Nýtt hlaðvarp í loftið - Kennarastofan
Kennarastofan er nýtt hlaðvarp um nám og kennslu í breyttum heimi menntunar. Þorsteinn Árnason Sürmeli, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, stýrir hlaðvarpinu en þar miðlar hann rannsóknarniðurstöðum úr rannsókninni Framhaldsskólinn á tímum COVID-19: Kreppa, áskoranir og aðlögun. Þættir í þessari þáttaröð verða tíu talsins og eru tveir nú komnir í loftið og aðgengilegir á kennarastofan.is.
„Í þáttunum spjalla ég við kennara um þeirra reynslu af kennslu á tímum takmarkana í skólastarfi, hverju þeir þurftu að breyta og það sem skiptir jafnvel meira máli, hvað mun breytast til frambúðar,“ segir Þorsteinn um verkefnið en markmið hins nýja hlaðvarps er ekki síður að fá fleiri kennara til að taka þátt í samtalinu bæði á Facebook-síðunni Kennarastofan og með því að tísta undir myllumerkinu #kennarastofan á Twitter.
„Hugmyndin með hlaðvarpinu er að miðla rannsóknarniðurstöðum hraðar en með birtingu hefðbundinna vísindagreina og víkka og dýpka rannsóknina enn frekar ásamt því að tengja hana með markvissum hætti við þá stöðu sem ríkir á vettvangi framhaldsskólans í dag,“ segir Þorsteinn sem er einn af doktorsnemum í verkefninu. Í næstu þáttum ræðir hann við kennara, stjórnendur og aðra sem koma að menntun á framhaldsskólastigi ásamt því að miðla niðurstöðum rannsóknarinnar og ræða við einn rannsakanda úr teyminu sem deilir afmörkuðum rannsóknarniðurstöðum. Með því móti safnast upp verkfæri sem fólk á vettvangi framhaldsskólastigsins getur nýtt sér áfram við þróun skólastarfs. Viðtölin geta nýst kennurum sérstaklega og eru því hluti af starfsþróun þeirra í kjölfar heimsfaraldurs og þá nýtast þau ekki síst skólastjórnendum við að móta skólastarf til framtíðar.
„Gildi verkefnisins er jafnframt að skoða ýmsar hliðar á menntun og félagslegu réttlæti og samspili helstu hagaðila, ekki síst nemenda, foreldra og skólafólks í framhaldsskólum. Verkefnið er því samfélagslega mikilvægt til áframhaldandi starfsþróunar og mikilvægt verkfæri til að skrá samtímasöguna, einkum þar sem hlaðvarp er kjörinn vettvangur til að tengja rannsóknir háskólans við verkefni vettvangs og starfsþróun fagfólks,“ segir Þorsteinn.
Að mati Þorsteins varpa viðtölin einnig ljósi á þau gögn sem rannsakendur hafa nú þegar undir höndum og geta orðið kveikja að frekari rannsóknum og áframhaldandi umræðum um þróun skólastigsins.
Guðrún Ragnarsdóttir, dósent við Menntavísindasvið fer fyrir og er ábyrgðaraðili rannsóknarinnar.
Öll áhugasöm um menntun, skólaþróun og áhrif heimsfaraldursins á framhaldsskóla geta nálgast hlaðvarpið á kennarastofan.is og á Facebook síðunni facebook.com/kennarastofan.