Skip to main content
17. desember 2024

Ræddu áskoranir og úrræði vegna ofbeldis meðal barna og ungmenna

Ræddu áskoranir og úrræði vegna ofbeldis meðal barna og ungmenna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Áskoranir í tengslum við ofbeldi meðal barna og ungmenna, forvarnastarf og úrræði sem nýtt hafa verið til að bregðast við því og ný sem eru á leiðinni eru til umfjöllunar í 2. þætti hlaðvarpsins „HÍ og heimsmarkmiðin“ sem tengist samnefndri viðburðaröð skólans. Í þættinum ræðir Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar HÍ, við Önnu Rut Pálmadóttur, deildarstjóra stoðþjónustu hjá Hraunvallaskóla í Hafnarfirði, og Funa Sigurðsson, framkvæmdarstjóra meðferðasviðs hjá Barna- og fjölskyldustofu. Anna Rut og Funi hafa bæði víðtæka þekkingu á málefninu og tóku þátt í fyrsta fundinum í nýrri lotu viðburðaraðarinnar sem fram fór í lok nóvember. Þar var sjónum var beint að heimsmarkmiði 16 um frið og réttlæti og þá einkum ofbeldi meðal barna og ungmenna. 

Rannsóknir hafa sýnt að einn af helstu áhættuþáttum þess að börn beita ofbeldi er að þau hafi sjálf orðið fyrir ofbeldi, eins og fram kom í erindi Margrétar Valdimarsdóttur, dósents í félags- og afbrotafræði við HÍ, á viðburðinum. Anna Rut og Funi ræddu þetta nánar í hlaðvarpsþættinum og fram kom í máli þeirra að í samfélaginu séu fyrir hendi séu ákveðnir verkferlar og tilkynningaskylda vegna barna sem hafi orðið fyrir eða beiti ofbeldi en skort hafi á úrræði til að vinna málin áfram. Funi benti hins vegar á að nú um áramótin stæði til að koma á laggirnar nýju úrræði fyrir börn sem hafa orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið fyrir ofbeldi sjálf. Þar yrði  unnið bæði með gerendur og þolendur hvora í sínu lagi og saman. 

Í þættinum var einnig rætt um að ein af áskorunum skólakerfisins væri að taka vel á móti börnum sem hafa þurft að hverfa úr skólum ýmist sem þolendur eða gerendur í ofbeldismálum. „Við þurfum að passa upp á það að við kennum börnunum okkar að taka á móti krökkunum sem hafa lent í erfiðleikum, að gefa þeim séns. Við þurfum líka að kenna þessum krökkum að þau eru ekki föst í þessum sama fasa, þau geta þroskast og þróast og orðið betri einstaklingar ef það er einhver vandi og þau eru ekki endalaust fórnarlömb og gerendur,“ segir Anna Rut.

Auk þess var fjallað um hvað foreldar og samfélagið gætu gert til þess að sporna gegn áhættuhegðun barna og ungmenna. Funi benti á að vitað væri hvaða þættir væru verndandi fyrir börn og stuðluðu að því að börnum liði vel. „Það er skóli, það er félagsskapur, samstarf foreldra, að þeir eigi samskipti sín á milli og haldi reglur, það er að við séum ekki stöðugt á TikTok,“ sagði hann og benti enn fremur á virkni í tómstundum sem mikilvægan þátt í lífi barna. Áhersla ætti að vera á að byggja upp þessa verndandi þætti en hræðsluáróður gagnvart börnum virkað ekki.

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsrás Sjálfbærnistofnunar HÍ á Soundcloud

 

Upptöku af fyrsta viðburðinum í viðburðaröðinni HÍ og heimsmarkmiðin í lok nóvember má finna hér.
 

Anna Rut Pálmadóttir og Funi Sigurðsson