Skip to main content
28. júní 2021

Neyðarsvörun 112 kennd í Háskóla Íslands

Neyðarsvörun 112 kennd í Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og Neyðarlínan hafa gert með sér samstarfssamning með það að markmiði að efla rannsóknir og kennslu í neyðarsvörun. Samkvæmt samningnum verður haldið námskeið í „Neyðarsvörun 112“ á vormisserum 2022 og 2023. Námskeiðið verður valkvætt í grunnnámi í Félagsráðgjafardeild á Félagsvísindasviði skólans sem annast framkvæmd samningsins af hálfu háskólans og ber faglega ábyrgð á verkefninu.

Þáttur háskólans í þessu verkefni er að leggja til kennsluhúsnæði og umsjónarkennara en Neyðarlínan kostar kennslu kennara á námskeiðinu ásamt því að veita tíma í starfsþjálfun og hlustun. Umsjónarkennari verður Ragnheiður Hergeirsdóttir aðjunkt og kennari Neyðarlínunnar verður Hjördís Garðarsdóttir.

Ásamt framangreindu námskeiðahaldi er áformað að skoða möguleika á að sækja styrki til rannsókna sem lúta að neyðarsvörun hérlendis. Einnig munu Neyðarlínan og Félagsráðgjafardeild skilgreina meistaraverkefni fyrir nema í starfsréttindanámi sem lúta m.a. að rannsóknum á líðan og starfsskilyrðum starfsfólks Neyðarlínunar og upplifun notenda á þjónustu hennar. Loks kveður samningurinn á um að aðilar muni leita leiða til að efla vísindarannsóknir og vísindamiðlun á sviði neyðarsvörunar með því að afla rannsóknarstyrkja og fá til landsins erlenda sérfræðinga á þessu sviði.

Umsjón framangreindra verkefna verður á hendi prófessoranna Guðnýjar Bjarkar Eydal og Steinunnar Hrafnsdóttir og Tómasar Gíslasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Neyðarlínunnar.

Samningurinn gildir til haustsins 2023 og verður þá tekinn til endurskoðunar.

Frá undirritun samstarfssamningsins í Háskóla Íslands. Sitjandi eru þeir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, og standani þau Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild, og Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.

Frá undirritun samstarfssamningsins í Háskóla Íslands. Sitjandi eru þeir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, og standandi þau Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild, og Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. MYND/Kristinn Ingvarsson