Ráðstefna helguð tómstundum og tækni
„Tómstundir og tækni — tækifæri og áskoranir“ er yfirskrift Tómstundadagsins 2016 sem haldinn verður hátíðlegur föstudaginn 19. febrúar í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð. Þetta er í annað sinn sem Tómstundadagurinn fer fram en honum er ætlað að vekja athygli á því sem efst er á baugi hverju sinni í tómstundastarfi og óformlegu námi barna og unglinga.
Flutt verða erindi af fagfólki sem vinnur á vettvangi frístundaheimila og nýtt hefur sér tækni með einhverjum hætti í starfi sínu.
Dagskráin er afar fjölbreytt en meðal þess sem fjallað verður um er starfsvettvangur tómstunda- og félagsmálafræðinga, ýmis gagnleg tæki og forrit í uppeldisstarfi, innleiðing máls og læsis og menntaverkefnið Biophilia. Sjónum verður einnig beint að fleiri þáttum, eins og hreyfingu, kyrrsetu og velferð barna.
Ungmennaráð Samfés mun kynna jafningjafræðsluverkefnið „sexting“ sem snýst um að fræða ungt fólk um óæskilega nethegðun. Þá flytur fulltrúi frá Heimili og skóla og SAFT fyrirlestur undir heitinu: „Ég þarf bara að safna hundrað vinum til þess að verða frægur", en þar verður snjalltækjanotkun barna og unglinga í brennidepli.
Óendanlegir möguleikar og tækifæri með tilkomu nýrra tækja
Óhætt er að segja að áhugi á tómstundastarfi hér á landi sé mikill því hátt í þrjú hundruð manns tóku þátt í ráðstefnunni í fyrra. Að sögn Steingerðar Kristjánsdóttur, aðjúnkts við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild og eins skipuleggjanda ráðstefnunnar, má búast við svipuðum fjölda í ár. Hún segir að valið á viðfangsefninu hafi verið nokkuð einfalt. „Þetta er efni sem að á brýnt erindi einmitt núna. Við munum skoða hvernig verið er að nota tæknina í tómstundum barna og ungmenna, taka stöðuna og læra hvert af öðru. Það felast áskoranir en ekki síður tækifæri í tæknibyltingu síðustu ára með tilkomu smærri tækja með sífellt fleiri möguleikum,“ bendir Steingerður á og vonast eftir að sjá sem flesta á ráðstefnunni.
Auk Menntavísindasviðs Háskóla Íslands tóku fulltrúar sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samfés og Félags fagfólks í frítímaþjónustu þátt í að móta ráðstefnuna.
Ráðstefnugjald er 3000 kr. og fer skráning fram á vef Menntavísindastofnunar.