Skip to main content
18. september 2024

Ómetanlegar gjafir frá Vesturheimi 

Ómetanlegar gjafir frá Vesturheimi  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands hefur tekið við ómetanlegum gjöfum frá Vesturheimi en formleg afhending þeirra fór fram á viðburði í Veröld – húsi Vigdísar þann 12. september. Annars vegar var um að ræða handrit og persónulega muni eins markverðasta skálds íslenskra vesturfara, Helgu Steinvarar Baldvinsdóttur, og hins vegar bókasafn frá Arborg í Manitoba sem geymir mörg af helstu ritum bókmennta- og menningarsögu íslenskra vesturfara og afkomenda þeirra, þökk sé hjónunum Aðalbjörgu og Þórarni Guðna Sigvaldason.

Handrit og persónulegir munir Helgu Steinvarar Baldvinsdóttur komu frá Portland í Oregon-fylki. Helga Steinvör (1858 ̶ 1941) sigldi frá Íslandi árið 1873 og nam land í Kanada og Bandaríkjunum. Hún orti ljóð undir skáldanafninu Undína og varð eitt markverðasta skáld íslenskra vesturfara sem fyrr segir. Ljóðin hennar voru gefin út á Íslandi að henni látinni árið 1952 í bókinni Undína. Kvæði, þökk sé dóttur Helgu, Soffíu Kristínu Guðrúnu (1890–1966), sem Helga bjó hjá síðustu æviárin í Poulsbo, Washington, og Snæbirni Jónssyni (1887 ̶ 1978), bóksala í Reykjavík. Eftir burtsiglinguna árið 1873 sá Helga aldrei Ísland og svona yrkir hún í lokalínum ljóðsins „Í Lincoln Park“ árið 1937, ekki löngu fyrir andlátið: 

[V]ið erum hjer, en hugurinn er heima;
því hverjum lærist fyrstu ást að gleyma?

gestir i verold

Fjölmenni var í fyrirlestrarsal Veraldar þegar gjafirnar voru afhentar. MYND/Kristinn Ingvarsson

Tókst á við óblíð örlög

Í ljóðabókinni Undína ritar Snæbjörn Jónsson inngang um líf Helgu og list. Líkt og þar kemur fram, tekst Helga á við óblíð örlög í lífi sínu: Hún jarðar fimm af börnunum sínum, skilur, nauðug viljug, við fyrri eiginmann sinn, Jakob Líndal Jónatansson (1853–1904), og seinni eiginmaður hennar, Skúli Árni Freeman (1867 ̶ 1904), ferst af slysförum. Eftir boðaföllinn yrkir hún lítið. En listfengi hennar finnur sér farveg í hannyrðum, meðal annars í gullfallegum púðum sem prýða nú tvær heimsálfur. 

Það var barnabarnabarn Helgu, sálfræðingurinn og rithöfundurinn dr. Steve Stephens, ásamt barnabarni Helgu, Walter B. Freeman, sem færðu HÍ að gjöf handrit og persónulega muni Helgu. Gjöfin er nú staðsett í Veröld – húsi Vigdísar og hugað verður að varðveislu hennar í samstarfi við bæði Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Þjóðminjasafn Íslands. 

Steve Stephens

Sálfræðingurinn og rithöfundurinn dr. Steve Stephens ávarpar gesti í Veröld en í baksýn er mynd af langömmu hans, Helgu Steinvöru. MYND/Kristinn Ingvarsson

Steve hefur þýtt ljóðin hennar og skrifað tveggja binda sögulega skáldsögu um líf hennar og skáldskap, efni sem hann reifaði í máli og myndum af tilefni gjafarinnar. Í Vesturheimi marka skrif Steves viss kaflaskil í viðtökusögu skáldskapar Undínu. Þótt henni hafi verið spáð framtíðarsæti í íslenskum bókmenntum skömmu fyrir aldamótin 1900, hefur minna verið skrifað um skáldskap hennar en annarra markverðra skálda íslenskra vesturfara, einnig hér á landi. 

Með ljóðum sínum fangar Helga reynslu margra íslenskra vesturfara um og eftir aldamótin 1900 og gefur okkur, hérna megin hafs jafnframt tækifæri til að skynja ómælisdjúpin í lífi þeirra og skáldskap. Þar að auki ferja sum af ljóðum hennar lesendur til móts við tilvistar- og útlegðarstef heimsbókmennta. 

Sameiginlegur menningararfurinn rís nú úr djúpinu, að því leyti að bækur Steve Stephens komu út árið 2023. Sama ár birtist grein um þau Undínu og Stephan G. Stephansson eftir dr. Birnu Bjarnadóttur, rannsóknasérfræðing við Mála- og menningardeild HÍ og stjórnarmeðlim Vigdísarstofnunar, í greinasafninu Icelandic Heritage in North America á vegum University of Maitoba Press. Þau Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor emerita, Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus og Úlfar Bragason, prófessor emeritus, ritstýrðu. Grein eftir Birnu Bjarnadóttur um Undínu birtist einnig nýlega í Literary Encyclopedia og hún vinnur að áframhaldandi rannsóknum á skáldskap Undínu.

Steve Stephens, afkomandi Helgu Steinvarar Baldvinsdóttur, Undínu skáldkonu, og Jón Atli Benediktsson skoða hluta þeirra persónulegu muna Helgu sem Háskólanum voru afhentir. MYND/Kristinn Ingvarsson

Flateyjarbók og frumútgáfa af Andvökum Stephans G. í bóksafninu frá Arborg

Bókasafnið frá Arborg, Manitoba er önnur ómetanleg gjöf sem Háskólanum var færð við þetta tilefni. Safnið geymir mörg af helstu ritum bókmennta- og menningarsögu íslenskra vesturfara og afkomenda þeirra, þökk sé hjónunum Aðalbjörgu (fædd Simundsson, 1910–2000) og Þórarni Guðna Sigvaldason (1910 –2002). Meðal ritanna má nefna Flateyjarbók (I-III); frumútgáfu Eldingar (1889), skáldsögu Torfhildar Hólm (1845 ̶ 1918); endurskoðaða þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar (1791 ̶ 1852) á Odysseifs-Kviðu Hómers (1912); frumútgáfuna af Andvökum Stephans G. Stephanson (1853 ̶ 1927); Ritsafn Gests Pálssonar (1852–1891);  Kertaljós, ljóðasafn Jakobínu Johnson (1883–1977); Ég vitja þín, æska eftir Ólínu Jónasdóttur (1885–1956);  skáldsögur Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar (1866–1945); Vestur-Íslenzkar Æviskrár (I-V); skáldverk Guttorms J. Guttormssonar (1878 – 1966), skálds Nýja Íslands; helstu tímarit sem íslenskir vesturfarar gáfu út; ljóðabækur Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi; margar af skáldsögum Halldórs Laxness, og Veizla undir grjótvegg eftir Svövu Jakobsdóttur.

Börn, barnabörn og barnabarnabörn þeirra Aðalbjargar og Guðna gáfu bókasafnið og hingað komu þau fljúgandi frá Toronto, Calgary og Washington til að vera viðstödd viðtöku gjafarinnar. Af því tilefni reifuðu þau dr. Oskar Sigvaldason og Alda Sigvaldason, börn Aðalbjargar og Guðna, sögu forfeðra sinna á Íslandi, líf foreldra sinna sem voru íslenskir innfytjendur af fyrstu kynslóð, ástríðu þeirra fyrir lestri og söfnun bóka, sem og þátttöku í þróun sambands fólks af íslenskum ættum í Kanada við Íslendinga á gamla landinu. 

Oskar Sigvaldason

Oskar Sigvaldason og Alda, systir hans, reifuðu sögu forfeðra sinna á Íslandi, líf foreldra sinna sem voru íslenskir innfytjendur af fyrstu kynslóð, ástríðu þeirra fyrir lestri og söfnun bóka. MYND/Kristinn Ingvarsson 

Oskar og Alda alast bæði upp við íslenskuna, gengu í barnaskólann Vestri, ekki langt frá Riverton, Manitoba, þar sem flest af börnunum töluðu einungis íslensku þegar þau byrjuðu í skólanum. Á fullorðinsárum hafa þau bæði lagt rækt við menningarfinn í Vesturheimi með ýmsum hætti og þess má geta að Alda er ein af Fjallkonum Norður-Ameríku. Sonur Oskars, Thor Sigvaldason, og dætur Öldu, þær Leslie Nadine Johannson og Densie C. Fong, eru skiljanlega á vegum enskunnar. Sama gildir um barnabarnabörn þeirra Aðalbjargar og Guðna. 

Öll gera þau sér fulla grein fyrir verðmætunum sem felast í bókasafninu og eftir nokkur samtöl yfir hafið og fundahöld í Klettafjöllum Kanada vorið 2023, tók stórfjölskyldan þá ákvörðun að bjóða Háskóla Íslands bækurnar að gjöf. Stuðningur Icelandair við flutning bókasafnsins innsiglaði síðan gjörninginn. Bækurnar eru í Veröld – húsi Vigdísar og hugað verður að varðveislu þeirra í samstarfi við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.  

Ómetanlegar gjafir sem styrkja tengsl HÍ við Vesturheim

Viðtaka þessara ómetanlegu gjafa tengist með beinum hætti öðrum viðburðir en við opnun Vigdísarstofnunar, alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar sem starfar undir merkjum UNESCO, borið 2017 tilkynnti HÍ um stofnun styrktarsjóðs í nafni Stephan G. Stephansson. Markmið sjóðsins er að stuðla að rannsóknum á bókmennta- og menningarsögu íslenskra vesturfara og afkomenda þeirra vestan hafs á hinu alþjóðlega sviði. Þau Stephan Vilberg Benediktson, barnabarn Stephans G., og Adriana Benediktson, eiginkona Stephans Vilbergs, lögðu til stofnfé sjóðsins. Heather Alda Ireland, barnabarn Guttorms J. Guttormssonar, skálds Nýja Íslands, og William Ireland (1934 ̶ 2023), komu einnig að tilurð sjóðsins. Af öðrum helstu styrkveitendum má nefna þau Donald K. Johnson, Arni Thorsteinson, Oskar Sigvaldason, Susan Rodriguez Abbiati, Paul David Benediktson, Stephan Robert Benediktson og Mooréu Gray. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, lagði sitt lóð á vogarskálarnar á fyrstu stigum söfnunarinnar. 

Birna Bjarnadottir

Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur við Mála- og menningardeild HÍ og stjórnarmeðlimur Vigdísarstofnunar, ávarpar samkomuna en hún hefur bæði sinnt rannsóknum á menningararfi Vestur-Íslendinga og að fjáröflun fyrir styrktarsjóð í nafni Stephan G. Stephansson innan HÍ. MYND/Kristinn Ingvarsson

Frá því í júní 2018 hefur Háskóli Íslands notið stöðu góðgerðarstofnunar hjá kanadískum skattayfirvöldum, einn af fáum háskólum utan Kanada, Bandaríkjanna og Bretlands, og í samstarfi við rektor Háskóla Íslands hefur Birna Bjarnadóttir unnið að áframhaldandi fjáröflun í sjóðinn beggja vegna hafs. Vorið 2022 staðfestu stjórnvöld á Íslandi myndarlegan stuðning við sjóðinn og markmið hans. Hinar ómetanlegu gjafir sem hafa nú borist Háskóla Íslands munu án efa styrkja tengsl HÍ við frændgarð okkar í Vesturheimi. Gjafirnar munu jafnframt styrkja svo um munar undirstöður rannsókna HÍ á ómælisdjúpum bókmennta- og menningarsögu íslenskra vesturfara og afkomenda þeirra.

Fulltrúar Háskóla Íslands og afkomendur Helgu Steinvarar og Aðalbjargar og Þórarins Guðna við afhendingu gjafanna í Veröld - húsi Vigdísar. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Oskar Sigvaldason, Alda Sigvaldason, Birna Bjarnadóttir og Steve Stephens. MYND/Kristinn Ingvarsson