Ný tækifæri með auknu samstarfi Minnesota-háskóla og Aurora
Ný tækifæri munu skapast fyrir Aurora-háskólana með aukinni þátttöku Minnesota-háskóla (UMN) í samstarfsnetinu, en fyrir helgina undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Joan T.A. Gabel, rektor Minnesota-háskóla, viljayfirlýsingu þess efnis að auka enn frekar og þétta samstarfið við Aurora með það að markmiði að kanna nýjar leiðir að aðkomu UMN í Aurora-netið. UMN kemur með mjög sterka alþjóðlega aðkomu inn í evrópska netið og veitir því sérstöðu og eflir það enn frekar.
Aurora er samstarfsnet tíu evrópskra háskóla sem eiga það sameiginlegt að vera öflugir rannsóknaháskólar, með háan áhrifastuðul rannsókna samhliða því að leggja ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og fjölbreyttan nemendahóp. Aurora-háskólanetið fléttar einnig heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í allt starf sitt og leggur áherslu á virka þátttöku nemenda.
Þess má geta að við undirritun viljayfirlýsingarinnar var einnig handsalaður samningur milli HÍ og University of Minnesota um áframhaldandi samstarf skólanna á breiðum grunni.
HÍ og Háskólinn í Minnesota hafa unnið saman í 40 ár
HÍ og Háskólinn í Minnesota hafa unnið þétt saman í rétt 40 ár, m.a. við starfsmanna- og stúdentaskipti. Það eru því mikil tíðindi að þessir skólar ætli að víkka samstarfið enn frekar með það að markmiði að Minnesota-háskóli verði formlegur aðili að Aurora-netinu þar sem nokkrir framúrskarandi evrópskir háskólar hafa verið einir um að fylkja liði fram að þessu.
Í ræðu sem Jón Atli flutti við undirritun viljayfirlýsingarinnar í Minneapolis í vikunni sem leið sagði hann að markmiðið með Aurora-samstarfinu væri að efla nám, kennslu, rannsóknir og nýsköpun við alla skólana í netinu. Þetta væri gert í takt við örar samfélagslegar breytingar.
Jón Atli sagði einnig að Aurora skapaði sóknarfæri fyrir alla skólana í netinu til að leggja meira af mörkum til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Hann tók sérstaklega fram að Minnesota-háskóli kæmi afar sterkur inn í Aurora-samstarfið hvað þetta varðar með sína miklu áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Ávinningurinn væri því gríðarlegur að fá bandaríska háskólann inn í netið.
„Minnesota-háskóli er afar virtur, breiður og öflugur rannsóknaháskóli. Aðkoma hans og áhersla á sömu málefni og Aurora hefur einbeitt sér að mun styrkja grundvöll alls samstarfsins,“ sagði Jón Atli um þá breytingu sem mun fylgja innkomu Minnesota-háskóla í samstarfsnetið.
Minnesota-háskóli er einn allra öflugasti háskóli Bandaríkjanna og jafnframt í fremstu röð á heimsvísu. Hann var stofnaður árið 1851 og stunda nú rösklega 60 þúsund nám við skólann á nokkrum stöðum í Minnesota-fylki. Stærsti kampus skólans er í tvíburaborginni Minneapolis/St. Paul. Skólinn er alhliða rannsóknaháskóli og er í 86. sæti á matslista Times Higer Education yfir bestu háskóla heims. Í síðustu viku var tilkynnt að skólinn væri í 23. sæti af öllum opinberum háskólum Bandaríkjanna á sérstökum lista sem þar er gefinn út, U.S. News and World Report, og hefur háskólinn ekki komist hærra í röskan áratug.
Miklar breytingar orðið í Aurora
Háskóli Íslands hefur verið leiðandi í Aurora-samstarfinu um nokkurt skeið undir forystu Jóns Atla. Frá árinu 2020 hefur Aurora-netið eflst mikið þar sem það var valið eitt af Evrópsku háskólanetunum og hlaut af því tilefni stóran styrk frá Evrópusambandinu. Evrópsk háskólanet eru ein af aðaláherslum Evrópusambandsins á sviði æðri menntunar og er markmið þeirra að efla háskóla í Evrópu, þétta samstarf þeirra og treysta þá í alþjóðlegri samkeppni.
„Það hafa verið töluverðar breytingar hjá Aurora, sérstaklega eftir netið hlaut styrkinn frá Evrópusambandinu árið 2020. Síðan þá hafa bæst við fleiri háskólar víðar úr Evrópu inn í samstarfið. Skólarnir eru nú tíu og er sá nýjasti Paris-Est Creitel í París. Aðrir skólar sem hafa bæst samstarfið á síðustu árum eru Viðskiptaháskólinn í Kaupmannahöfn (CBS), Háskólinn í Innsbruck, Napólíháskóli - Federico Secundo, Palacky-háskóli í Tékklandi og Rovira i Virgili háskóli á Spáni,“ segir Jón Atli.
„Hvað nemendur HÍ varðar þá skapar Aurora-samstarfið fjölbreytt tækifæri fyrir stúdentana til að öðlast alþjóðlega reynslu í náminu við Háskóla Íslands og auðveldar þeim að taka hluta af náminu við aðra Aurora-skóla. Aurora styrkir nemendur jafnframt til þátttöku í samfélagslegri nýsköpun og uppbyggingu sjálfbærs samfélags. Fjárstuðningurinn sem Evrópusambandið leggur til hefur skipt miklu máli hvað þetta snertir,“ segir Jón Atli Benediktsson.
Styrkir kjarnastarf allra háskólanna í netinu
Aurora-netið snýr að kjarnastarfi háskólanna allra og setur bæði stúdenta og starfsfólk í háskerpu. Þannig er netið öflugur samstarfsvettvangur sem skapar ný tækifæri í kennsluþróun og rannsóknum fyrir starfsfólk allra háskólanna. „Það er enda markmið Aurora-háskólanna,“ segir Jón Atli, „að gera starfsfólki betur kleift að samþætta samfélagslega nýsköpun og sjálfbærni inn í nám og rannsóknir á áhrifaríkan hátt.“
„Með þátttöku í verkefnum Aurora-samstarfsins fær starfsfólk möguleika á að kynnast nýjum kennsluaðferðum, styrkja sig í starfi og efla alþjóðlegt tengslanet. Hvað nemendur HÍ varðar þá skapar Aurora-samstarfið fjölbreytt tækifæri fyrir stúdentana til að öðlast alþjóðlega reynslu í náminu við Háskóla Íslands og auðveldar þeim að taka hluta af náminu við aðra Aurora-skóla. Aurora styrkir nemendur jafnframt til þátttöku í samfélagslegri nýsköpun og uppbyggingu sjálfbærs samfélags. Fjárstuðningurinn sem Evrópusambandið leggur til hefur skipt miklu máli hvað þetta snertir. Aukin nemendaskipti, sameiginlegar prófgráður, öflugt rannsóknastarf og samnýting rannsóknainnviða er og verður enn sterkari þáttur í þessu samstarfi háskólanna,“ segir Háskólarektor.
Netið mun eflast enn frekar á næstu misserum
Þegar Jón Atli er spurður um næstu skrefin í samstarfi þessara öflugu háskóla svarar hann því til að þeir séu nú þegar að vinna saman að umsókn um áframhaldandi stuðning til samstarfsins frá Evrópusambandinu til næstu fjögurra ára.
„Um er að ræða meira fjármagn en þegar hefur verið veitt til samstarfsins og mun það fé, ef umsóknin fær brautargengi, efla samstarfið til muna. Slíkt mun nýtast nemendum og starfsfólki HÍ og allra hinna háskólanna að sjálfsögðu. Allt gengur þetta starf út á að auka tækifæri og efla starfið. Þátttaka University of Minnesota skiptir miklu varðandi framhaldið,“ segir rektor Háskóla Íslands.