Skip to main content
23. nóvember 2024

Nýr búnaður styrkir stöðu HÍ á sviði nýsköpunar í rafhlöðutækni

Nýr búnaður styrkir stöðu HÍ á sviði nýsköpunar í rafhlöðutækni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur gert samning Háskóla Íslands um stuðning við kaup á sérhæfðum rafhlöðuprófunarbúnaði. Um er að ræða búnað sem gerir kleift að ástandsgreina, prófa og herma notkun rafhlaðna og nýtist m.a. í þróunarverkefni sem unnið er með fyrirtækinu Alor ehf. varðandi endurnýtingu á notuðum rafbílarafhlöðum. Búnaðurinn verður staðsettur í rannsókna- og þróunaraðstöðu Háskóla Íslands í Sjávarklasanum, sem nú er verið að standsetja, en ráðherra, rektor og fulltrúar HÍ og Alor hittust í aðstöðunni á föstudag og skoðuðu búnaðinn. 

„Það skiptir mig miklu máli að við tökum forystu í orkuskiptum og einbeitum okkur ekki einungis að því að innleiða tilbúnar tæknilausnir heldur einnig að stuðla að nýjum lausnum og uppbyggingu innlendrar þekkingar. Sérfræðingum ber saman um að rafhlöður séu lykillinn í orkuskiptum og hraðri þróun á þessu sviði fylgja mörg og stór tækifæri. Það er mikilvægt að Ísland taki þátt í þessari þróun og verði þar leiðandi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:

Rafhlöðuprófunarbúnaðurinn mun efla innviði Háskóla Íslands til muna og styrkja stöðu háskólans á sviði rafhlöðutækni. Með tilkomu þessa sérhæfða búnaðar getur háskólinn sinnt umfangsmeiri rannsóknum, aukið kennslu og verið hæfur til að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum. Auk þess opnast ný tækifæri til samstarfs við innlend nýsköpunarfyrirtæki, sem stuðlar að framþróun á sviði rafhlöðulausna.

„Við erum mjög ánægð með þennan styrk. Hann mun nýtast bæði í rannsóknir og í kennslu við Háskóla Íslands. Hann mun styrkja verkfræðimenntun á þessu sviði og veita nemendum og fræðimönnum fleiri tækifæri. Með eflingu innviða skapast grundvöllur fyrir nýjar hugmyndir, þróun nýrra vara og lausna sem geta haft víðtæk áhrif á orkuskipti og sjálfbærni. Þessi uppbygging innviða mun auka færni, þekkingu og getu Háskólans og á sama tíma styrkja stöðu Íslands sem frumkvöðuls í þróun grænna tæknilausna,“ segir Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði og rektor Háskóla Íslands.

„Við hjá Háskóla Íslands höfum verið að meta ástand notaðra rafhlaðna, ákvarða eiginleika þeirra og útfæra aðferðir til að meta hversu lengi rafhlöðurnar endast miðað við aðstæður og notkun. Með sérhæfðum búnaði eins og þessum mun geta okkar stóreflast. Þessi búnaður gerir okkur kleift að vinna með rafhlöðustjórnunarkerfum sem er lykilatriði í þróun hugbúnaðar- og rafeindastýringa fyrir nýjar rafhlöðulausir,” segir Rúnar Unnþórsson, prófessor og deildarforseti iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar HÍ og tæknistjóri Alor ehf.

„Við höfum átt í góðu samstarfi við Háskóla Íslands síðustu ár og mun búnaðurinn skipta sköpum fyrir verkefnin okkar saman og þá ekki síst þróunarverkefnið sem snýr að því að endurnýta notaðar rafbílarafhlöður. Þær eru almennt ekki taldar nothæfar í bíla þegar rýmd þeirra er komin niður í 80% en þær eru enn vel nýtanlegar í önnur verkefni. Í stað þess að senda þær í endurvinnslu er æskilegt að þróa aðferðir og lausnir sem gefa þeim framhaldslíf. Verkefnið fellur því vel að hringrásarhagkerfinu og búnaðurinn gerir okkur kleift að taka dýrmæt skref í okkar verkefnum,” segir Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor.

Rafhlöðuprófunarbúnaðurinn verður staðsettur í rannsókna- og þróunaraðstöðu Háskóla Íslands í Sjávarklasanum, sem nú er verið að standsetja, en ráðherra, rektor og fulltrúar HÍ og Alor hittust í aðstöðunni á föstudag og skoðuðu búnaðinn. MYND/Oddur Þórsson