Skip to main content
27. febrúar 2024

Nýtt nám í blaðamennsku við Háskóla Íslands

Nýtt nám í blaðamennsku við Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í gær samning um samstarf sem miðar að því að efla menntun blaða- og fréttamanna með nýju hagnýtu BA-námi í blaðamennsku við Stjórnmálafræðideild HÍ. Ráðuneytið mun veita námsleiðinni stuðning sem nemur 45 milljónum króna á næstu þremur árum.  

Markmiðið með samningum og hinu nýja námi er meðal annars að skjóta styrkari stoðum undir almenna menntun blaða- og fréttamanna, koma á skilvirku skiptinámi háskóla í útlöndum og samþætta námið betur við annað nám á grunnstigi innan Stjórnmálafræðideildar. 
Nám í blaðamennsku hefur verið í boði á meistarastigi við Háskóla Íslands um árabil en með því að flytja það á grunnstig er meðal annars verið að færa það nær því sem tíðkast í nágrannalöndum og um leið stórauka möguleika nemenda á skiptinámi. 

Áherslur í náminu verða eftir sem áður svipaðar, að undirbúa fólk fyrir störf á ýmiss konar miðlum, hvort sem er dagblöðum, hljóð- eða sjónvarpi eða nýmiðlum eins og vef- og samfélagsmiðlum. Jafnframt er í náminu tekið mið af þeim hröðu breytingum sem eru að verða í samfélaginu en mikilvægt er að mennta fólk með að góðan og traustan grunn í blaðamennsku til þess að berjast gegn vaxandi upplýsingaóreiðu og falsfréttum.

Nám í blaðamennsku er 120 einingar og nemendur taka því aukagrein með náminu til fullrar BA-gráðu. Aukagreinin getur snúið að ólíku áhugasviði fólks, hvort sem það er innan félags-, heilbrigðis, hug-, mennta-, raun- eða náttúruvísinda innan Háskóla Íslands.

„Tilgangur stjórnvalda með tímabundnum stuðningi við nýtt grunnnám í hagnýtri blaðamennsku er að efla íslenska fjölmiðlun og fjölga fagmenntuðum blaðamönnum á ritstjórnum fjölmiðla. Hlutfall menntaðra blaðamanna hér á landi er lágt samanborið við Norðurlöndin og við því þarf að bregðast. Að bjóða upp á grunnnám í stað meistaranáms í hagnýtri blaðamennsku við Háskóla Íslands lækkar þröskuldinn að náminu og miðar að því að nám og starfsferill í blaðamennsku verði raunhæfur og eftirsóknarverður valkostur. Fagmennska eykur traust en samfélagslegt traust til fjölmiðla er gríðarlega mikilvægt á tímum upplýsingaóreiðu,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. Gert er ráð fyrir að ný fjölmiðlastefna verði kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda í næstu viku. 

„Við í Háskóla Íslands fögnum þessu samstarfi um eflingu náms í blaðamennsku enda gegna traustir fjölmiðlar og fjölmiðlafólk með fjölbreytta menntun og reynslu lykilhlutverki í þeirri lýðræðislegu umræðu sem er grundvöllur þess að við getum bætt íslenskt samfélag. Námið opnar um leið á samstarf við erlenda háskóla í þessari grein og gefur nemendum okkar færi á að kynnast fjölmiðlaumhverfinu í nágrannalöndum sem er ávinningur íslenskra fjölmiðla þegar til framtíðar er litið,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Hægt er að kynna sér BA-nám í blaðamennsku á vef Háskóla Íslands.
 

Frá undirritun samningsins á rektorsskrifstofu. Frá vinstri: Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs, Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild, Lilja Afreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu mennningar og fjölmiðla í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.