Ný bók um Kristin E. Andrésson og Þóru Vigfúsdóttur
Út er komin bókin Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir eftir Rósu Magnúsdóttur, prófessor í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Þetta er saga hjónanna Kristins E. Andréssonar og Þóru Vigfúsdóttur en um leið lýsing á viðhorfum og framlagi kommúnista til íslenskrar menningar og samfélags á tuttugustu öld. Kristinn var framkvæmdastjóri Máls og menningar og Heimskringlu og mikill áhrifamaður í pólitík og menningarlífi. Þóra var áhrifakona í kvennabaráttu og saman unnu þau hjónin ötullega að uppbyggingu kommúnismans á Íslandi og áttu í samstarfi við fólk úti um allt land og víða um heim.
Í bókinni er Kristni og Þóru fylgt í gegnum helstu stjórnmálaátök tuttugustu aldarinnar og hringiðu vaxandi menningarlífsins í Reykjavík. Þau voru vinamörg og margir af helstu menntamönnum þjóðarinnar koma hér við sögu. Þau voru á löngu tímabili menningarvitar sem lýstu veginn og vildu veg sovétkommúnismans sem mestan, á Íslandi og úti um allan heim. Þau voru í minnihlutahópi heima við en lifðu líka ákveðnu forréttindalífi og þeim mætti rauður dregill hvar sem þau komu á ferðum sínum í Sovétríkjunum, Kína eða öðrum austantjaldsríkjum. Þau sinntu menningarstarfi sósíalista heima við og stóðu fremst í víglínu kalda menningarstríðsins á Íslandi með félög eins og MÍR, Íslenzku friðarnefndina og Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna að baki sér.
Bókin fjallar þó ekki síður um einstakt samstarf og samheldni tveggja eldhuga sem lifðu fyrir hugsjónir sínar og létu þær stundum blinda sig. Þau trúðu á drauminn um framtíðarríkið og heimildir frá Moskvu staðfesta sterk og órjúfanleg tengsl þeirra við Ráðstjórnarríkin. Bókin er afrakstur margra ára rannsókna í íslenskum og erlendum skjalasöfnum og meðal annars byggð á bréfum og dagbókum sem varpa ljósi á skoðanir þeirra og líðan, vonir og vonbrigði – en umfram allt sýnir hún ást þeirra hvors á öðru og þræðina á milli þeirra, sem voru sterkari en allt annað svo að sambandið veitti þeim skjól fyrir árásum og gagnrýni utan frá.