„Nemendur fara frá okkur full af stolti“
Fregnir berast af jákvæðri reynslu af þróunarverkefninu Kveikjum neistann, sem sett var á laggirnar síðastliðnu ári. Vestmannaeyjabær, Háskóli Íslands, ráðuneyti menntamála og Samtök atvinnulífsins staðfestu í febrúar 2021, vilja sinn til samstarfs um framkvæmd þróunar- og rannsóknarverkefnis í Grunnskólanum í Vestmannaeyjum með það að markmiði að efla læsi og bæta líðan nemenda. Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar heldur utan um verkefnið sem miðar að því að fylgja nemendum eftir frá upphafi grunnskólagöngu þeirra haustið 2021 og næstu tíu árin.
Um er að ræða samstarfsverkefni rannsakenda af Menntavísindasviði Háskóla Íslands, bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum og stjórnenda Grunnskólans í Vestmannaeyjum sem ber nafnið Kveikjum neistann. Hermundur Sigmundsson, prófessor við NTNU háskóla og Háskóla Íslands er frumkvöðull og stjórnandi verkefnisins. Verkefnið hefur nú verið drifið áfram í rúmt ár og hafa ánægjulegar fréttir borist frá Grunnskólanum í Vestmannaeyjum. Herdís Rós, sérkennari við skólann hefur unnið með nemendum 1. bekkjar út frá hugmyndafræði Kveikjum neistann í vetur. Hún segir það ómetanlega tilfinningu að senda 6-7 ára gömul börn inn í sumarið með þá trú að þau hafi staðið sig frábærlega og lært ótrúlega mikið í vetur.
„Við lögðum upp með að leggja ofuráherslu á bókstafi og hljóð. Við höfum alltaf kennt eftir hljóðaaðferðinni en nú átti að ganga skrefinu lengra, hægja á innlögn bókstafa og fullvissa okkur um að helst allir nemendur væru búnir að ná öllum bókstöfum og öllum hljóðum við lok 1. bekkjar,“ segir Herdís Rós. Bókstafa- og hljóðakannanir hafa verið lagðar fyrir nemendur þrisvar yfir skólaárið og er árangurinn góður samkvæmt Herdísi Rós: „Sú upplifun að geta sýnt öllum börnum fram á frábærar framfarir er ómetanleg. Þau voru svo stolt af því að kunna (nánast öll) alla bókstafi og öll hljóð. Þau gátu lesið stutt orð og einfaldar setningar. Mörg gátu lesið samfelldan texta. Það sem mér þykir best sem kennari er að allir nemendur fara frá okkur full af stolti og vissu um hvað þau hafa staðið sig vel í vetur.“
Kristín Jónsdóttir, dósent við Deild kennslu og menntunarfræði, er einn af rannsakendum og situr í stjórn rannsóknarsetursins: „Það sem er svo dýrmætt við þetta verkefni er samstaða allra hagsmunaaðila; kennara, skólastjórnenda, foreldra og rannsakenda um að prófa nýjar leiðir og gera gott skólastarf betra. Meðal annars voru gerðar áhugaverðar breytingar á skipulagi skóladagsins sem felur nú í sér meiri daglega hreyfingu og þjálfunartíma þar sem bekkirnir þrír eru stokkaðir upp í fjóra hópa og nemendur fá fjölbreytta lestrarþjálfun miðað við sína námsstöðu á hverjum tíma.“
Hermundur Sigmundsson, stjórnandi rannsóknarinnar, segir að árangur nemenda eftir fyrsta skólaárið bendi til þess að með því að nýta markvisst hljóðaaðferðina, frá eind til heildar, við lestrarkennslu og einstakingsbundna eftirfylgni sé hægt að ná betri árangri: „Við höfum einsett okkur að ná því markmiði að 80% nemenda séu læsir við lok 2. bekkjar og að allir nemendur fái markvissa þjálfun í lesskilningi og skapandi skrifum alla grunnskólagönguna. Þá er höfuðáhersla á að efla ástríðu og árangur hvers einstaklings.“ Að sögn Hermundar mun rannsóknarsetur um menntun og hugarfar einbeita sér að verkefnum sem hverfast um læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfar nemenda og tengjast þróun á kennsluháttum og kennsluefni. Hann segir gríðarlega ánægjulegt að vinna með skólasamfélaginu í Vestmannaeyjum, ekki síst að kynnast kröftugum kennurum sem brenna fyrir hagsmunum nemenda sinna. „Það verður spennandi að fylgjast með þessi langtímaverkefni næstu níu árin til viðbótar,“ segir Hermundur að lokum.