Ný bók um tungumál og menningu á Vestur-Norðurlöndum
Komið er út ritið Sprog- og kulturkontakt i Vestnorden, þar sem fjallað er um tengsl tungumála og menningar á vestnorræna svæðinu bæði í sögu og samtíð. Í ritinu er varpað ljósi á tengsl færeysku, íslensku og norsku við dönsku og ensku, m.a. ytri þætti málþróunar og hvernig áhrif frá tungumálunum tveimur birtast í bókmenntum og innan skólakerfisins. Þá er skoðað hvað einkennir dönsku sem annað mál í Skandinavíu í samanburði við dönsku sem erlent mál í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi. Loks er gerð grein fyrir stöðu grænlenskar tungu á tímum alþjóðavæðingar og stafrænna samskipta.
Rannsóknasamstarf og alþjóðleg tungumálamiðstöð
Bókin er afrakstur rannsókna innan samstarfsnetsins Sprog- og kulturmøde i Vestnorden, sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hafði forgöngu um að setja á laggirnar árið 2015 og Auður Hauksdóttir prófessor fór fyrir. Rannsóknarsamstarfið var liður í undirbúningi þess að koma á fót alþjóðlegri miðstöð tungumála og menningar við Háskóla Íslands, en Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar, sem starfar innan vébanda UNESCO, var sett á laggirnar árið 2017. Á sínum tíma var það ákvörðun Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur að fyrstu starfsár tungumálamiðstöðvarinnar yrði helgað rannsóknum á tengslum tungumála og menningar á vestnorræna svæðinu. Auk fræðimanna við Háskóla Íslands var samstarfsnetið skipað sérfræðingum á sviði málvísinda og bókmenntafræða frá Háskóla Grænlands, Fróðskaparsetri Færeyja, Háskólanum í Bergen, Uppsalaháskóla og Kaupmannahafnarháskóla.
Verkið í hnotskurn
Bókin Sprog- og kulturkontakt i Vestnorden, sem er 415 síður að lengd, skiptist í fjóra hluta auk inngangs. Í bókinni er að finna 13 kafla eftir 12 höfunda. Aðalritstjóri bókarinnar er Auður Hauksdóttir, prófessor emerita í dönsku, en meðritstjórar eru þau Gunnstein Akselberg, Malan Marnersdóttir, Nina Møller Andersen og Ulla Börestam. Auk ritstjóranna fjalla fræðimennirnir Bergur Djurhuus Hansen, Birna Arnbjörnsdóttir, Hans Harryson, Jógvan i Lon Jacobsen, Karen Langgård, Per Langgård og Þórhildur Oddsdóttir um rannsóknir sínar í verkinu.
Bókin Sprog- og kulturkontakt i Vestnorden, sem er 415 síður að lengd, skiptist í fjóra hluta auk inngangs. Í bókinni er að finna 13 kafla eftir 12 höfunda. Bókin er gefin út í samvinnu forlagsins Vandkunsten og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, en útgáfan var styrkt af Nordplus Sprog áætluninni.
Í fyrsta hlutanum er fjallað um tengsl íslensku, norsku og færeysku við danska tungu frá siðaskiptum til aldamótanna 1800 og hvernig ýmsir ytri þættir höfðu áhrif á málþróun og málnotkun í löndunum þremur. Í öðrum kafla er gerð grein fyrir stöðu danskrar tungu í Noregi á tímabilinu 1300-2020 og í kjölfarið fylgir umfjöllun um stöðu danskrar tungu í færeysku samfélagi og bókmenntum í sögu og samtíð. Í öðrum hluta verksins er varpað ljósi á málblöndun (heteroglossia) í íslensku, færeysku og grænlensku samhengi, einkum bókmenntum. Í þriðja hlutanum er umfjöllunarefnið málanám og máltaka. Þar er fyrst beint sjónum að dönsku sem erlendu máli á vestnorræna svæðinu í samanburði við dönsku sem grannmál í Skandinavíu. Í öðrum kafla er greint frá niðurstöðum nýrra rannsókna á viðhorfi nemenda til danskrar tungu og dönskunáms. Á eftir fylgir umfjöllun um niðurstöður rannsóknar, sem varpar ljósi á breytta stöðu danskrar tungu og dönskukennslu í færeyskum skólum og að lokum er skýrt frá vefnámskeiðinu Icelandic Online og hvað rannsóknir sýna um reynslu nemenda af því. Í fjórða hlutanum er gerð grein fyrir málstefnu á Grænlandi á tímum alþjóðavæðingar og stafrænna samskipta.
Bókin er gefin út í samvinnu forlagsins Vandkunsten og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, en útgáfan var styrkt af Nordplus Sprog áætluninni.