Ráðning faglegra kvensveitarstjóra nátengd kynjaskiptingu sveitarstjórna
Ráðning kvenna í stöðu faglegs sveitar- eða bæjarstjóra er nátengd kynjaskiptingu viðkomandi sveitarstjórnar og þá sérstaklega því hvaða kyn eru í valdastöðum innan sveitarstjórnarinnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri bók Evu Marínar Hlynsdóttur, dósents í opinberri stjórnsýslu við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, sem hið virta forlag Peter Lang gaf út á dögunum.
Bókin heitir Gender in Organizations: The Icelandic Female Council Manager og byggist á rannsóknum Evu Marínar við Háskóla Íslands. „Upphaflega vakti það athygli mína þegar ég var að vinna að doktorsverkefni mínu um sveitar- og bæjarstjóra á Íslandi að ráðning kvenna í stöðu faglegs bæjar- eða sveitarstjóra, þ.e. þeirra sem sitja ekki sem kjörnir fulltrúar, í kjölfar kosninganna 2010 virtist lúta öðrum lögmálum en ráðning karla. Þetta átti líka við um bakgrunn þeirra og viðhorf til starfs. Það sama virtist síðan vera upp á teningnum í síðari sveitarstjórnarkosningum. Ég byrjaði því að safna meiri gögnum og skoða þetta betur,“ segir Eva Marín sem lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2015.
Hún segir markmiðið með bókinni setja stjórnun sveitarfélaga í samhengi við kenningar um skipulagsheildir annars vegar og kenningar um áhrif kyns á ráðningar hins vegar. „Í bókinni skoða ég ráðningu kvenna í stöðu faglegs bæjar- eða sveitarstjóra eftir fjórar kosningar á tímabilinu 2006-2018. Sérstök áhersla er lögð á að skoða tengsl starfsauglýsinga og hæfniviðmiða annars vegar og kynjaskiptingu í sveitarstjórn hins vegar við það hvort kona eða karl er ráðinn,“ segir Eva Marín sem jafnframt setur niðurstöður sínar í samhengi við niðurstöður rannsókna í öðrum löndum sem styðjast við sambærileg stjórnkerfi á sveitarstjórnarstiginu.
„Meginniðurstöður mínar benda til þess að ráðning kvenna sé nátengd kynjaskiptingu sveitarstjórnar og þá sérstaklega því hvaða kyn eru í valdastöðum innan sveitarstjórnarinnar. Aðrir þættir eins og erfiðleikar í rekstri sveitarfélaga, eins og fylgdu í kjölfar hrunsins, hafa líka áhrif á hvort kona eða karl er ráðinn í stöðu sveitar- eða bæjarstjóra,“ bendir hún á.
Kveikjan að bókinni var grein sem Eva Marín skrifaði um rannsóknir sínar. „Ritstjóri á vegum forlagsins Peter Lang hafði samband við mig eftir að ég hafði farið með grein um ráðningu kvenna á krísutímum á ráðstefnu APSA (American Political Science Association) haustið 2018 og bauð mér að skrifa bók um þetta efni. Þar sem ég átti töluvert af óunnu efni og langaði að skoða þetta betur þá sló ég til,“ segir Eva Marín enn fremur um tilurð bókarinnar.
Bókin er að sögn Evu Marínar ætluð nemendum á háskólastigi og fræðafólki á sviði stjórnunar, sveitarstjórnarmála og kynjarannsókna en einnig áhugafólki um sveitarstjórnarmál og þeim sem hafa áhuga á skipulagsheildum (e. organizations) og tengslum kyns og aðgengis að stjórnunarstöðum innan skipulagsheilda.
Bókin verður fáanleg í Bóksölu stúdenta en fæst einnig á vefsíðu Peter Lang og á Amazon-vefversluninni þar sem m.a. má kaupa rafræna útgáfu í heild eða hluta hennar.
Við þetta má bæta að Eva Marín ræddi efni bókarinnar í hlaðvarpinu Samtal um sveitarstjórnarmál sem Stofnun stjórnsýslufræða við Háskóla Íslands heldur úti og má hlusta á viðtalið við hana hér.