Skip to main content
30. maí 2024

Rannsaka tilfinningaleg tengsl við staði í miðborg Reykjavíkur

Rannsaka tilfinningaleg tengsl við staði í miðborg Reykjavíkur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Síðustu ár hafa orðið örar breytingar á borgarlandslagi Reykjavíkur. Í miðborginni hafa gömul hús verið rifin niður, sum hafa verið færð innan borgarmarkanna en önnur hafa verið gerð upp af alúð. Borgarbúar líta óneitanlega á hús sem hluta af landslaginu og með tíð og tíma verða þau nátengd ákveðnum stöðum og sögu þeirra.

Tengsl við efnislegt umhverfi skipta máli þegar kemur að því að fólki finnist það tilheyra ákveðnum stað. „Fólk tengir sig staðnum á þann hátt að tengingin verður hluti af sjálfsskilningi þess og sjálfsmynd. Sögulegt borgarumhverfi hefur sérstakt gildi hér þar sem fólk tengist stöðum sem hafa ríkulega og marglaga merkingu bæði vegna persónulegra tengsla og menningarlegra,“ segir Ólafur Rastrick, prófessor í þjóðfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Hann leiðir nú rannsókn um tilfinningaleg tengsl fólks við staði í miðborg Reykjavíkur en rannsóknin ber heitið „Ásóttir staðir: Staðartengsl og arfleifð borgarlandslags“.

Áhersla á samband fólks við hversdagslega staði

Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvernig fólk ljær sögulegu borgarlandslagi merkingu og gildi. Sjónum er beint að hversdagslegum stöðum og því sambandi sem fólk hefur fóstrað við þá með því að leggja leið sína um borgina og dvelja í henni. Markmiðið er jafnframt að auðga skilning á aðdráttarafli sögulegs borgarlandslags og þáttum sem móta, viðhalda og breyta þessu tilfinningasambandi. „Sérstök áhersla er lögð á staði sem bera í sér efni og anda liðins tíma en orðaleikurinn sem felst í yfirskriftinni snýst annars vegar um staði sem fólk sækist í að heimsækja og hins vegar staði sem ásóttir eru af draugum fortíðar og geta skotið upp kollinum í samtímanum ef svo ber undir, það er nefnilega býsna forvitnilegt samband milli þess að vera á stað og minnast þess liðna,“ segir Ólafur um efni og markmið rannsóknarinnar.

Rannsóknin byggist á nýrri nálgun innan menningararfsfræða

Aðspurður um kveikjuna að rannsókninni bendir Ólafur á að hún hafi verið tvíþætt. Í fyrsta lagi byggist hún á deiglu innan menningararfsfræða sem gengur út á að skoða hvernig skynjun og hrif móta samband fólks við arfleifðina. Þetta á meðal annars við borgarlandslag sem fólk hefur skapað tilfinningaleg tengsl við með einum eða öðrum hætti. „Það er eitt að búa yfir þekkingu um staðinn, til dæmis sögu hans, annað að upplifa hann á eigin skinni í samhengi við eigin reynslu og annarra. Að heimsækja æskuslóðir eða slóðir forfeðra og -mæðra getur kallað fram ýmiss konar hughrif og minningar sem ljær staðnum merkingu fyrir fólki. Ef við hugsum um gamalt borgarlandslag sem kynslóðir hafa lagt mark sitt á gefur það augaleið að merking þess og gildi í samtímanum getur verið mjög margslungin.“

Í öðru lagi spratt rannsóknin út frá kröfum um aukna þátttöku almennings í ákvörðunum sem snerta varðveislu og þróun sögulegs borgarumhverfis en í dag hefur almenningur litla aðkomu að slíkum ákvörðunum. Það eru sérfræðingar á sviði menningarminja og borgarskipulags og aðilar sem eiga efnahagslegra hagsmuna að gæta sem sýsla með efnislegan menningararf borgarinnar. Ólafur segir skorta betri verkfæri til að koma í kring aðkomu almennings. „Forsenda þess að við getum þróað slík verkfæri er betri skilningur á því hvernig fólk myndar tengsl við borgarumhverfi sem það lifir og hrærist í, hvað fólki þykir vænt um, af hverju og hvernig. Leikmenn eiga ekki endilega gott með að skýra út gildi umhverfisins á tungumáli sem hefur einhverja vigt í ráðhúsum og bankastofnunum eða flytja óræð tilfinningatengsl við einhvern stað yfir í orðræðu sem tekið er mark á af skipulagsyfirvöldum og fjárfestum.“

Senda þátttakendur í göngutúr um miðborg Reykjavíkur

Í grundvallaratriðum gengur rannsóknin út á að fylgjast með viðbrögðum fólks og samspili þess og umhverfisins þegar það dvelur í eða gengur í gegnum hversdagslegt miðborgarlandslag sem það þekkir vel til. Sérstök áhersla er lögð á það sem er í einhverjum skilningi gamalt í borgarlandslaginu og hægt er að vísa til sem arfleifðar með það að markmiði að greina hvaða merkingu hún hefur fyrir fólk á leið sinni um miðborgina.

Við rannsóknina hefur verið notast við þrjár meginaðferðir til þess að greina tengsl fólks við staði í miðbæ Reykjavíkur. „Í fyrsta lagi förum við í gönguferðir með þátttakendum um borgina þar sem við tökum upp samtöl okkar og viðbrögð við því sem fyrir augu og önnur skynfæri ber. Í annan stað köllum við saman litla hópa fólks og fáum þá til að fara á vettvang og ræða saman um staðinn; þær minningar, hugrenningatengsl og annað sem vaknar við að vera á staðnum. Í þessum hópum styðjumst við gjarnan við ljósmyndir af staðnum frá fyrri tíð. Þriðja aðferðin sem við beitum snýst um að fá einstaklinga til að setja upp gleraugu sem búin eru lítilli myndavél og hljóðnema og senda viðkomandi svo einan í gönguferð um miðborgina. Þátttakandinn er hvattur til að segja frá upplifun sinni og hugrenningum um leið og hann gengur um borgina. Myndavélin fylgir sjónarhorni þátttakandans nákvæmlega og skráir hljóð og það sem fyrir augu ber. Þessu er fylgt eftir með viðtali þar sem við höfum valið myndbrot úr gönguferðinni og spyrjum nánar út í tiltekin viðbrögð og upplifanir. Þessar þrjár aðferðir eru hugsaðar til að styðja hver við aðra og bæta upp takmarkanir,“ útskýrir Ólafur.

Auk Ólafs kemur Snjólaug G. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í þjóðfræði, að rannsókninni. Doktorsverkefni Snjólaugar er unnið innan vébanda rannsóknarinnar og hefur hún farið fremst í flokki í gagnaöfluninni. Einnig hafa meistaranemar í þjóðfræði aðstoðað við gagnaöflunina, þær Anna Melsteð, Ragnheiður Jónsdóttir og Vitalina Ostimchuk auk þeirra Kristínar Daggar Kristinsdóttur, Lindu Óskar Valdimarsdóttur og Stefaníu Önnu Rúnarsdóttur sem eru í BA-námi. Meðal annarra sem koma að rannsókninni eru Páll Jakob Líndal umhverfissálfræðingur og Sigurlaug Dagsdóttir þjóðfræðingur. Rannsóknarhópurinn hefur einnig notið hjálpar alþjóðlegrar sérfræðinganefndar verkefnisins, þar á meðal Steven Cooke, sem hefur verið dósent við Menningararfsfræðideild Deakin-háskóla í Ástralíu og er nýtekinn við stjórn Helfararsafnsins í Melbourne. 

„Hversdagslegustu þættir borgarlandslagsins geta verið hlaðnir merkingu fyrir fólk og sjálfsskilning þess á meðan aðrir, jafnvel þeir sem viðtekin orðræða um menningararf hefur í hávegum, ná lítið að hreyfa við fólki. Sumir staðir eru kennileiti fyrir fólk á leið sinni um miðborgina á meðan aðrir staðir vekja óvænt hugrenningatengsl eða geta hrundið af stað minningum sem fólk hafði ekki leitt hugann að árum eða áratugum saman,“ segir Ólafur. MYND/Kristinn Ingvarsson

Skoða betur en áður flókið samspil skynjunar og þekkingar

Niðurstöður rannsóknarinnar liggja ekki fyrir að sinni en rannsóknarhópurinn er kominn með allmikið gagnasafn og greiningarvinnan er hafin. Ólafur bendir á að það komi ekki á óvart að sumir staðir hafi mikla þýðingu fyrir fólk en að rannsóknaraðferðir hópsins gefi þeim tækifæri á að fara betur en áður í saumana á því flókna samspili skynjunar og þekkingar, til dæmis á sögu eða staðháttum, sem stuðlar að því að fólk tengir við staði í miðborg Reykjavíkur. „Hversdagslegustu þættir borgarlandslagsins geta verið hlaðnir merkingu fyrir fólk og sjálfsskilning þess á meðan aðrir, jafnvel þeir sem viðtekin orðræða um menningararf hefur í hávegum, ná lítið að hreyfa við fólki. Sumir staðir eru kennileiti fyrir fólk á leið sinni um miðborgina á meðan aðrir staðir vekja óvænt hugrenningatengsl eða geta hrundið af stað minningum sem fólk hafði ekki leitt hugann að árum eða áratugum saman.“

Framlag til umræðu um borgarþróun

Ólafur segir að einn af ávinningum rannsóknarinnar felist í því að tefla saman áðurnefndum rannsóknaraðferðum sem draga fram ólíka þætti í skynjun fólks á sögulegu borgarlandslagi. Skynjunin er ólík eftir því hvort þátttakendur eru einir á ferð, ganga með rannsakanda eða ræða liðna tíma sem hluti af hóp. „Með því að tefla saman ólíkum aðferðum fáum við innsýn úr fleiri áttum á hvað það er í sögulega borgarlandslaginu sem hefur merkingu og gildi fyrir fólk og hvernig það skapar og viðheldur tilfinningalegu sambandi við þessa efnislegu arfleifð borgarinnar.“

Aðspurður um hvaða áhrif rannsóknin gæti haft segist Ólafur líta á hana sem framlag til umræðu um borgarþróun sem tekur tillit til þess hvernig eldri byggð, götumyndir, garðar og hús hafa áhrif á samband fólks við umhverfið og einstaka staði í miðborginni. Með því að draga fram hvernig tengsl fólks við staði eru skilyrt af skynjun og tilfinningum skapast tækifæri til að útvíkka þann grundvöll sem hugmyndir um varðveislu manngerðs umhverfis og byggingararfleifðina standa á. „Með því að auka skilning á því sem tengir fólk og staði skapast jafnframt ný tækifæri til að hlúa betur að borgarumhverfi sem fólki þykir vænt um, finnst það eiga hlutdeild í og öðrum þáttum sem stuðla að því að fólki finnist það tilheyra eða eiga heima í borginni,“ segir Ólafur að lokum.

Ólafur Rastrick, prófessor í þjóðfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands