Skip to main content
31. mars 2020

Nærri tvöfalt fleiri sinna sálfræðiráðgjöf til háskólanema en áður

""

Hátt í 40 meistaranemar í klínískri sálfræði sinna nú ráðgjöf hjá Sálfræðiráðgjöf háskólanema í miðjum COVID-19-faraldrinum. Forstöðumaður ráðgjafarinnar segir aðsókn í þjónustuna hafa aukist umtalsvert á síðustu vikum.

Sálfræðiráðgjöf háskólanema hefur verið rekin á vegum Sálfræðideildar Háskóla Íslands frá árinu 2013. Markmið hennar er að þjálfa framhaldsnema í sálfræði í klínískum störfum og veita bæði háskólanemum og börnum þeirra sálfræðiþjónustu. Við Sálfræðiráðgjöfina fer fram greining og meðferð við ýmiss konar sálrænum vanda.

Að sögn Gunnars Hrafns Birgissonar, forstöðumanns ráðgjafarinnar, hefur aðsókn í þjónustu Sálfræðiráðgjafarinnar aukist ár frá ári. „Hún hefur aldrei verið meiri en á þessu skólaári og hafði slegið metið áður en COVID-19 skaut upp kollinum. Biðlistinn var lengri en við töldum okkur ráða við á skólaárinu og með veirufaraldrinum jókst aðsóknin frekar,“ bendir hann á. Það rímar við niðurstöður könnunar sem Stúdentaráð gerði á dögunum en hún leiddi í ljós að líðan stúdenta á þessum óvenjulegu tímum var ekki góð.

Sálfræðiráðgjöfin brá því á það ráð að efla þjónustu sína með dyggum stuðningi meistaranema í hagnýtri klínískri sálfræði. „Annars vegar eru það tuttugu sálfræðinemar af öðru ári, sem hafa verið að sinna meðferðinni í vetur undir minni handleiðslu, sem hafa bætt við sig málum. Hins vegar eru það 17 sálfræðinemar af fyrra árinu í meistaranáminu sem hafa boðið sig fram, þó að það sé utan viðnámsskyldu þeirra, og tekið að sér mál til meðferðar. Þeir vinna undir handleiðslu kennara Sálfræðideildar, þeirra Urðar Njarðvík, Andra S. Björnssonar og Guðmundar Skarphéðinssonar. Það er nýtt hjá okkur í deildinni að nemar á fyrra MS-árinu sinni sálfræðimeðferð en þeir hafa reynslu úr Sálfræðiráðgjöfinni af því að taka greiningarviðtal við skjólstæðing,“ segir Gunnar og bætir við: „Með þessu frábæra framtaki sálfræðinema í sjálfboðavinnu höfum við getað mætt þessari auknu eftirspurn, alla vega hingað til.“

Þar sem nú ríkir samkomubann og Háskólinn er lokaður fer öll sálfræðiráðgjöf fram í gegnum netið. „Áherslan hjá okkur er á svokallaða „telehealth“ sem mætti kannski kalla vefheilsu eða fjarheilbrigði. Sálfræðinemarnir veita fjarmeðferð í gegnum öruggan hugbúnað. Handleiðsla sálfræðinemanna fer líka fram í fjarskiptum, aðallega á fjarfundum sem haldnir eru reglulega,“ segir Gunnar.

Aðspurður hvað hann reikni með að geta sinnt mörgum nemendum segir Gunnar að fjöldi mála hjá ráðgjöfinni á skólaárinu nálgist nú 140. „Þar af  eru um 70-75 mál til meðferðar hjá okkur núna. Í fyrravetur var heildarfjöldi mála 116 sem þótti há tala. Það er misjafnt hvað hvert mál þarf langan tíma. Við útskrifum skjólstæðinga þegar markmið hafa náðst. Jafnframt fyllum við í þau pláss sem losna. Það er erfitt að gefa nákvæma tölu um það hve málin munu verða mörg á skólaárinu. Við gerum það sem við getum til að mæta þörfum þeirra háskólanema sem til okkar leita en auðvitað innan raunhæfra  marka,“ segir Gunnar.

En hvert eiga nemendur að snúa sér ef þeir vilja nýta sér þjónustu Sálfræðiráðgjafarinnar. „Við höfum þetta einfalt og eins og staðan er núna þá sækja nemar um þjónustuna til mín með tölvupósti á netfangið gunnarhb@hi.is. Mér nægir að fá nafn, kennitölu og símanúmer viðkomandi og í einni setningu það sem umsækjandi vill fá hjálp við. Svo finn ég sálfæðinema sem tekur að sér málið og sá hefur samband við verðandi skjólstæðing og þeir bóka saman fjarviðtal,“ segir Gunnar.

Við þetta má bæta að sálfræðingar hjá Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands veita nemendum einnig sálfræðiþjónustu eins og lesa má nánar um á vef Háskólans.

Gunnar Hrafn Birgisson