Byggja upp gagnagrunn um viðhorf og lífshlaup Íslendinga í alþjóðlegum samanburði

„Við lifum á tímum þar sem ógn steðjar að rannsóknum og vísindum almennt, og kannski sérstaklega félagsvísindum, og því er afar mikilvægt að við höldum áfram að taka þátt í þessum könnunum til að fræðafólk innanlands og utan geti haldið áfram að greina og skilja íslenskt samfélag,“ segir Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hún vísar þarna til þátttöku Íslands í alþjóðlegum könnunum sem snerta viðhorf, lífsgildi og lífshlaup fólks hér á landi auk stjórnmálaviðhorfa, fjölmiðla og lýðræðis. Sigrún fékk fyrr á þessu ári tæplega 50 milljóna króna styrk ásamt samstarfsfólki til þess að halda áfram þátttöku í könnununum og byggja þannig upp gagnagrunna sem veita innsýn inn í veruleika Íslendinga yfir lengri tíma og í alþjóðlegu samhengi.
Að sögn Sigrúnar kemur styrkurinn úr Innviðasjóði Rannís og „okkar verkefni er valið til að vera á Vegvísi um rannsóknarinnviði en slík verkefni eru algeng í mörgum Evrópulöndum.“ Á Vegvísa um rannsóknarinnviði veljast viðamiklir innviðir sem uppfylla kröfur um að styðja við gæði í rannsóknum og eru rannsakendur hvattir til að hugsa stórt og að efla samstarf og samnýtingu rannsóknarinnviða. Þó að styrkurinn til verkefnisins í ár sé um 50 milljónir er um að ræða loforð um áframhaldandi styrk til næstu fjögurra ára. Verkefni Sigrúnar og samstarfsfólks nefnist „Samfélagsgrunnar: Rannsóknainnviðir til öflugra samfélags“ og er eitt tólf verkefna sem voru valin á vegvísinn í ár.
„Samfélagsgrunnar eru samstarfsverkefni vísindafólks og stofnana um uppbyggingu á megininnviðum í félagsvísindum. Einn megininnviður okkar eru gögn sem mæla viðhorf, hegðun, gildi og reynslu einstaklinga í samfélögum. Þó að mikilvægt sé að eiga slík gögn fyrir íslenskt samfélag þá verða gögnin enn verðmætari þegar þau eru sett í alþjóðlegt samhengi og sérstaklega ef um einhvers konar langtímagögn er að ræða,“ bendir Sigrún á.

Fræðafólk á sviði stjórnmálafræði, félagsfræði, félagsráðgjöf og blaðamennsku ásamt sérfræðingum innan ýmissa stofnana kemur að Samfélagsgrunnum en stjórnendur eru þau Eva H. Önnudóttir, Ásdís Arnalds, Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Ólafssson. MYND/Kristinn Ingvarsson
Unnið með fjölda aðila í samfélaginu
Hugmyndin að verkefninu kviknaði í samtali félagsvísindafólks á Íslandi um mikilvægi þess að sameinast um að byggja upp grundvallarinnviði frekar en að vera hvert í sínu horni að reyna að afla fjármagns og tryggja þátttöku. „Þetta byrjaði með samtali mínu og Evu H. Önnudóttur, prófessors við Stjórnmálafræðisdeild, sem stýrir nú Íslensku kosningarannsókninni (ÍSKOS). Síðar komu Ásdís Arnalds, lektor við Félagsráðgjafardeild, sem hefur komið að stjórn European Social Survey (ESS), European Values Study (EVS) og International Social Survey Programme (ISSP) hér á landi með mér, og Jón Gunnar Ólafsson, lektor við Stjórnmálafræðideild, sem heldur utan um fjölmiðlahluta ÍSKOS og hefur einnig tekið þátt í að tryggja þátttöku Íslands í könnunum á fjölmiðlum og blaðamennsku, inn í samtalið,“ segir Sigrún um tilurð verkefnisins.
„Í staðinn fyrir að senda inn nokkrar umsóknir um styrki fyrir mismunandi könnunum ákváðum við að byggja upp Samfélagsgrunna og vinna þannig saman að öflugri félagsvísindum á Íslandi,“ segir Sigrún enn fremur. Fjórmenningarnir eru í stjórn Samfélagsgrunna en auk þess koma fulltrúar frá öllum sviðum Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Reykjavík og aðilar sem njóta góðs af uppbyggingu innviða í félagsvísindum að verkefninu. Þar má nefna Hagstofu Íslands, Landlæknisembættið, Landskjörstjórn, Blaðamannafélag Íslands og Fjölmiðlanefnd.
Íslendingar búa þegar að ýmsum góðum gagnasöfnum á mismunandi sviðum félagsvísinda, þökk sé elju vísindafólks hér á landi. Nefna má að faðir Sigrúnar, Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor, setti Íslensku kosningarannsóknina (ÍSKOS) á laggirnar árið 1983, Stefán Ólafsson og Friðrik H. Jónsson hófu þátttöku Íslands í World Values Survey (WVS) upp úr 1980 en sú könnun breyttist síðar í European Values Study (EVS). „Við Jón Gunnar Bernburg hófum þátttöku Íslands í International Social Survey Programme (ISSP) árið 2009. Þessar kannanir, sem við höfum lengi tekið þátt í, eru mikilvægustu alþjóðlegu kannanirnar á viðhorfum og gildum almennings um allan heim og geta svarað spurningum eins og hvers konar heilbrigðiskerfi almenningur vill hafa, hvort Íslendingar séu ánægðir með heilbrigðisþjónustuna, hversu mikinn ójöfnuð almenningur er tilbúinn að samþykkja og hvort fólk sé tilbúið að bregðast við loftslagsbreytingum,“ segir Sigrún um mikilvægi kannananna.
Taka þátt í fleiri alþjóðlegum rannsóknum með Samfélagsgrunnum
Með Samfélagsgrunnum geta Sigrún og samstarfsfólk tryggt áframhaldandi þátttöku Íslands í þessum alþjóðlegu rannsóknum en um leið hafið þátttöku í öðrum alþjóðlegum samanburðarrannsóknum og þar með hafið uppbyggingu innviða sem nýtast við greiningu á fleiri sviðum samfélagsins. Þar má nefna alþjóðlegar rannsóknir sem skoða lífshlaup fólks frá vöggu til grafar og rannsóknir þar sem rýnt er í fjölmiðlafrelsi og blaðamennsku í alþjóðlegu samhengi. „Í grunninn stuðlar verkefnið að sterkari félagsvísindum á Íslandi með þverfaglegum áherslum með því að: 1) kortleggja hvaða gögn eru til og tryggja aðgengi að þeim; 2) byggja upp grundvallarinnviði og viðhalda þeim; og 3) stuðla að samstarfi og samnýtingu á gögnum á milli fræðasamfélagsins, stofnana og stefnumótenda,“ segir Sigrún.
Samkvæmt áætlunum hópsins mun Ísland alls taka þátt í níu umfangsmiklum alþjóðlegum rannsóknum á þremur meginefnissviðum. „Í fyrsta lagi viðhorf og lífsgildi Íslendinga, í öðru lagi lífshlaupið frá vöggu til grafar og í þriðja lagi lýðræði, kosningar og upplýsingamiðlun. Í fyrsta hlutanum leggjum við áherslu á þátttöku í þremur könnunum, European Social Survey (ESS), European Values Study (EVS) og International Social Survey Programme (ISSP). Í öðrum hlutanum leggjum við áherslu á þrjár kannanir, þar af tvær sem Ísland tekur ekki þátt í sem stendur, en það eru Growing up in Digital Europe (GUIDE), Gender and Generation Survey (GGS) og Survey of Aging and Retirement in Europe (SHARE). Í þriðja hlutanum einblínum við á Íslensku kosningarannsóknina, sem er ein mikilvægasta langtímarannsóknin á íslensku samfélagi en hefur líka alþjóðlegan hluta, og þrjár kannanir þar sem fjölmiðlar og blaðamennska eru til skoðunar, þ.e. The Worlds of Journalism Study (WJS), the Journalistic Role Performance Project (JRP) og Reuters Digital News Study (RDNS),” útskýrir Sigrún.
Sigrún bendir á að saman myndi þessar kannanir grundvallarinnviði í félagsvísindum og taki á viðhorfum, gildum, reynslu og lífshlaupi Íslendinga í alþjóðlegum samanburði. „Þetta hefur áhrif til dæmis á stefnumótun og rannsóknir af þessu tagi hafa aukið lífsgæði almennings, til dæmis með að sýna fram á hvaða þættir eru líklegir til að auka félagslega þátttöku eða stuðla að betri heilsu.“

Hafa komið að samningu spurningalista í ISSP-könnuninni
En hvað felst í þátttöku í jafnumfangsmiklum alþjóðlegum könnunum og hér eru nefndar? Sigrún tekur ISSP-könnunina sem dæmi. „Ég hef leitt þátttöku Íslands í henni frá 2009, fyrst með Jóni Gunnari Bernburg, síðan Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur og nú Ásdísi Arnalds. Sú könnun er lögð fyrir einu sinni á ári og er áherslan mismunandi á hverju ári. Sem dæmi má nefna var áherslan 2020 á umhverfismál, 2021 á heilsu og heilbrigðiskerfið, 2022 á fjölskyldu og breytt kynjahlutverk, 2023 á þjóðernis- og borgaravitund og 2024 á stafræn samfélög. Almenna reglan er sú að sama könnunin er lögð fyrir á 10 ára fresti og því eigum við núna orðið gögn sem annars vegar er hægt að bera saman við viðhorf almennings í u.þ.b. 40 löndum og hins vegar við viðhorf Íslendinga 10 árum fyrr,“ segir Sigrún sem leiddi ásamt samstarfsfólki samningu spurningalistans um heilsu og heilbrigðiskerfið.
„Vinnan snýst því annars vegar um mjög umfangsmikið alþjóðlegt samstarf og hins vegar að leggja könnunina fyrir hér á Íslandi og gera gögnin þannig úr garði að þau séu samþykkt inn í alþjóðlega gagnasafnið. Þar höfum við átt í mjög góðu samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands en lokaábyrgðin hvílir ávallt á herðum okkar vísindafólksins,” undirstrikar Sigrún.
Hún bendir jafnframt á að alþjóðlegu kannanirnar sem hópurinn tekur þátt í séu almennt álitnar af hæstu gæðum. „Sú viðurkenning að komast inn á Vegvísinn þýðir að við þurfum ekki að sækja um fjármagn fyrir hverja einustu fyrirlögn en það hefur verið raunveruleiki okkar sem höfum haft metnað fyrir þátttöku Íslands í alþjóðlegum könnunum hingað til.“
En hvernig nýtast öll þessi gögn sem verða til með þáttttöku í alþjóðlegu rannsóknunum? Sigrún bendir á að saman myndi þessar kannanir grundvallarinnviði í félagsvísindum og taki á viðhorfum, gildum, reynslu og lífshlaupi Íslendinga í alþjóðlegum samanburði. „Þetta hefur áhrif til dæmis á stefnumótun og rannsóknir af þessu tagi hafa aukið lífsgæði almennings, til dæmis með að sýna fram á hvaða þættir eru líklegir til að auka félagslega þátttöku eða stuðla að betri heilsu.“
Sigrún undirstrikar að eitt það mikilvægast við gögnin sé það að þau eru í opnum aðgangi sem þýðir að hver sem er getur nálgast gögnin og nýtt þau til eigin rannsókna. Það gerir bæði innlent og erlent fræðafólk. „Hér á landi notar fræðafólk í háskólunum þessi gögn í sínum rannsóknum og kennslu og einnig hafa gögnin verið notuð í nemendaritgerðir á öllum stigum háskólanáms. Fögnin skipta einnig máli í erlendu samhengi og þegar fræðasamfélagið er eins lítið og það er hér á Íslandi þá skiptir afar miklu máli að fræðafólk um allan heim birtir niðurstöður úr þessum könnunum, en íslensku gögnin eru notuð í mörgum rannsóknarverkefnum þrátt fyrir að enginn Íslendingur komi að vinnslu greinarinnar,“ útskýrir Sigrún.

Gögn úr könnunum skipta máli fyrir stefnumótun í ýmsum málaflokkum hér á landi.
Hún bætir við að stefnumótendur nýti gögnin með ýmsum hætti. „Til dæmis eru niðurstöður úr ESS-könnuninni reglulega notaðar bæði af stefnumótendum í einstaka löndum en einnig af mismunandi stofnunum Evrópusambandsins sem lítur á hana sem einn mikilvægasta innvið vísinda í álfunni. Þessi tenging er eitthvað sem við höfum mikinn áhuga á að byggja upp á Íslandi og viljum virkara samtal við stjórnvöld og stefnumótendur. Þessar kannanir gefa ómetanlega innsýn inn í viðhorf og reynslu Íslendinga og geta lagt grundvöll að því að skapa samfélag sem Íslendingar vilja í raun og veru. Þær geta einnig gefið vísbendingar um hvers konar stefnumótun er mikilvæg til að ná ákveðnum árangri og sýnt fram á hver er vilji fólks varðandi stefnumótun og hvers vegna,“ segir hún.
Sem dæmi nefnir hún að rannsóknir hennar og samstarfsfólks hafi sýnt að heilsa fólks er almennt betri í stærri velferðaríkjum. „Sé markmiðið að draga úr ójöfnuði í heilsu, og þá sérstaklega á milli þeirra sem fædd eru í landinu og innflytjenda, er mikilvægt að móta stefnu sem tengist innflytjendum sérstaklega. Á sama hátt höfum við sýnt fram á að traust til stjórnmála skiptir grundvallarmáli þegar kemur að vilja fólks til að bregðast við loftslagsbreytingum á réttlátan hátt og almenningur er tilbúinn til aðgerða sem styðja réttlát umskipti ef hann treystir sitjandi stjórnvöldum.“
Val Samfélagssgrunna á Vegvísinn undirstrikar grundvallargildi verkefnisins fyrir íslenskt samfélag og vísindi. „Þessar kannanir veita einstaka innsýn í veruleika Íslendinga yfir tíma og í alþjóðlegu samhengi. Án þeirra væri mun erfiðara að skilja þróun íslensks samfélags. Það hefur oft reynst erfitt að sannfæra þá sem fjármagnið hafa, hvort sem það er innan háskólasamfélagsins eða stofnana sem veita rannsóknarstyrki, að félagsvísindin hafi raunverulega innviði og oft og tíðum höfum við verið föst í því að innviðir þýði einhver stór og og áþreifanleg tæki. Gagnagrunnar sem innihalda svör þátttakenda við könnunum, eins og þeim sem hér eru nefndar, eru hins vegar grundvallarinnviðir í félagsvísindum, eins og viðurkennt er af Evrópusambandinu, og án þeirra missum við skilning á lífi, viðhorfum og reynslu almennings og á þeim þáttum sem geta stuðlað að betra samfélagi,“ segir Sigrún að lokum.
