Skip to main content
16. júní 2025

Norðurslóðir undir smásjánni í nýju netnámskeiði 

Norðurslóðir undir smásjánni í nýju netnámskeiði  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands býður nú upp á nýtt, opið netnámskeið innan edX-samstarfsins um áskoranir norðurslóða á umbrotatímum þar sem áherslan er m.a. á  stjórnkerfi og öryggismál, félags- og efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga og samfélagslega aðlögun að breyttu umhverfi norðurslóða. Sérstök áhersla er lögð á að efla leiðtogafærni þátttakenda og veita þeim hagnýt verkfæri til að miðla rannsóknum sínum á áhrifaríkan hátt. Kennarahópurinn í námskeiðinu samanstendur af fræðifólki frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Tromsø og Grænlandsháskóla.

Námskeiðið ber heitið „Social and Environmental Leadership in the Arctic” og er hluti af ARCADE-samstarfsverkefninu sem Erasmus+ áætlunin hefur styrkt síðustu þrjú ár. Í tengslum við verkefnið hafa áður verið haldin tvö tíu mánaða þverfræðileg námskeið fyrir meistara- og doktorsnema, þar sem lögð var áhersla á að þróa nýstárlegar lausnir við þeim áskorunum sem norðurslóðir standa frammi fyrir. Námskeiðin samanstóðu af þremur staðbundnum vikulöngum námskeiðum á Íslandi, í Noregi og á Grænlandi, fyrirlestrum og vinnustofum sem fóru fram í fjarkennslu og lauk með þátttöku nemenda á Hringborði norðurslóða.  
 
Það er ánægjulegt að tilkynna að hópurinn að baki ARCADE-verkefninu hefur nýverið hlotið áframhaldandi styrk frá Erasmus+ til næstu þriggja ára og því er ljóst að áfram verður hægt að bjóða upp á þverfræðileg námskeið um málefni norðurslóða, nú með þátttöku Fróðskapaseturs Færeyja.  

EdX er samstarfsverkefni fjölda háskóla um allan heim sem leitt er af Harvard og MIT. Tilgangur samstarfsins er að auka framboð á opnum netnámskeiðum eða s.k. MOOC (massive open online courses) en markmiðið er fjölþættara en það.

Öll námskeið Háskóla Íslands innan edX-samstarfsins má finna á vef þess.

""

Háskóli Íslands býður nú upp á nýtt, opið netnámskeið innan edX-samstarfsins um áskoranir norðurslóða á umbrotatímum þar sem áherslan er m.a. á  stjórnkerfi og öryggismál, félags- og efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga og samfélagslega aðlögun að breyttu umhverfi norðurslóða.