Skip to main content
19. janúar 2024

Nýtt nám tengt félags- og tilfinningahæfni í skóla- og frístundastarfi

Nýtt nám tengt félags- og tilfinningahæfni í skóla- og frístundastarfi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Samstarfsyfirlýsing Háskóla Íslands, Embættis landlæknis, Kennarasambands Íslands, Félags fagfólks í frístundaþjónustu, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og mennta- og barnamálaráðuneytis um meistaranám til að efla fagfólk í skóla- og frístundastarfi á sviði tilfinninga- og félagshæfni og geðræktar barna og unglinga var undirrituð á ráðstefnunni Menntun og farsæld barna í skóla- og frístundastarfi sem fram fór í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð föstudaginn 19. janúar. 

Við upphaf ráðstefnunnar undirrituðu eftirfarandi aðilar samstarfsyfirlýsinguna: Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Jónína Hauksdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis og Ágúst Arnar Þráinsson, formaður Félags fagfólks í frístundaþjónustu. 

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasvið, opnaði ráðstefnuna og sagði að með samstarfsyfirlýsingunni væri verið að stórt skref í þágu barna og ungmenna, með því að takast markvisst á við það verkefni að styðja við tengslamyndun og grunnstoðir í lífi þeirra. Ásmundur Einar mennta- og barnamálaráðherra fagnaði nýja náminu og þeim sóknarfærum sem aukið samstarf veitir. Oddný Sturludóttir, aðjunkt á Menntavísindasviði, leiddi starfshóp sem undirbjó nýja námið sem 60 eininga viðbótardiplóma á meistarastigi sem nefnist Félags- og tilfinningahæfni í skóla- og frístundastarfi og verður í boði frá hausti 2024. Markmið námsins er að fagfólk í skóla- og frístundastarfi öðlist hæfni við:   

  • að beita árangursríkum starfsháttum sem styðja við félags- og tilfinningahæfni og geðrækt barna og unglinga  
  • að tileinka sér virðingu fyrir margbreytileika barna og unglinga 
  • að beita áfallamiðaðri nálgun í skóla- og frístundastarfi 
  • að beita starfstengdri sjálfsrýni og efla eigin félags- og tilfinningahæfni og samkennd til að vinna gegn álagi og streitu í starfi og auka eigin starfsánægju sem og jafningja sinna.   
  • að nota þrepaskiptan stuðning í þágu farsældar barna til að vega og meta árangursrík inngrip, stuðning og leiðir sem gagnast börnum og ungmennum 
  • að leiða samræður, þróun og umbætur sem miða að innleiðingu árangursríkra starfshátta innan sinna stofnana og starfsstaða  
  • að styðjast við jafningjahandleiðslu á vinnustað  

„Náminu er ætlað að styðja við markmið menntastefnu 2030 um að efla skuli geðrækt og félags- og tilfinningahæfni barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi. Markmið stjórnvalda krefjast þess að ólíkar fagstéttir í skóla- og frístundaumhverfi barna og unglinga tileinki sér nýtt verklag. Höfuðáhersla í náminu er að byggja upp verndandi þætti í umhverfi þeirra, hvort sem það er í formlegu skólastarfi eða á vettvangi frístundastarfs,“ segir Oddný og bætir við að námið sé tilvalið fyrir öll þau sem starfa í  í skóla-, frístunda- og uppeldisstörfum, millistjórnendur í menntakerfinu og fagfólk úr stoðþjónustu og stjórnsýslu skóla- og frístundamála.  

Þess ber að geta að námið er liður í innleiðingu á menntastefnu til 2030, Lýðheilsustefnu, Framtíðinni – stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna til 2030 og innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Við mótun námsins er jafnframt horft til laga um heildstæða skólaþjónustu og þrepaskiptan stuðning í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem kalla á að ólíkar fagstéttir í skóla- og frístundaumhverfi barna og unglinga tileinki sér nýtt verklag.  

Sjá upptöku hér 

„Náminu er ætlað að styðja við markmið menntastefnu 2030 um að efla skuli geðrækt og félags- og tilfinningahæfni barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi. Markmið stjórnvalda krefjast þess að ólíkar fagstéttir í skóla- og frístundaumhverfi barna og unglinga tileinki sér nýtt verklag. Höfuðáhersla í náminu er að byggja upp verndandi þætti í umhverfi þeirra, hvort sem það er í formlegu skólastarfi eða á vettvangi frístundastarfs,“ segir Oddný Sturludóttir, aðjunkt á Menntavísindasviði, sem leiddi starfshóp sem undirbjó nýja námið.

Fjallað um farsæld menntunar og jákvæða sálfræði

Annar aðalfyrirlesari ráðstefnunnar, dr. Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham og prófessor við Menntavísindasvið HÍ, fjallaði um heimspekilega sýn á farsæld menntunar. Í erindinu kom Kristján inn á helstu stefnur og strauma í hinni alþjóðlegu umræðu um farsæld sem menntunarmarkmið frá 2020 til dagsins í dag, en einnig með tilvísun til íslenskra aðstæðna. Kristján telur þörf á mun ítarlegri umræðu um hvernig farsæld eigi að raungerast í skólastarfi og bendir á að ólíkar túlkanir á hvað farsæld merki sé í gangi. 

Hinn aðalfyrirlesarinn, dr. Sue Roffey, prófessor og sálfræðingur sem hefur lagt áherslu á jákvæða sálfræði í rannsóknum sínum, fjallaði í erindi sínu um þær meginreglur sem liggja til grundvallar jákvæðrar menntunar allra, ASPIRE sem er skammstöfun fyrir Agency, Safety, Positivity, Inclusion, Respect and Equity. Það útleggst á íslensku: umboð, öryggi, jákvæðni, inngilding, virðing og jöfnuður sem grundvöll til jákvæðrar menntunar. Sue hefur kennt undanfarin ár í námi um jákvæða sálfræði hjá Endurmenntun HÍ í samvinnu við Embætti landlæknis og Menntavísindasvið. 

Á ráðstefnunni sögðu Berglind Hauksdóttir og Unnur Helga Ólafsdóttir, sérfræðingar á Farsældarsviði Barna- og fjölskyldustofu, frá samvinnu stofunnar og Embættis landlæknis um innleiðingu farsældar í skólum. Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi grunnskóla hjá Embætti landlæknis, sagði frá stöðu þess verkefnis. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, ávarpaði ráðstefnugesti eftir hádegi og fagnaði þeirri samstöðu sem náðst hefur um að sinna grunnþáttum þroska og náms. Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs hjá Embætti landlæknis, stýrði fundinum og umræðum. 

Fjölbreyttar smiðjur fóru fram eftir hádegi í Stakkahlíð, þar sem unnið var með áhugaverð málefni tengd ráðstefnunni en hér eru dæmi um heiti á smiðjum sem fór fram:

  • Er sími nauðsynlegt námsgagn?
  • Hvað er í matinn?
  • Umhverfi og hollusta máltíða 
  • Forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni í grunnskólum
  • Kynfræðsla fyrir börn á öllum aldri.

Lesa má nánar um smiðjurnar hér 

Óhætt er að segja að mikill áhugi sé fyrir farsæld og menntun barna í skóla- og frístundastarfi en hátt í tvö hundrað manns sótti ráðstefnuna á stað og í streymi.

Sjá upptöku hér 

Fulltrúar þeirra aðila sem koma að samstarfsyfirlýsingu um að efla fagfólk í skóla- og frístundastarfi á sviði tilfinninga- og félagshæfni og geðræktar barna og unglinga.
Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, ávarpar ráðstefnugesti.
Ráðstefnugestir
Samstarfsyfirlýsing Háskóla Íslands, Embættis landlæknis, Kennarasambands Íslands, Félags fagfólks í frístundaþjónustu, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og mennta- og barnamálaráðuneytis um meistaranám til að efla fagfólk í skóla- og frístundastarfi á sviði tilfinninga- og félagshæfni og geðræktar barna og unglinga var undirrituð á ráðstefnunni Menntun og farsæld barna í skóla- og frístundastarfi