Nýjustu rannsóknir í félagsvísindum á ráðstefnu Þjóðarspegilsins
Kosningar og fylgiskannanir, stéttir, áföll og heimilisleysi, barneignir og barnleysi, afbrot, ofbeldi og löggæsla, brjáluð fræði, Rómafólk á Íslandi, húsnæðismál og lífeyriskerfið, mannauður, vellíðan og gervigreind er aðeins brot af því sem kemur við sögu á ráðstefnu Þjóðarspegilsins sem haldin verður í 25. sinn í Háskóla Íslands dagana 31. október og 1. nóvember. Breytingar á íslensku stjórnarskránni verða enn fremur til umfjöllunar á opnunarmálstofu ráðstefnunnar.
Segja má að ráðstefna Þjóðarspegilsins sé nokkurs konar uppskeruhátíð rannsakenda í félagsvísindum ár hvert. Þátttakendur eru bæði fræðafólk og nemendur við Háskóla Íslands og aðra háskóla á Íslandi auk samstarfsaðila víða í íslensku samfélagi. Ráðstefnan er sem fyrr opin öllum áhugasömum og aðgangur ókeypis.
Opnunarmálstofa ráðstefnunnar fer fram 31. október kl. 15 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins en þar verða stjórnarskrárbreytingar til umræðu. Spurt verður hvernig og hvers vegna stjórnarskrár breytast og hvort ómögulegt sé að breyta íslensku stjórnarskránni. Erindi flytja Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild, og Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við Lagadeild. Kristrún Heimisdóttir, lektor og sjálfstætt starfandi lögfræðingur, bregst við erindum þeirra og verður fundarstjórn í höndum Huldu Þórisdóttur, prófessors við Stjórnmálafræðideild.
Dæmi um erindi sem flutt verða á ráðstefnunni má sjá á YouTube.
Aðalþungi ráðstefnunnar verður föstudaginn 1. nóvember en þá verður boðið upp á um 190 erindi í 45 mismunandi málstofum sem snerta allar hliðar samfélagsins, eða því sem næst. Málstofurnar fara fram í Odda, Lögbergi, Aðalbyggingu, Árnagarði, Gimli, Háskólatorgi og Öskju. Auk ofangreindra viðfangsefna má nefna greftrunarsiði á Íslandi, víkingasöfn og gestabækur Hins íslenzka reðasafns, málefni flóttafólks og hælisleitenda, nýsköpun, menningu og skapandi greinar, líðan ungs fólks, alþjóðamál, mat og heilsu, byggðamál og ferðaþjónustu, rekstur fyrirtækja og jafnrétti, áreitni og valdaójafnvægi.
Dagskrá málstofanna stendur frá kl. 9-16.45 og er hægt að kynna sér efni þeirra á vef ráðstefnunnar.