Nærri 900 milljóna styrkur til lyfjaþróunar gegn sýklalyfjaþolnum bakteríum
Sprotafyrirtækið Akthelia Pharmaceuticals og Háskóli Íslands leiða verkefni sem fengið hefur sex milljóna evra styrk, jafnvirði nærri 900 milljóna króna, frá Evrópusambandinu og miðar að þróun nýrra lyfja sem magna náttúrlegar ónæmisvarnir líkamans og vinna þannig gegn vaxandi hættu af sýklalyfjaþolnum bakteríum.
Að verkefninu, sem nefnist IN-ARMOR, koma níu háskólar og rannsóknastofnanir og sjö fyrirtæki í níu Evrópulöndum. Í verkefninu er tekist á við þá miklu hættu sem heiminum stafar af auknu þoli baktería fyrir sýklalyfjum, en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur skilgreint þessa ógn sem eina af tíu stærstu áskorunum heimsins á sviði heilbrigðismála.
Áætlað er að rekja megi andlát fimm milljóna manna árlega til aukins þols baktería gagnvart stórum hópum sýklalyfja og óttast er að heimsfaraldur geti brotist út ef fram koma bakteríustofnar sem verða ónæmir fyrir öllum sýklalyfjum. Því er þörf á nýjum leiðum til þess að takast á við sýkingar í mannslíkamanum og þar getur tækni og aðferðir Akthelia komið að góðum notum.
Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við HÍ og rannsóknastjóri Akthelia, og Egill Másson, framkvæmdastjóri Akthelia, segja hér frá markmiðum verkefnisins.
Náttúrulegar varnir líkamans magnaðar
Akthelia var stofnað fyrir rúmum 20 árum. Rannsóknir og starfsemi fyrirtækisins snýr að bakteríudrepandi peptíðum, sem eru stuttar prótínkeðjur sem gegna lykilhlutverki í ónæmiskerfi spendýra, þar á meðal mannsins. Segja má að peptíðin séu nokkurs konar innbyggð sýklalyf og fyrsta vörn mannsins gegn bakteríusýkingum. Fyrirtækið vinnur að þróun lyfja sem magnar þessar náttúrlegu ónæmisvarnir líkamans til að sigrast á sýkingum.
Starfsemi Akthelia grundvallast á grunnrannsóknum innan Háskóla Íslands en stofnendur fyrirtækisins eru þeir Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild, og samstarfsfélagar þeirra, Roger Strömberg og Birgitta Agerberth, prófessorar við Karolinska-stofnunina í Svíþjóð. Háskóli Íslands er meðal eigenda sprotafyrirtækisins sem á síðustu árum hefur aflað veglegra styrkja úr rannsókna- og nýsköpunarsjóðum.
„Með því að leggja áherslu á að örva innbyggða sýklavörn líkamans getum við komist hjá því að nota hefðbundin sýklalyf og þróað byltingarkenndar meðferðir til þess að fást við sýklalyfjaþolnar bakteríur og þannig bjargað lífi fjölda fólks í heiminum,“ segir Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við HÍ. MYND/Kristinn Ingvarsson
Tölvu- og nanótækni nýtt við lyfjaþróunina
Þróun lyfja innan IN-ARMOR-verkefnisins fer fram með aðstoð tölvutækninnar auk þess sem ætlunin er að nýta nanótækni við lyfjagjöfina, en með slíkri tækni er hægt að beina lyfjum á ákveðna staði í líkamanum, lengja verkun þeirra og draga úr aukaverkunum. Virkni og öryggi lyfjameðferðarinnar verður jafnframt prófuð eins og gæðakröfur og lagasetning gerir ráð fyrir. Vonir standa til að hægt verði að nota efnin ein og sér eða með öðrum sýklalyfjum í baráttu við sýkingar, þar á meðal af völdum fjölónæmra sýkla sem eru vaxandi vandamál í heiminum, sem fyrr segir.
„Við erum í skýjunum með að ný tækni okkar, sem þróuð er í samstarfi við Háskóla Íslands, hafi hlotið þennan mikilsverða styrk,” segir Egill Másson, framkvæmdastjóri Akthelia. „Sú áhersla sem lögð er á nýja ónæmisvaka í IN-ARMOR-verkefninu er órækt vitni um þá möguleika sem felast í okkar nálgun á þá áskorun sem sýklalyfjaónæmi er í heiminum og við hlökkum til að halda áfram rannsóknum á þessu sviði.“
„Ég er afar ánægður með að vinna með Akthelia Pharmaceuticals að þessu gríðarmikilvæga verkefni,“ segir Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands sem einnig er rannsóknastjóri Akthelia. „Með því að leggja áherslu á að örva innbyggða sýklavörn líkamans getum við komist hjá því að nota hefðbundin sýklalyf og þróað byltingarkenndar meðferðir til þess að fást við sýklalyfjaþolnar bakteríur og þannig bjargað lífi fjölda fólks í heiminum,“ segir Guðmundur. Um leið megi draga umtalsvert úr sjúkdómsbyrði af völdum sýkinga á heimsvísu og spara fjármuni við þróun nýrra sýklalyfja.