Skip to main content
21. ágúst 2024

Nýr hornsteinn lagður að Sögu

Nýr hornsteinn lagður að Sögu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, lögðu í dag nýjan hornstein að Sögu við Hagatorg. Endurbætur í Sögu eru langt komnar og reikna má með að starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands flytji inn í húsið síðar í haust.

Framkvæmdir á Sögu hafa staðið yfir frá árinu 2022 en ríkið og Félagsstofnun stúdenta festu kaup á húsnæðinu í lok árs 2021. Þar verður ýmis starfsemi Háskóla Íslands og tengdra aðila, þar á meðal Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem flyst úr Stakkahlíð og Skipholti, og upplýsingatæknisvið skólans auk fleiri starfseininga. Auk þess eru í Sögu 111 nemendaíbúðir á vegum Félagsstofnunar stúdenta en fyrstu nemendurnir fluttu þangað inn í fyrravor.

„Það er mikilvægt að Menntavísindasvið fái öfluga aðstöðu hér í grósku mennta- og menningarstofnana, sem og fleiri stúdentar. Ég bind vonir við að það hvetji til aukinnar samþættingar við önnur fræðasvið, til dæmis við raunvísinda- og tæknigreinar til að mæta áskorunum í menntakerfinu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Hugsjón um háborg íslenskrar menningar orðin að veruleika

Upprunalegan hornstein að húsinu, sem lengst af gekk undir nafninu Bændahöllin, lagði Ásgeir Ásgeirsson, þáverandi forseti Íslands, 11. mars 1961. Húsið teiknaði Halldór H. Jónsson arkitekt. Þekktast er það fyrir að hýsa Hótel Sögu, þar sem fjöldi tiginna gesta dvaldi, en húsið gegndi einnig mikilvægu hlutverki í samkvæmis- og menningarlífi Reykjavíkur. 

Í upphaflegan hornstein Bændahallarinnar var lagt skjal þar sem m.a. er rakin byggingarsaga hússins en í nýja hornsteininn er jafnframt lögð greinargerð um nýtt hlutverk hússins. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, undirrita greinargerðina.

Í greinargerðinni nýju kemur fram að segja megi að hugsjónin um „háborg íslenskrar menningar“ sem Guðjón Samúelsson, þáverandi húsameistari ríkisins, setti fram í heildarskipulagi Reykjavíkur fyrir meira en 100 árum sé orðin að veruleika. „Þótt þessi hugsjón hafi ekki raungerst á Skólavörðuholtinu, eins og hugur Guðjóns stóð til, hefur hún sannarlega ræst á háskólasvæðinu á Melunum því þar eru nú saman komnar á einum stað nokkrar af helstu mennta- og menningarstofnunum þjóðarinnar, Háskóli Íslands, Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðarbókhlaðan og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum,“ segir m.a. í greinargerðinni sem lýkur á orðunum: „Megi starfsemi Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta í Sögu verða heillaskref fyrir íslenskt samfélag.“

Gestir við athöfnina í Sögu í dag. Með flutningi Menntavísindasviðs í húsið rætist langþráður draumur um að sameina alla starfsemi Háskóla Íslands á meginsvæði skólans, en það hefur staðið til frá árinu 2008 þegar Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinuðust undir merkjum Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson

Langþráður draumur rætist

Gert er ráð fyrir að flutningur Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Sögu fari fram að mestum hluta í október, nóvember og desember næstkomandi en framkvæmdum við húsið, þar á meðal hið fornfræga Grill á toppi hússins, lýkur á næsta ári. Með flutningunum rætist langþráður draumur um að sameina alla starfsemi Háskóla Íslands á meginsvæði skólans, en það hefur staðið til frá árinu 2008 þegar Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinuðust undir merkjum Háskóla Íslands. Flutningurinn mun ekki síst stuðla að enn frekari samþættingu menntavísinda og annarra fræðasviða Háskóla Íslands. 

„Það er afar ánægjulegt að nú hillir undir verklok við endurbætur á Sögu og að húsið verði tekið í notkun á ný. Saga stendur í hjarta háskólasvæðisins og mun verða gríðarleg lyftistöng fyrir Háskóla Íslands og Félagsstofnun stúdenta. Í húsinu verður Menntavísindasvið HÍ, margvísleg önnur háskólastarfsemi og stúdentaíbúðir auk þess sem þar verður fjölbreytt þjónusta sem mun laða að sér gesti og gangandi. Saga á sér glæsta sögu en nú er komið að kaflaskilum og við leggjum ríka áherslu á að færa húsið inn í nýja tíma og að þar verði blómleg og lifandi starfsemi,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. 

„Það er afar gleðilegt að koma að því með Háskóla Íslands að færa nýtt líf í þetta fallega og sögufræga hús. Nú hefst nýr kafli og það er mikilvægt að geta boðið stúdentum að búa hér í miðju háskólasvæðisins og nýta sér þá margvíslegu þjónustu sem verður boðið upp á í húsinu,“ segir Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta.

Upplýsingar um framvindu framkvæmda og flutninga má finna á vef HÍ.

Rektor og ráðherra leggja nýjan hornstein að Sögu á fyrstu hæð hússins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, undirrita greinargerðina.