Nýjar skeiðmyndir afhjúpa ógnarhraða hopun Breiðamerkurjökuls
Ný myndskeið vísindamanna við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði og Dundee-háskóla í Skotlandi sýna ógnarhraða bráðnun Breiðamerkurjökuls síðastliðið sumar. Myndskeiðin hafa vakið mikla athygli fjölmiðla víða um heim.
Um er að ræða svokallaðar skeiðmyndir (e. time-lapse) sem teknar voru við austurjaðar Breiðamerkurjökuls á sex vikna tímabili undir lok sumars. Skeiðmyndirnar tók og vann Kieran Baxter, vísindamaður og kennari í samskiptahönnun við Dundee-háskóla í Skotlandi, en hann er jafnframt nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði. Kieran hefur um árabil unnið með Þorvarði Árnasyni, forstöðumanni rannsóknasetursins, og fleiri vísindamönnum að því að draga fram með myndrænum hætti þau miklu áhrif sem hlýnandi loftslag hefur á jökla á suðausturhluta landsins.
Meðal samstarfsverkefna þeirra er stuttmyndin After Ice sem frumsýnd var fyrr á árinu. Þar er gömlum og nýjum ljósmyndum, kvikmyndum og drónamyndum skeytt saman til þess að afhúpa þær miklu breytingar sem hafa orðið á nokkrum skriðjöklum Vatnajökuls á undanförnum áratugum. Myndin hefur þegar verið sýnd á fjölmörgum kvikmyndahátíðum víða um heim og verið tilnefnd til verðlauna.
Six weeks of glacier melt at Breiðamerkurjökull from Kieran Baxter on Vimeo.
Í hinum nýju skeiðmyndum, sem sjá má hér að ofan og eru hluti af nýju samstarfsverkefni hópsins um myndræna vöktun Breiðamerkurjökuls, sést með sláandi hætti hvernig aldagamall ís hörfar við jaðar Breiðamerkurjökuls. Myndirnar undirstrika þau miklu áhrif sem hlýnandi loftslag hefur á það mikla aðdráttarafl ferðamanna sem jöklarnir eru. Skeiðmyndirnar hafa vakið mikla athygli og fjallað hefur verið um þær í sumum af stærstu fréttamiðlum heims, eins og á BBC, NBC og Sky News.
„Þær ákvarðanir sem við tökum í dag, þar á meðal á COP26-ráðstefnunni í Glasgow, munu hafa mikil áhrif þau loftlagstengdu viðfangsefni sem við munum þurfa að fást við í framtíðinni. Bráðnun jökla á Íslandi er aðeins ein birtingarmynd þessara miklu áhrifa loftslagsbreytinga,“ segir Kieran Baxter, vísindamaður við Dundee-háskóla og nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði.
Ákvarðanir okkar í dag hafa áhrif á loftslagsvanda framtíðarinnar
Þessa dagana funda leiðtogar víða að úr heiminum á loftslagsráðstefnunni í Glasgow í Skotlandi þar sem rætt er um hvernig bregðast skuli við loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. „Myndefnið ætti að vera skýrt merki til okkar um að við getum ekki hunsað loftslagsbreytingar lengur. Þær hafa nú þegar haft hrikaleg áhrif um allan heim og við þurfum að axla ábyrgð á því. Þær ákvarðanir sem við tökum í dag, þar á meðal á COP26-ráðstefnunni í Glasgow, munu hafa mikil áhrif þau loftlagstengdu viðfangsefni sem við munum þurfa að fást við í framtíðinni. Bráðnun jökla á Íslandi er aðeins ein birtingarmynd þessara miklu áhrifa loftslagsbreytinga,“ segir Kieran Baxter.
Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði.
Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, bendir á að stuttmyndin After Ice hafi snúist um að endurskapa bráðnun jökla á síðustu áratugum en með hinu nýja verkefni, sem beinist að Breiðamerkurjökli, sé horft til framtíðar. „Eða öllu heldur nokkurra mögulegra framtíðarsviðsmynda sem eru háðar því hversu vel eða illa okkur tekst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í verkefninu vinna listamenn og vísindamenn frá Skotlandi og Íslandi mjög náið saman. Þessi þverfræðilega nálgun er lykilatriði í því að koma með skýrum hætti á framfæri uppýsingum um staðbundin áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga,“ segir Þorvarður.
Auk Þorvarðar koma fleiri vísindamenn á Suðausturlandi að verkefninu, m.a. Snævarr Guðmundsson, jöklajarðfræðingur við Náttúrustofu Suðausturlands. Hann bendir á að myndskeiðin sýni aðeins brot af 16 km löngum jaðar Breiðamerkurjökuls en engu að síður undirstriki þau hraða bráðnun jökulsins. „Jökull er í jafnvægi þegar ákoma að vetri er jafnmikil og bráðnun að sumri. Því er hins vegar ekki að heilsa hér. Bráðnun jökulsins er meiri en ákoman og á síðustu áratugum hefur hann hopað allt að 250 metra á ári,“ segir Snævarr.
Hopun jökla hefur ekki aðeins áhrif vatnsbúskap í landinu, sjávarmál og umhverfi jökla heldur einnig á upplifun okkar á umhverfinu. Helga Árnadóttir, sérfræðingur við Vatnajökulsþjóðgarð, segir afar mikilvægt að miðla þeim jöklarannsóknum sem fram fara innan þjóðgarðsins og gera þær aðgengilegar með myndrænum hætti, líkt og Kieran, Þorvarður og samstarfsfólk gerir. „Þetta verkefni nýtist bæði landvörðum, gestum í þjóðgarðinum og leiðsögumönnum á svæðinu og eykur gæði þeirra upplýsinga sem við höfum um bráðnun jökla og loftslagsbreytingar,“ segir hún.
Hægt er að kynna sér skeiðmyndaverkefnið og ýmis önnur samstarfsverkefni hópsins á vefsíðu Kierans Baxter.