Ótrúlegir möguleikar í Háskóla Íslands
Á vefsíðu HÍ kemur fram hversu fjölbreytt nám er í boði við skólann en enginn íslenskur háskóli býður upp á viðlíka möguleika í grunn- og framhaldsnámi. Hægt er að taka aðalgrein og aukagrein og þess vegna að velja líka ákveðin námskeið úr öðrum námsleiðum en sínum eigin og fá metin inn í námið sitt. Þannig getur fólk klæðskerasaumað í raun nám sem hentar eiginlega að sumu leyti bara sér.
Á vefsíðu HÍ er líka að finna, undir hverri einustu grunnnámsleið, þær meistaranámsleiðir sem unnt er að taka að tilteknu grunnnámi loknu. Og því til viðbótar getur námsvalshjólið á síðunni líka hjálpað við finna grunnnámsleið sem hentar hæfileikum og áhuga og nú er komið námsvalshjól fyrir framhaldsnámið líka.
Ingibjörg Karlsdóttir, doktorsnemi í verkefnastórnun við HÍ, lauk BA-gráðu í félagsfræði við HÍ árið 2019 og kynnti sér vel hvað væri í boði að loknum þeim áfanga sem gæti hentað henni í framhaldsnámi því hún ætlaði ekki beinlínis að halda áfram í félagsfræðinni en nýta alla þá þekkingu sem þar hafði skapast ásamt þeim vinnubrögðum sem hún hafði tamið sér.
„Ég útskrifaðist með BA í félagsfræði með viðskiptafræði sem aukafag, ég sótti svo um meistaranám í verkefnastjórnun beint eftir grunnnámið. Ég skoðaði flest allar námsleiðirnar sem féllu undir viðskiptafræði í framhaldsnámi og fannst verkefnastjórnun passa best við mitt áhugasvið,“ segir Ingibjörg.
„Það sem heillaði mig mest við verkefnastjórnunarlínuna var námskeiðsframboðið og valfögin sem voru í boði. Ég sótti samt einnig námskeiðið Rekstur í sjávarútvegi sem var ekki á listanum yfir námskeið fyrir verkefnastjórnun á heimasíðu HÍ en ég sá það í kennsluskránni á hi.is og fékk auðveldlega leyfi til að taka það námskeið.“
Þetta dæmi sýnir hversu miklir möguleikar eru til staðar í HÍ að hagnýta sér fjölbreytnina og viða að sér gríðarlega breiðri þekkingu úr ólíkum námsleiðum. Mörg hafa augun í dag á framboð í fjarnámi og á vefsíðu HÍ er líka hægt að skoða hvaða námskeið eru í boði fjarnámi en þau eru 652 talsins þegar þetta er ritað.
Reyndar segir Ingibjörg að hún sé ekki alveg viss um að allir nemendur við HÍ geri sér grein fyrir að hægt sé að leita út fyrir það námskeiðaframboð sem er í boði fyrir sína námsleið. Nemendaráðgjöf HÍ er hins vegar til staðar fyrir öll sem þurfa upplýsingar um þá fjölbreyttu möguleika sem eru til staðar fyrir hvern og einn. „Þetta er nefnilega svo frábært að fara út fyrir línurnar og sækja sér þannig aukna þekkingu.“
Tók sér ársfrí eftir stúdentinn en fór svo á fullt í HÍ
Í könnunum sem HÍ gerir árlega meðal nýnema við skólann kemur í ljós að einungis þriðjungur nýstúdenta hefur háskólanám sama ár og þeir ljúka stúdentsprófi. Ingibjörg tilheyrir þeim stóra hluta sem lætur ár líða áður en sest er á skólabekk að nýju.
„Ég útskrifaðist frá Menntaskólanum við Sund 2013 af félagsfræðibraut, tók mér eitt ár í pásu áður en ég skráði mig í HÍ og ferðaðist með vinkonum mínum í þrjá mánuði þvert yfir hnöttinn. Ég hef virkilega gaman af því að ferðast og upplifa nýja hluti, ég er líka dugleg að elda og er að verða betri í því að baka,“ segir doktorsneminn hlæjandi sem þarf svo sannarlega að sinna náminu þessa dagana og það dregur auðvitað úr tækifærum í bakstrinum. Að auki er Ingibjörg í fullu starfi hjá flugfélaginu Play.
Frábært samstarf við leiðbeinandann
„Í rauninni hafði ég ekki hugmynd um að ég myndi skrá mig í doktorsnám þegar ég byrjaði í meistaranáminu, það var sko aldrei planið,“ segir Ingibjörg og brosir.
„Fyrst þegar ég heyrði af einni sem ætlaði í doktorsnám þá fannst mér það mjög fjarri mér og mínum áætlunum en allt í einu er ég komin á þann stað og gæti ekki ímyndað mér annað.“
Ingibjörg segist hafa verið hvött til þess að fara í doktorsnám af Ingu Minelgaité, prófessor í verkefnastjórnun og leiðbeinanda hennar, og það megi í raun segja að hún hafi verið kveikjan af því að Ingibjörg skráði sig í doktorsnám. Hún segir að þær nöfnurnar hafi farið vandlega yfir markmið sín og áhugasvið sem að varð til þess að Ingibjörg fann það viðfangsefni sem hana langaði virkilega að takast á við og rannsaka.
„Inga teiknaði í rauninni bara framtíðina mína upp á blað, ég get alveg viðurkennt að ég var ekki alveg sannfærð fyrst, en það má segja að margt sem var teiknað upp á þetta blað hafi ræst hingað til og rúmlega það, þannig ég er bara spennt fyrir framhaldinu!“
Rannsóknir voru Ingibjörgu ekki alveg framandi þegar hún hóf doktorsnámið því hún hafði áður unnið tvær sjálfstæðar rannsóknir í meistaranáminu með styrkjum frá Nýsköpunarsjóði námsmanna frá Rannís og Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka.
„Ég lærði gríðarlega mikið af því hvernig rannsóknir ganga fyrir sig og lærði betur að koma niðurstöðum á blað í gegnum það ferli, sjá hluti betur með augum rannsakanda og varð betri námsmaður á seinna ári í meistaranámi vegna þessarra rannsókna sem ég fékk styrk til að stunda. Ég fékk einnig aukinn áhuga á því að rannsaka málefni sem ég er forvitin um og það er gríðarlegur lærdómur í því að taka viðtöl við sérfræðinga á sínu sérsviði. Það að taka viðtöl við einstaklinga eitt og sér skapar rosalega þekkingu.“
„Í rannsókninni skoða ég meðal annars hvernig sérstök skilgreind verkefni skapa ávinning fyrir hagsmunaaðila í gegnum samþættingu sjálfbærrar þróunar, bæði í sjávarútvegi og jarðvarmageiranum hérlendis. Ég skoða hver sé núverandi þekking á sviði sjálfbærni í verkefnastjórnun almennt og hver sé þróun verkefna á Íslandi í þessum tveimur atvinnugeirum sem tengjast sjálfbærum umbreytingum,“ segir Ingibjörg um doktorsrannsókn sína.
Meistaranámið opnaði ótrúlega margar dyr
Ingibjörg segist ekki hafa gert sér miklar væntingar í byrjun meistaranámsins því hún vissi í rauninni ekki þá hvað verkefnastjórnunarlínan myndi opna margar dyr fyrir sig.
„Ég fékk frábært tækifæri að hjálpa við kennslu og rannsóknir á meðan ég var í meistaranáminu og lærði þar mjög mikið sem ég hef tekið með mér inn í doktorsnámið. Á meðan ég var í meistaranáminu skall COVID-19 á eftir eina og hálfa önn þannig ég var mest megnis heima og þráði að komast í tengingu við aðra nemendur sem var erfitt á þeim tíma. Þess vegna bauð ég mig fram í stjórn Maestro og gengdi störfum formanns Maestro árið 2020-2021. Maestro er félag meistaranema við Viðskiptadeild og Hagfræðideild. Þar kynntist ég frábærum hópi sem að vann mjög vel saman. Fyrst var allt rafrænt svo var svo gott að hittast í eigin persónu þegar það var loks leyft,“ segir Ingibjörg.
Mikil tengsl við atvinnulíf
Háskólar eru undirstaða framfara og í raun vagga nýjunga sem síðar eru oft þróaðar áfram til hagnýtingar í atvinnulífinu. Innan beggja geira eru gríðarlega mikilvæg öfl sem þurfa að vinna saman til að þjóðir verði samkeppnisfærar. Ingibjörg segist vera mjög þakklát því hversu tengslin við atvinnulífið voru sterk í náminu sem hún valdi sér.
„Það var farið í heimsóknir í fyrirtæki og reglulegir gestafyrirlesarar úr atvinnulífinu sem hjálpaði mér að máta mig við allskonar atvinnugreinar og námið varð strax meira lifandi. Það er hægt að lesa hundrað bækur en reynslusögur frá fólki sem hefur unnið stór og mikil verkefni eru ómetanlegar og gefur nemendum mikla innsýn sem er svo mikilvægt,“ segir Ingibjörg.
„Námið og sú þekking sem ég hef aflað mér í gegnum MS-nám í verkefnastjórnun og nú í doktorsnámi hafa nýst mér á marga vegu þar sem ég starfa nú sem sérfræðingur í sjálfbærni hjá flugfélaginu Play. Ég hef mjög gaman af því að starfa í fluggeiranum og að rannsaka samtímis því í doktorsnáminu sjálfbærni í verkefnum í sjávarútvegi og jarðvarma. Ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi enda er umhverfið sem ég vinn í mjög ört og það heldur manni á tánum. Ég hef öðlast mikla þekkingu á verkefnum og sjálfbærni fræðilega í gegnum námið en nota það svo í praktík í vinnunni.“
Rannsakar sjálfbærni í sjávarútvegi og jarðvarmageiranum
Og þá kemur að því að ræða sjálft doktorsnámið en doktorsrannsókn Ingibjargar helgast ekki af einni ritsmíð heldur samanstendur hún af fimm ólíkum fræðigreinum sem hún vinnur markvisst að.
„Ég fer þess vegna um nokkuð víðan völl sem er virkilega skemmtilegt. Í rannsókninni skoða ég meðal annars hvernig sérstök skilgreind verkefni skapa ávinning fyrir hagsmunaaðila í gegnum samþættingu sjálfbærrar þróunar, bæði í sjávarútvegi og jarðvarmageiranum hérlendis. Ég skoða hver sé núverandi þekking á sviði sjálfbærni í verkefnastjórnun almennt og hver sé þróun verkefna á Íslandi í þessum tveimur atvinnugeirum sem tengjast sjálfbærum umbreytingum.“
Þegar Ingibjörg er spurð frekar um kveikjuna að viðfangsefninu þá segir hún að rannsóknin hafi sprottið út frá meistararitgerðinni sinni sem sneri að verkefnum í íslenskum sjávarútvegi.
„Við aðlöguðum rannsóknarmódelið úr meistararannsókninni að jarðvarmageiranum og áætlunin fyrir rannsóknina er í raun að svala forvitni minni um þessa tvo mikilvægu atvinnugeira. Áhugi minn á sjávarútvegi og jarðvarmageiranum helgast í rauninni bara af minni eigin forvitni. Ég er heilluð af mætti íslenskrar náttúru og þessir tveir geirar eru svo gríðarlega stór partur af íslenskri menningu að mig langaði að rannsaka betur hvernig verkefnum væri háttað í þessum tveimur atvinnugeirum sem ég hafði enga reynslu af á undan. Þar sem rannsóknin er byggð á greinaskrifum þá skoða ég einnig aðra vinkla sem tengjast verkefnastjórnun almennt.“
Inga Minelgaité er leiðbeinandi Ingibjargar í doktorsnáminu og hún var það einnig í meistaraverkefninu ásamt David Cook, rannsóknasérfræðingi við Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ. „Ég mæli með að vera í góðu sambandi við leiðbeinandann þegar verið er að vinna rannsóknarverkefni því það gerir þetta flókna og erfiða ferli mun skilvirkara.“