Ræddi við feður sem beitt hafa ofbeldi og greindi 250 fréttir

Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir, aðjunkt við Deild menntunar- og margbreytileika ræðir í nýjasta Menntavísindavarpi um doktorsrannsókn sína sem hún varði á dögunum.
Heiti doktorsritgerðar Rannveigar er: Feður sem beitt hafa ofbeldi: Hindranir og möguleikar til breytinga. Niðurstöðurnar varpa m.a. ljósi á hvernig feðurnir takast á við óþægindi í frásögnum sínum af ofbeldi, föðurhlutverkinu og breytingum. Rannveig ræðir niðurstöðurnar, áskoranirnar við að rannsaka eldfim málefni og hvernig niðurstöður rannsóknarinnar geta nýst samfélaginu. „Ég rannsaka feður sem beitt hafa ofbeldi bæði út frá fjölmiðlaumræðu, skoðaði 250 fréttir í íslenskum fjölmiðlum, og tók svo viðtal við átta feður sem beitt höfðu ofbeldi í nánum samböndum. Ég skoðaði bæði umræðu um ofbeldi í fjölmiðlum og þeirra breytingaferli,“ segir Rannveig í viðtali í Menntavísindavarpinu.
„Feðurnir eiga það sameiginlegt að hafa beitt maka og eða börn ofbeldi í nánu sambandi og svo rýni ég í hvernig þetta breytingaferli lítur út og hvernig þeir upplifa og takast á við það. Þessi hópur er svolítið sérstakur að því leyti að þetta eru allt feður sem gera sér grein fyrir að hafa beitt ofbeldi og vilja breyta því og ræða.“ Rannveig bendir á að hingað til hafi áherslur í rannsóknum beinst að því af hverju feður beita ofbeldi, hversu stórt hlutfall feðra breytir hegðun sinni og hvaða meðferðir virka og hverjar ekki. „En ég hafði meiri áhuga á að skoða og rannsaka hvernig þeir upplifa bæði föðurhlutverkið og þetta breytingaferli, ég vildi fá fram þeirra upplifun af því.“
Að sitja í óþægindunum og horfast í augu við þau
Rannveig skrifaði þrjár greinar í doktorsnáminu og í einni greininni skoðar hún sérstaklega hlutverk „óþæginda“ í breytingarferli feðranna. „Óþægindi eru ákveðið lykilatriði sem ég skoða, hvort þeir annaðhvort „díla“ við eða „díla ekki“ við óþægindin. Það hefur mikið að segja um þeirra breytingaferli. Ég og meðhöfundur minn í þeirri grein, Kalle Berggren, sýnum fram á hvernig þetta getur hreyft við þeim og orðið til þess að færa þá í átt að einhvers konar sjálfsgagnrýni, ábyrgð og hreyft við þeim í átt að breytingum, Þ.e. að sitja í óþægindunum og horfast í augu við þau.“
„Það er óþægilegt að horfast í augu við að hafa beitt ofbeldi“
„Það er óþægilegt að horfast í augu við að hafa beitt ofbeldi og það er óþægilegt að horfast í augu við þær afleiðingar sem það hefur á maka og börn. Í ljós kom að þegar þeir finna óþægindin hættir þeim til að ýta þeim frá sér og snúa sér að húmor eða breyta um umræðuefni. Eða jafnvel bregðast við með „aggressívum“ hætti eða ýta þessu frá sér,“ segir Rannveig og bætir við: „Þeir sem höfðu unnið í sínum málum höfðu æft sig í að sitja með óþægindin. Margir sýndu hvernig þeir gátu leiðrétt sig, stoppað í óþægindunum og haldið sér þar, leiðrétt sig ef þeir byrjuðu að ýta þessu frá sér eða afsaka eða réttlæta á einhvern hátt. Þeir leiðréttu hvernig þeir töluðu um ofbeldið eða sögðu frá því hvernig þeir höfðu átt óþægileg samtöl við börnin sín þar sem þeir ræddu ofbeldið. Þeir leituðu sér hjálpar og ræddu hvernig þeir höfðu beitt ofbeldi. Óþægindin fólust m.a. í líkamlegum óþægindum, þeir fóru að iða í sætinu í viðtalinu eða sýna fram á að þetta var óþægilegt. Þetta vakti svo mikinn áhuga hjá mér, hvað þeir gerðu þegar þeir fundu fyrir þessum óþægindum. Hvað þessi óþægindi gátu alið af sér og hvað fylgdi þeim.“
Feður flokkaðir í góða og virka feður og ofbeldismenn
Ein af aðalniðurstöðum rannsóknarinnar er að hingað til hefur umfjöllun um feður sem beitt hafa ofbeldi á Íslandi verið bundin við einstaka mál og oft tengd skilnaðar- og forræðisdeilum. „Þar virðist vera undirliggjandi markmið fjölmiðla að afhjúpa hver er raunverulega skrímslið eða vondi kallinn. Er það tálmunarmóðirin eða ofbeldismaðurinn? Og það verður „annaðhvort eða“ umræða í tengslum við það. Á sama tíma er líka áberandi vaxandi umræða í fjölmiðlum um virka, góða feður í norrænum samfélögum og þ.á m. á Íslandi. Feðrum virðist vera skipt í þessa hópa út frá því hvernig týpa þeir eru, þeir hafa verið karaktertengdir umfjöllun um feður, annaðhvort góðir, virkir feður eða feður sem beitt hafa ofbeldi. Það sem gerist þegar við förum að hengja þessar týpur við annaðhvort góða feður eða ofbeldismenn þá erum við líka búin að gefa til kynna að ef þú ert ekki týpan sem beitir ofbeldi eða týpan sem er góður virkur faðir þá sértu ólíklegri til að beita ofbeldi. Það sem einnig gerist þá er að fjölmiðlar missa af tækifærinu til að tengja ofbeldi í nánum samböndum þessum stærri kynjuðu samfélagslegu strúktúrum sem hafa áhrif á það hvernig ofbeldi birtist og er viðhaldið í samfélaginu.“
„Þetta er enginn stimpill, þetta er tattú. Þetta er ekkert sem fer.“
Greining á viðtölunum við feðurna átta sýnir einnig að samfélagsumræða hefur mikil áhrif á þá og möguleika þeirra til breytinga. Það er m.a. ótti við skrímslavæðinguna og vera stimplaður sem skrímsli. „Líkt og einn sagði í einu viðtalinu: „Þetta er enginn stimpill, þetta er tattú. Þetta er ekkert sem fer.“ Það sem gerist líka er að umræðan um væntingu og pressu um að feður séu góðir, virkir feður, sem þeir virkilega vilja vera og kannski sjá sig sem, það gat líka orðið til þess að þetta varð pínu „performative“ eða leikrænt stundum, því til þess að reyna að halda í þessa ímynd sem góðir, virkir feður þá upplifðu þeir að þeir þyrftu að tikka í ákveðin box til að forðast skömmina og geta haldið í þessa ímynd sem góðir menn og virkir feður. Þetta fól ekkert endilega í sér að taka mið af eða hlusta eftir sjónarmiðum barna. Frekar að tikka í það box að fara með börnin á skíði, í útilegu og mæta á fótboltaleiki og setja þetta svo allt á samfélagsmiðla en eru ekkert endilega að eiga þessi óþægilegu samtöl við börnin sín um sína hegðun og um hvernig þeir ætla að axla ábyrgð á því í framhaldinu.“
Breyttu þínir átta viðmælendur hegðun sinni?
„Já, margir hverjir. Þeir voru á mjög ólíkum stað og einhverjir þeirra höfðu unnið í sér lengi, leitað sér aðstoðar og nokkrir farið drastískar leiðir við að axla ábyrgð á sinni hegðun. Einhverjir voru komnir á þann stað að vilja vera vissir um að þeir feðruðu ekki fleiri börn og vildu að það væri skýrt að þeir öxluðu ábyrgð á þeim börnum sem þeir ættu og ætluðu ekki að eignast fleiri börn.
Á meðan voru aðrir að byrja að leita sér hjálpar. Þeir sem voru í byrjunarfasa voru oft hrárri í þessu. Þó að ég hafi fengið átta feður í viðtöl sem ég er afskaplega þakklát fyrir, þá voru mun fleiri sem höfðu samband. Þar sá ég líka hvernig óþægindin birtast. Það voru þónokkrir feður sem höfðu sýnt því áhuga að koma í viðtal en treystu sér svo ekki þegar á hólminn var komið. Einn þeirra situr sérstaklega í mér en hann vildi koma í viðtal, hann var nýbúinn að opna á það og horfst í augu við að hafa beitt ofbeldi en svo lýsti hann því að hann upplifði líkamleg veikindi. Þetta voru þá svona mikil óþægindi að horfast í augu við að það varð líkamlega óþægilegt og hann fékk hita. Það er eitthvað sem sást alveg á þeim líka, hversu líkamlega óþægilegt það er að staldra í þessu tilfinningaástandi, taka ábyrgð og sitja með því sem þeir höfðu gert.“
Að sögn Rannveigar var margt flókið við vinnslu rannsóknarinnar. „Mér fannst flókið að halda jafnvægi milli þess að framkvæma femíníska rannsókn sem stuðli að jafnrétti og að við séum gagnrýnin á ofbeldi en á sama tíma að hlusta á raddir gerenda. Það getur myndað femíníska togstreitu. Ég reyndi því að feta þann jafnvægisdans, að hlusta af alvöru og einlægni en vera á sama tíma gagnrýnin á ofbeldið og halda röddum barna og brotaþola á lofti.“
En kom eitthvað á óvart í niðurstöðunum?
„Það kom mér á óvart hversu mikið óþægindin sátu með mér og viðmælendum. Hvað óþægindin urðu strax sterkur partur af niðurstöðunum. Ég hafði búið mig undir að „díla“ meira við að halda virðingu gagnvart viðmælendum, ég hélt að ég myndi jafnvel finna fyrir reiði og viðbjóði við að hlusta á frásagnir viðmælendanna og kannski frekar gert ráð fyrir að það væru mín tilfinningalegu verkefni við að vinna úr viðtölunum en það var fljótt augljóst hvað óþægindin voru áberandi.“
Rannsóknin ekki frábær smellibeita
„Þessi rannsókn er ekki frábær smellibeita (e. click bait). Þetta er flókið og marglaga og mér finnst að það megi vera niðurstaðan. Við verðum að geta tekið umræðuna lengra í tengslum við feður og ofbeldi og ofbeldi í nánu sambandi yfir höfuð en sérstaklega þegar kemur að börnum sem búa við ofbeldi því við vitum að börn eru í samskiptum við feður sem beitt hafa ofbeldi. Hvað sem okkur finnst um það þá er það raunin. Þeirra upplifun er oft marglaga og flókin og þarf að fá að geta verið það. Við sem samfélag verðum að geta tekið utan um þau og þessa upplifun og á sama tíma verið gagnrýnin á ofbeldi. Við viljum ekki samfélag þar sem fólk er að beita ofbeldi. En verðum samt líka að geta haldið þessari umræðu flóknari til þess að breytingaferli geti átt sér stað og að börn geti bæði fengið að elska foreldra sína en líka krefjast fjarlægðar eða friðar,“ segir Rannveig og bætir við: „Mörg börn upplifa bæði að elska feður sína en vilja samt ekki að þeir beiti ofbeldi. En svo er hópur sem þarf á þessum svarthvíta veruleika að halda, alla vega fyrst um sinn. Þau verða að mega fá að halda í þessa svarthvítu, mögulega skrímslavæddu umræðu, þar sem þau vilja fjarlægja sig þessum feðrum. Við getum því ekki krafið alla um að fara inn í þessa flóknu „núanseruðu“ umræðu, því margir brotaþolar og börn sem beitt hafa verið ofbeldi verða og þurfa að eiga sinn svarthvíta veruleika ef það er það sem hjálpar þeim að vinna úr því að hafa verið beitt ofbeldi.“
Hlusta má viðtalið við Rannveigu í heild sinni í Menntavísindavarpinu
Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir varði doktorsritgerð sína á dögunum sem ber heitið: Feður sem beitt hafa ofbeldi: Hindranir og möguleikar til breytinga. Niðurstöðurnar varpa m.a. ljósi á hvernig feðurnir takast á við óþægindi í frásögnum sínum af ofbeldi, föðurhlutverkinu og breytingum. MYND/Kristinn Ingvarsson