Skip to main content
22. október 2025

Nýtt Rannsóknasetur um ójöfnuð sett á laggirnar í HÍ

Nýtt Rannsóknasetur um ójöfnuð sett á laggirnar í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rannsóknarsetur um ójöfnuð við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands var opnað með formlegum hætti föstudaginn 10. október í fyrirlestrasal Eddu að viðstöddu fjölmenni. Markmið setursins er að samþætta gögn, aðferðir og viðfangsefni sem geta varpað ljósi á ójöfnuð á Íslandi yfir tíma og í alþjóðlegum samanburði. Að rannsóknarsetrinu standa þau Sigrún Ólafsdóttir og Stefán Hrafn Jónsson, prófessorar í félagsfræði, og David Reimer, prófessor í félagsfræði og menntavísindum.

Það var Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sem opnaði setrið formlega en Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra og Jason Beckfield, prófessor í félagsfræði við Harvard-háskóla, fluttu erindi við opnunina sem snertu bæði réttlát orkuskipti og samspil rannsókna og stefnumótunar. Í því samhengi má geta að Jason veitti Pete Buttigieg, fyrrverandi samgönguráðherra Bandaríkjanna, ráðgjöf um réttlát orkuskipti í Bandaríkjunum.

Silja og Johann

Silja Bára R. Ómarsdóttir rektor og Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra við opnun setursins í Eddu. MYND/Gunnar Víðir Þrastarson

Rannsóknir á sviði ójöfnuðar hafa verið stundaðar um langt árabil við Háskóla Íslands, en uppruna rannsóknarsetursins má rekja aftur til ársins 2009 þegar Ísland hóf þátttöku í Alþjóðlegu viðhorfakönnuninni (International Social Suvey Programme, ISSP) en það ár var áherslan einmitt á ójöfnuð. Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg, prófessorar í félagsfræði, leiddu þá gagnaöflun og Sigrún hefur stýrt þátttöku Íslands í ISSP síðan þá ásamt samstarfsfólki. Viðfangsefni Alþjóðlegu viðhorfakönnunarinnar er breytileg frá ári til árs (t.d. heilsa og heilbrigðiskerfið, umhverfismál, viðhorf til ríkisins, fjölskylda og breytt kynjahlutverk) og í hverri könnun eru einhver viðfangsefni sem tengjast ójöfnuði. „Einnig eru kannanir almennt endurteknar á 10 ára fresti þannig að áherslan var aftur á ójöfnuð árið 2019. Þar af leiðandi eigum við núna gögn þar sem hægt er að bera saman viðhorf Íslendinga til og reynslu af ójöfnuði yfir tíma og í samanburði við viðhorf og reynslu almennings í u.þ.b. 40 löndum víða um heim,“ bendir Sigrún á.

Fjögur áherslusvið í setrinu í upphafi

Áhersla rannsóknasetursins í upphafi verður á að greina ójöfnuð á fjórum sviðum en þau eru heilsa, menntun, kyn/fjölskylda og umhverfismál, með áherslu á loftslagsbreytingar og réttlát orkuskipti. Þessi svið eru valin af því að þau sem standa að setrinu hafa áratugareynslu að því að rannsaka þessi viðfangsefni og hafa fengið styrki frá íslenskum og alþjóðlegum rannsóknarsjóðum til að þess. „Þessi áherslusvið geta þó breyst þegar frá líður og fer eftir hvaða fræðafólk hefur áhuga á að starfa með setrinu. Sem dæmi um hugsanlegar áherslur má nefna að viðfangsefni Alþjóðlegu viðhorfakönnunar árið 2025 voru stafræn samfélög og gervigreind. Einnig kalla breytingar á samsetningu þjóðarinnar klárlega á að skoða ójöfnuð út frá innflytjendastöðu og aldri. Aðstandendur setursins telja æskilegt að bæta þessum áherslusviðum við og öðrum þar sem ójöfnuður er líklegur til að birtast og hafa afleiðingar,“ segir Sigrún.

Gögn sem uppfylla hæstu gæðastaðla innan félagsvísinda og þróun aðferðafræði á heimsmælikvarða eru forsenda þess að hægt sé að rannsaka samfélagið, þar með talið ójöfnuð, á kerfisbundin hátt. Setrið byggir á áralöngu starfi við að tryggja þátttöku Íslands í alþjóðlegum könnunum en ásamt því að leiða þátttöku Íslands í ISSP hefur Sigrún haft forystu um þátttöku Íslands í European Social Survey og European Values Study. Það gerir hún nú ásamt Ásdísi Arnalds, lektor í félagsráðgjöf, og í góðu samstarfi við Félagsvísindastofnun. „Í gegnum tíðina hefur oft reynst erfitt að afla fjármagns til að tryggja þátttöku og aðstandendur hafa þurft að útvega fjármagn fyrir hverja og eina fyrirlögn. Það breyttist núna í vor þegar verkefnið Samfélagsgrunnar var valið inn á Vegvísi Rannís, en þangað eru valin verkefni sem eru talin endurspegla mikilvægustu grunninnviði íslenskra vísinda,“ segir Sigrún.

Auk Sigrúnar Ólafsdóttur standa þeir Stefán Hrafn Jónsson, prófessor í félagsfræði, og David Reimer, prófessor í félagsfræði og menntavísindum, að hinu nýja rannsóknasetri. MYND/Gunnar Víðir Þrastarson

Fræðafólk á félagsvísindasviði hefur lengi lagt sitt af mörkum til þróunar aðferða í félagsvísindum. Á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir á því sviði, meðal annars vegna flóknari og betri gagna, fullkomnari tölfræðiforrita og gervigreindar. Markmið aðstandenda setursins er að vera áfram leiðandi á þessari braut, bæði með því að nýta nýjar og fjölbreyttar aðferðir í rannsóknum en einnig í gegnum kennslu og þjálfun nemenda og nýdoktora. Í tengslum við þær áherslur bauð námsbraut í félagsfræði við HÍ upp á námskeið síðasta haust í samstarfi við The Summer Institutes in Computational Social Science við Duke-háskóla í Bandaríkjunum. Hingað komu kennarar frá Bandaríkjunum og Finnlandi og kenndu námskeið á framhaldsstigi um tölvutengd félagsvísindi.

Þverfræðilegt rannsóknasetur

Auk þeirra þriggja sem leiða setrið kemur fræðafólk úr öðrum greinum að setrinu. Skipulagið verður með þeim hætti að sá aðili sem helst hefur komið að rannsóknum og kennslu á hverju viðfangsefni setursins leiðir þá áherslu. Þannig leiðir Sigrún áherslusvið setursins um heilsu, David áherslusvið um menntun, Ásdís Arnalds áherslu um kyn og fjölskyldu og Jason Beckfield, prófessor við Harvard-háskóla, og Sigrún áherslu á umhverfismál. Sigrún leiðir jafnframt verkefnið Samfélagsgrunna en auk hennar eru þau Eva H. Önnudóttir, prófessor í stjórnmálafræði, Jón Gunnar Ólafsson, lektor í blaðamennsku, og Ásdís í stjórn þess verkefnis. Kári Kristinsson, prófessor í viðskiptafræði, Stefán Hrafn Jónsson og David Reimer leiða aðferðafræðilega þróun setursins.

gestir

Fjöldi gesta var viðstaddur opnun setursins. MYND/Stefán Hrafn Jónsson

Þegar Sigrún er innt eftir því af hverju það sé mikilvægt að stofna rannsóknarsetur um ójöfnuð á Íslandi árið 2025 bendir hún á þetta sé rétti tíminn þar sem hún og annað fræðafólk hafi á síðustu árum og áratugum byggt upp reynslu, sérfræðiþekkingu og gögn til að stunda rannsóknir sem greina ójöfnuð á Íslandi yfir tíma og í alþjóðlegu samhengi. „Lengi vel var álitið að ójöfnuður væri varla til staðar á Íslandi og í alþjóðlegum samanburði er hann tiltölulega lítill hér á landi. Hins vegar hefur þróun síðustu áratuga verið í átt að verulegum ójöfnuði hér á landi og sá ójöfnuður sem alltaf hefur verið til staðar hefur komið betur upp á yfirborðið. Samfélagið hefur einnig orðið flóknara með breyttri íbúasamsetningu og því er einkar mikilvægt að skilja hvernig ójöfnuður birtist í íslensku samfélagi og hvaða afleiðingar hann hefur,“ segir Sigrún enn fremur.

Hún bætir jafnframt við að mikilvægt sé að svara kalli samfélagsins um að nýta þá þekkingu sem skapast innan fræðasamfélagsins til að bæta samfélagið. „Því höfum við einstaklega mikinn áhuga á að skoða hvernig rannsóknir okkar geta nýst í stefnumótun og viljum byggja upp öflugt samstarf bæði við hagaðila og stefnumótendur þar sem við teljum að traustar rannsóknir byggðar á gögnum sem uppfylla ströngustu gæðakröfur félagsvísindanna séu forsenda þess að byggja upp öflugt og sanngjarnt samfélag.“

Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, segir frá markmiðum setursins við opnun þess.