Ótal viðburðir á Alþjóðlegu ári ljóssins
Ljósakassi með skemmtilegum tilraunum og tækjum fyrir grunnskólabörn, landsverkefni um myrkurgæði, ljósmyndasýningar, stjörnuskoðun í beinni útsendingu, fyrirlestrar og ráðstefnur eru meðal þess sem boðið verður upp á hér á landi á Alþjóðlegu ári ljóssins sem hófst formlega í gær með opnunarhátíð í Háskóla Íslands að viðstöddu fjölmenni.
Sameinuðu þjóðirnar, sem fagna 70 ára afmæli í ár, hafa útnefnt árið 2015 Alþjóðlegt ár ljóssins. Á árinu verður ýmissa merkisviðburða í sögu vísindanna minnst. Haldið verður upp á ár ljóssins um víða veröld í þeim megintilgangi að vekja fólk til vitundar um hlutverk ljóss og ljóstækni í daglegu lífi okkar.
Á opnunarhátíð í Hátíðasal Háskóla Íslands í gær var dagskránni ýtt úr vör að viðstöddum verndara Alþjóðlegs árs ljóssins á Íslandi, Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, stýrði dagskrá en nemendur Alþjóðaskólans á Íslandi hófu dagskrána með skemmtilegu verki sem tengist ljósinu. Þá fluttu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ávörp ásamt Árna Snævarr, fulltrúa frá Sameinuðu þjóðunum. Þeir Kristján Leósson, eðlisfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Frímann Kjerúlf, listamaður kynntu í framhaldinu ljósleiðarahljóðfæri sem verið hefur í þróun í samstarfi Raunvísindastofnunar Háskólans, Nýsköpunarmiðstöðvar og listamanna og verður það hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík.
Guðrún Bachmann, fulltrúi í undirbúningsnefnd fyrir Alþjóðlegt ár ljóssins innan Háskóla Íslands, fór í framhaldinu yfir helstu viðburði á árinu en þeir eru allmargir og tengjast m.a. öllum fræðasviðum háskólans. Má þar nefna Hreyfiafl myrkurs í norðrinu, stóra alþjóðlega ráðstefnu sem fram fer í febrúar, og veglega fyrirlestraröð sem hefst í sama mánuði. Stærsta verkefni ársins verður hins vegar svokallaður ljósakassi sem er gjöf til allra grunnskóla á landinu. Þar verður að finna kennslugögn til að glæða kennslu í eðlisfræði lífi en líka hugvísindi og félagsvísindi sem tengjast ljósinu sem fyrirbæri. Ótal fleiri verkefni og uppákomur verða á árinu en sérstök áhersla verður á miðlun fróðleiks um ljós og myrkur til ungu kynslóðarinnar.
UNESCO og Félag Sameinuðu þjóðanna eru helstu bakhjarlar Alþjóðlegs árs ljóssins og er Háskóli Íslands í nánu samstarfi við samtökin. Meðal annarra samstarfsaðila má nefna RÚV, Ljóstæknifélagið, Símann, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Listaháskólann. Fleiri eru enn að bætast í hópinn.
Nánari upplýsingar um ár ljóssins er að finna á ljos2015.hi.is og á Facebook-síðu ársins.