Rannsakar áhrif hamfarahlýnunar á tilfinningalíf Íslendinga

„Ég held að það sé tilhneiging innan ákveðinna hópa á Íslandi að trúa því að hlýnun jarðar sé ekkert svo alvarleg. Ég hef ákveðnar kenningar um hvers vegna svo sé en engin skýr svör enn þá,“ segir Ole Martin Sandberg, nýdoktor í heimspeki við Háskóla Íslands, og vísar þar til viðfangsefnis rannsóknar sinnar, „Áhrif hamfarahlýnunar á tilfinningalíf: Rannsókn á áhrifum loftslagsbreytinga á tilfinningar og hegðun fólks á Íslandi“. Rannsóknin snýst um áhrif hnattrænnar hlýnunar á Íslandi út frá félagslegu og heimspekilegu sjónarhorni.
Ole Martin bendir á að ef fólk trúir ekki að hlýnun jarðar muni hafa mikil áhrif styðji það síður stefnumál sem ganga út á að stemma stigu við henni. „Ég hef jafn mikinn áhuga á menningarlegum og félagslegum áhrifum hnattrænnar hlýnunar og áhrifum hennar á hugsanir fólks og tilfinningar og ég hef á áhrifum hennar á íslenska náttúru, landslag og líffræðilegan fjölbreytileika. Þetta tengist allt, hugsanir fólks um hnattræna hlýnun – hversu alvarleg þeim finnst hún, hversu kvíðið það er og hvað því þykir nauðsynlegt að gera vegna hennar – mótast af því sem fólk veit um hlýnun jarðar eða hvað það veit um afleiðingar hennar.“
Tilfinningar knýja fólk til aðgerða
Það var tvennt sem leiddi Ole Martin að þessu rannsóknarefni. Fyrir nokkrum árum kenndi hann námskeið þar sem hann fékk nemendur til að lesa texta um hlýnun jarðar sem skrifaðir voru af fræðafólki innan hugvísinda og félagsvísinda. Hann bað nemendur um að halda dagbók um andlega heilsu sína á meðan á námskeiðinu stóð og spurði spurninga á borð við „Hvaða áhrif hafa textarnir á ykkur?“ og „Fyllist þið von við lesturinn eða finnið þið fyrir kvíða og örvæntingu?“ „Þá áttaði ég mig á því hversu nauðsynlegt það er fyrir nemendur og einnig fyrir samfélagið í heild að tala um tilfinningar sínar og fyrir þá sem miðla upplýsingum um hlýnun jarðar að taka þessar tilfinningar alvarlega.“
Tilfinningar eru mikilvægar þegar kemur að því að leysa vandamál því þær knýja fólk til aðgerða. Ole Martin telur að þó að fólk búi yfir vísindalegri þekkingu um hlýnun jarðar er ekki gefið að það viti hvað eigi að gera. „Ég held að við þurfum meira en vísindi til að skilja ástæðurnar fyrir þessu, þetta er líka félagslegt, sálrænt og heimspekilegt vandamál. Allar fræðigreinar geta lagt sitt af mörkum við að finna lausn á þessu vandamáli og það er mikilvægt að ólíkar fræðigreinar vinni saman. Á mannöld er ekki lengur hægt að greina skýrt milli þess „félagslega“ og þess „náttúrulega“ – það er tengt.“
Einnig hefur Ole Martin verið svekktur og vonsvikinn yfir því hvernig umræðan um hnattræna hlýnun hefur verið á Íslandi. Hér hafi megináhersla verið lögð á bráðnandi jökla og aukna hættu á skriðuföllum. „Þessi vandamál eru nógu alvarleg en þau eru líka staðbundin og eitthvað sem við getum ráðið við. Ég held að áherslan á þetta verði til þess að litið er fram hjá mörgum alvarlegri afleiðingum og að alvarleiki vandamálsins komist ekki fyllilega til skila.“
Ísland ekki einangrað þó það sé eyja
Tvær ástæður gætu verið fyrir því að umræðurnar á Íslandi eru jafn takmarkaðar og raun ber vitni. Í fyrsta lagi virðast sumir halda að Ísland verði fyrir minni áhrifum vegna þess sem gerist annars staðar vegna þess að það er eyja. Í raun er það öfugt. „Verandi eyja sem flytur inn nánast allt sem við þurfum á að halda erum við fullkomlega háð því sem gerist annars staðar í heiminum og við getum ekki litið á okkur sem einangruð,“ útskýrir Ole Martin og heldur áfram: „Það gæti líka verið vegna einangrunar milli ólíkra akademískra greina. Þegar maður spyr líffræðing eða veðurfræðing um afleiðingar hnattrænnar hlýnunar svara þeir einu en hagfræðingur eða sérfræðingur í mannréttindum gefa allt annað svar.“
Samfélag og hnattræn hlýnun hafa áhrif hvort á annað
„Ég er heimspekingur en það gerir mig ekki hæfan til að leysa þessi vandamál þótt ég vildi það,“ segir Ole Martin. „Rannsóknaraðferð mín felst aðallega í því að tengjast og koma á tengslum milli sérfræðinga innan ólíkra greina í þeirri von að það verði auðveldara fyrir þá að vinna saman þvert á fræðigreinar. Ég er að vonast til þess að læra nóg um þessar greinar með því að tala við sérfræðinga innan þeirra svo ég geti sýnt fram á hvernig þær tengjast og skarast þegar kemur að því að takast á við hlýnun jarðar.“
Í þessum tilgangi hefur hann opnað vef, Climate Affect, til þess að auðvelda ólíkum fræðigreinum að tengjast. Vefurinn verður nokkurs konar net fyrir vísindamenn til að finna hver annan og vinna saman að verkefnum.
Ole Martin vinnur út frá aðferð ferlaheimspeki sem gengur út frá því að allir hlutir séu ólíkir en skarist og virki gagnkvæmt hver á annan í lifandi ferli. „Ferlaheimspeki á vel við þegar kemur að vísindum því hún gefur nýja sýn á viðfangsefnin og ég held að það komi að góðu gagni við að skilja hnattræna hlýnun. Í ferlaheimspeki er ekki talað um samfélagið, líffræðilegan fjölbreytileika og hlýnun jarðar sem aðskilda hluti heldur sem ferli sem hafa áhrif hvert á annað,“ útskýrir hann.
„Ég er að vonast til þess að fá fólk til að skilja að það þýðir lítið að einblína á hlýnun jarðar meðan heilu vistkerfunum er eytt því þetta tvennt tengist. Einnig þarf fólk að sætta sig við að það þarf samfélagslegar breytingar til þess takast á við þessi vandamál. Við getum ekki leyst þau með því að bæta sífellt meiri tækni í samfélagið heldur þurfum við að breyta lífsháttum okkar,“ segir Ole Martin.

Vinnur með sérfræðingum í ólíkum fögum
Ole Martin hefur unnið mikið með sérfræðingum innan ólíkra greina síðustu ár og endurspeglar sú samvinna fjölbreytni verkefnisins. Hann hefur unnið náið með rannsakendum á Náttúruminjasafni Íslands og innan BIODICE og það samstarf heldur áfram í þessu verkefni með það fyrir augum að skilja og miðla eðli og gildi líffræðilegs fjölbreytileika.
Hann hefur einnig tekið þátt í rannsóknarverkefni við HÍ sem heitir „Freedom to make sense: embodied, experiential and mindful research“ þar sem líkamleg hugsun og skilningur á mannlegri hugsun, tilfinningum og samskiptum eru rannsökuð. „Að verkefninu koma hugvísindamenn, heimspekingar, umhverfisfræðingar og fleiri. Ég vinn með þeim og við erum að vonast til þess að ná fram samlegðaráhrifum milli þessa verkefnis og minnar rannsóknar.“
Ole Martin er einnig að vinna með Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands og rannsóknarsetrum Háskólans á Hornafirði og í Þingeyjarsveit. „Bæði rannsóknasetrin eru leidd af umhverfishúmanistum sem deila þeirri skoðun minni að heimspeki, list, hugvísindi og félagsvísindi séu mikilvæg til að skilja og koma á breytingum í umhverfismálum.“
Auk þess er hann ráðgjafi fyrir verkefni sem Reykjavíkurborg fer fyrir í samstarfi við HÍ sem einblínir á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. „Borgin skilur að til þess að ákveðin stefna sé áhrifarík þarf djúpan skilning á menningarlegum hindrunum og þeim þáttum sem ákvarða hegðun fólks og viðhorf. Það er spennandi þegar akademískar rannsóknir og hugmyndir geta líka haft hagnýt áhrif en mér finnst mikilvægt að ná til almennings og koma hugmyndum út fyrir veggi háskólans.“
Samfélagslegar breytingar nauðsynlegar
Rannsóknin mun ekki endilega veita Ole Martin skýr svör enda er það ekki tilgangur hennar. Þessari tegund rannsóknar er frekar ætlað að kanna og draga fram í dagsljósið ákveðna innsýn frekar en endanlegar niðurstöður. Hingað til hefur Ole Martin gefið út greinar og bókarkafla um tilfinningalegar og heimspekilegar hliðar hnattrænnar hlýnunar og sem fyrr segir hefur hann einnig unnið með líffræðingum hjá Náttúruminjasafni Íslands. „Ég hef unnið með þeim að grein þar sem notast er við ferlaheimspeki til að færa fyrir því rök að við verðum að gera meira en að telja tegundir þegar við vinnum við líffræðilegan fjölbreytileika og verndun,“ segir hann. „Við verðum að skoða virkni, víxlverkun og vistfræðilega ferla. Þetta er mikilvægt á stað eins og Íslandi þar sem eru fáar tegundir en afar breytileg náttúra þar sem þessar tegundir eru sífellt að laga sig að breyttum aðstæðum.“
Hann er hóflega bjartsýnn á þau áhrif sem rannsókn hans kann að hafa og vonar að hún muni að minnsta kosti hafa smávægileg áhrif á skilning fólks á hlýnun jarðar og hvernig hún tengist mörgum öðrum málum. „Ég er að vonast til þess að fá fólk til að skilja að það þýðir lítið að einblína á hlýnun jarðar meðan heilu vistkerfunum er eytt því þetta tvennt tengist. Einnig þarf fólk að sætta sig við að það þarf samfélagslegar breytingar til þess takast á við þessi vandamál. Við getum ekki leyst þau með því að bæta sífellt meiri tækni í samfélagið heldur þurfum við að breyta lífsháttum okkar.“
Ole Martin leggur þó áherslu á að slíkar breytingar þurfi ekki að vera til hins verra eða leiða til minni velferðar eða hamingju. Við þurfum einfaldlega að færa okkur frá því sem leiðir ekki til félagslegrar velferðar og líta til þess sem veitir sanna hamingju: félagsleg tengsl og tengsl við náttúruna. „Þetta er abstrakt og flókið umfjöllunarefni og ég held að þetta rannsóknarverkefni muni ekki leiða samfélagið úr þeim ógöngum sem það er komið í en kannski getur það áorkað einhverju,“ segir hann.
Mikilvægt að eiga í samtali við almenning
Ole Martin hefur ávallt haft fjölbreytt áhugamál og verið forvitinn um margt. „Stundum finnst mér gaman að rannsaka skammtaeðlisfræði, uppruna lífsins eða eðli þróunar, stundum dett ég inn í stjórnmálafræði, sögu eða listir. Ég held að það sé þess vegna sem ég ákvað að læra heimspeki því hún gerir manni kleift að kafa ofan í mörg ólík viðfangsefni án þess að verða endilega sérhæfður í þeim,“ segir hann og heldur áfram: „En ég er ekki dæmigerður heimspekingur að því leyti að ég vil alltaf að rannsóknirnar mínar hafi einhverja þýðingu fyrir alvöru vandamál. Ég stunda aldrei „hreina heimspeki“ heldur tengi alltaf kenningar við hagnýtari hluti. Hlutirnir verða fyrst áhugaverðir þegar við sameinum ólík svið og látum eitthvað nýtt koma út úr þeim.“
Ole Martin telur það lykilatriði að eiga í samskiptum við almenning þegar hann vinnur að rannsóknum og leggur áherslu á að það sé þannig sem hann finni fyrir ástríðu gagnvart ólíkum viðfangsefnum. „Annars finnst mér ekki vera neinn tilgangur með þeim. Við þurfum öll að fara oftar út fyrir skrifstofurnar okkar.“
Ole Martin Sandberg, nýdoktor í heimspeki við Háskóla Íslands, vinnur að rannsókn á áhrifum hnattrænnar hlýnunar á Íslandi út frá félagslegu og heimspekilegu sjónarhorni. MYND/Kristinn Ingvarsson