvæmt Bryndísi benda niðurstöðurnar til þess að börnin séu mjög virk og ráði yfir mikilli getu til að nota aðferðir sem virka til að fá önnur börn með sér í leik.
„Ég myndi gjarna vilja að umræðan um yngstu börnin og leikskólann yrði meira um það faglega starf sem þarf að eiga sér stað á yngstu deildunum undir forystu leikskólakennara sem þekkja nýjustu rannsóknir um yngstu börnin og leikskólann og minna um þarfir atvinnulífsins,“ segir Bryndís. MYND/Kristinn Ingvarsson
Bryndís segir að rannsóknin hafi mikið gildi fyrir gæði leikskólastarfs með yngstu börnunum og telur að það sé mikilvægt að gera fleiri rannsóknir á leikskólastarfi með þeim, sérstaklega nú þegar æ yngri börn koma inn í leikskólana. „Ég tel að ef leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskólans þekkti þessar aðferðir sem börnin nota til að eiga í samskiptum þá væri hægt að aðlaga starfið betur að þeim og skoða starfið sem er í gangi betur út frá því hvort verið sé að ýta undir þessi óyrtu samskipti eða jafnvel hindra þau án þess að fólk geri sér grein fyrir því,“ segir Bryndís.
Félagsleg samskipti grundvallaratriði til að auka gæði leikskólastarfs
Að mati Bryndísar eru félagsleg samskipti grundvallaratriði ef á að auka gæði í leikskólastarfi með yngstu börnunum og gæta verði að því að þau hafi alltaf tækifæri til að eiga í samskiptum við félaga sína. Með rannsókn sinni vonar Bryndís að stjórnendur leikskóla á Íslandi sjái mikilvægi þess að hafa barnahópana litla svo kennarar og starfsfólk hafi möguleika á að styðja við þessi samskipti. Jafnframt að rými barnanna verði aukið þannig að þau hafi tækifæri til að hreyfa sig og nota líkamann í félagahópnum. „Ég myndi gjarna vilja að umræðan um yngstu börnin og leikskólann yrði meira um það faglega starf sem þarf að eiga sér stað á yngstu deildunum undir forystu leikskólakennara sem þekkja nýjustu rannsóknir um yngstu börnin og leikskólann og minna um þarfir atvinnulífsins,“ bætir Bryndís við.
Bryndís kemur ein að rannsókninni sjálfri en í doktorsnefnd hennar eru Amanda Bateman, prófessor við Birmingham City University, sem er aðalleiðbeinandi, Sally Peters, prófessor við Waikato-háskólann í Nýja-Sjálandi, og Hrönn Pálmadóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.