Skip to main content
9. maí 2025

Rannsaka hlutverk fjölskyldna í loftslagsaðgerðum

Samsett mynd af rannsaksendum.

Fræðimenn við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Rannsóknasetur HÍ í Þingeyjarsveit og Brunel-háskóla í London hlutu á dögunum 50 milljóna króna styrk frá Bresku akademíunni til rannsókna á hlutverki og afstöðu íslenskra fjölskyldna gagnvart loftslagsaðgerðum.

Verkefnið nefnist Fókus á fjölskyldur í réttlátum umskipum (Centring Families in Iceland’s Just Transition). Utsa Mukherjee, dósent í menntavísindum við Brunel-háskóla, stýrir rannsókninni. Verkefnisstjórar hérlendis eru Auður Aðalsteinsdóttir, rannsóknarlektor og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Þingeyjarsveit, og Auður Magndís Auðardóttir, lektor í uppeldis- og menntunarfræði á Menntavísindasviði.

Íslensk stjórnvöld stefna að því að gera Ísland að kolefnishlutlausu landi fyrir árið 2040, en á alþjóðavettvangi hefur áhersla verið lögð á að um réttlát umskipti sé að ræða og að fórnarkostnaði og ávinningi af loftslagsaðgerðum sé ekki misskipt. Í aðgerðum er oft litið fram hjá því lykilhlutverki sem fjölskyldueiningin gegnir í samfélaginu. Rannsóknarverkefnið kannar þennan mikilvæga hlekk í loftslagsaðgerðum hérlendis út frá þverfaglegu sjónarhorni. 

Hug- og menntavísindi leiða hér saman krafta sína við að skapa nýja þekkingu. Annars vegar verða greindar íslenskar bókmenntir og kvikmyndir frá 1944 og til samtímans með það að markmiði að kanna þær hugmyndir sem þar birtast um samspil fjölskyldna, náttúru og umhverfisverndar. Hins vegar verður þetta sama samspil skoðað í samtímanum með 50 barnafjölskyldum um allt land. Gagnaöflunin með fjölskyldunum mun meðal annars fela í sér fjölskylduviðtöl, skapandi skrif barna og ungmenna og notkun fjölskylduljósmynda til að skapa umræður um réttlát umskipti og fjölskyldueininguna. Gögnum verður safnað með fjölskyldum um allt land þar sem aðstandendur rannsóknarinnar búast við að nálgun fjölskyldna á umhverfisvernd og sjálfbærni geti verið nokkuð ólík eftir því hvar á landinu þær búa.

Styrkurinn kemur frá Knowledge Frontiers áætlun Bresku akademíunnar og gerir það kleift að ráða tvo rannsakendur til viðbótar. Annars vegar Rannveigu Ágústu Guðjónsdóttur, nýdoktor í uppeldis- og menntunarfræði, og hins vegar Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur menningarfræðing.

Knowledge Frontiers hefur það að markmiði að efla þátttöku breskra fræðimanna í alþjóðlegum verkefnum á sviði hug- og félagsvísinda undir formerkjum réttlátra umskipta. Sérstök áhersla er lögð á að styðja við verkefni sem vinna með tengsl sérfræðiþekkingar, almennrar þekkingar og stefnumótunar á alþjóðavísu.

Það er teyminu mikilvægt að niðurstöðurnar nýtist einnig í stefnumótun á sviði réttlátra umskipta hérlendis og því hafa verið mynduð tengsl við sveitarfélög og aðra stefnumótandi aðila hérlendis. Þau tengsl verða ræktuð og styrkt samhliða rannsóknarvinnunni til að tryggja samtal milli rannsakenda og þeirra sem starfa á sviði réttlátra umskipta. 

 

Verkefnisstjórar hérlendis eru Auður Magndís Auðardóttir, lektor í uppeldis- og menntunarfræði og Auður Aðalsteinsdóttir, rannsóknarlektor og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Þingeyjarsveit. Utsa Mukherjee, dósent í menntavísindum við Brunel háskóla, stýrir rannsókninni. Tveir rannsakendur voru ráðnir til verkefnisins til viðbótar. Þær Sigrún Alba Sigurðardóttir menningarfræðingur og Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir, nýdoktor í uppeldis- og menntunarfræði.

Verkefnisstjórar hérlendis eru Auður Magndís Auðardóttir, lektor í uppeldis- og menntunarfræði og Auður Aðalsteinsdóttir, rannsóknarlektor og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Þingeyjarsveit. Utsa Mukherjee, dósent í menntavísindum við Brunel háskóla, stýrir rannsókninni. Tveir rannsakendur voru ráðnir til verkefnisins til viðbótar. Þær Sigrún Alba Sigurðardóttir menningarfræðingur og Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir, nýdoktor í uppeldis- og menntunarfræði.