Skip to main content
20. ágúst 2024

Móttaka nýnema á Menntavísindasviði haldin í Laugardalshöll

Móttaka nýnema á Menntavísindasviði haldin í Laugardalshöll - á vefsíðu Háskóla Íslands

Móttaka nýnema í grunnnámi á Menntavísindasviði fór fram í Laugardalshöll mánudaginn 19. ágúst. Mikil spenna ríkti í höllinni þennan mánudagsmorgun þegar tekið var á móti nýnemum með fjörefli sem leitt var af nemendum á 2. og 3.ári í grunnnámi sem og framhaldsnemum á sviðinu.

Forseti Menntavísindasviðs, Kolbrún Þ. Pálsdóttir tók móti hópnum og flutti ávarp, Gunnar Ásgrímsson, forseti sviðsráðs, hélt stutt ávarp og kynnti um leið inn formenn nemendafélaga sviðsins: Tuma, Kennó og Vatnið. Nemendaþjónusta sviðsins kynnti sig og sína starfsemi og Jörgen Nilsson, verkefnisstjóri við tómstunda- og félagsmálafræði, var fundarstjóri og stýrði fjörefli dagsins ásamt sjálfboðaliðum úr hópi nemenda. Þess má geta vegna flutninga Menntavísindasviðs í Sögu, sem eru nú þegar hafnir, var móttaka nýnema grunnnáms haldin í Laugardalshöll þar sem verkleg kennsla í íþrótta- og heilsufræði fer fram.

Hér má lesa ávarp sviðsforseta:

Kæru nýnemar,    

Frábært að sjá ykkur svona mörg hér í dag. Ég býð ykkur hjartanlega velkomin til  náms við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Það er frábær ákvörðun að hefja  háskólanám og mér finnst að sjálfsögðu sérstaklega ánægjulegt að þið hafið valið að stunda nám á sviði menntavísinda. Háskóli er samfélag sem er ekki bundið einum stað eða einni byggingu. Í dag tökum við á Menntavísindasviði móti ykkur hér í Laugardalshöll en hér í Laugardalnum fer einmitt fram kennsla og rannsóknir á sviði íþrótta- og heilsufræða á vegum sviðsins, nánar tiltekið deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda.

Nú í haust hefja nám um 500 nýnemar í öllum fjórum deildum sviðsins. Og ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin: Nýnema í leikskólakennaranámi og grunnskólakennaranámi, nýnema í uppeldis – og menntunarfræði, og  tómstunda- og félagsmálafræði. Ég býð líka velkomna nemendur í kennslufræði fyrir starfsmenntakennara, nemendur í þroskaþjálfafræði, nemendur í íþrótta- og heilsufræði og nemendur í starfstengdu diplómanámi.

Menntun er grunnstoð samfélagsins og gegnir lykilhlutverki í að móta einstaklinga og samfélög. Með því að velja að læra á þessu sviði hafið þið valið að leggja ykkar af mörkum til að byggja upp betri framtíð fyrir komandi kynslóðir. Það er ekki aðeins ábyrgð heldur einnig forréttindi að fá að taka þátt í því mikilvæga starfi. Íslensk menntastefna er að mörgu leyti framsækin og endurspeglast í fjölbreyttu og skapandi skóla- og frístundastarfi víða um land. Engu að síður er margt sem má betur fara og við höfum áhyggjur af auknum félagslegum ójöfnuði og dalandi læsi. Eitt helsta markmið menntakerfisins er að tryggja öllum einstaklingum hæfni og þekkingu til að takast á við verkefni lífsins, verða farsælir og virkir samfélagsþegnar. Lykilinn að því að styðja við árangur og velferð hvers og eins barns er samvinna ólíkra aðila, s.s. foreldra, kennara og annarra fagaðila sem koma að lífi barnsins með einum eða öðrum hætti, s.s. þroskaþjálfa, tómstundafræðinga, uppeldisfræðinga og íþróttaþjálfara. Ég hvet ykkur til að hafa það ávallt í huga að kynnast vel öðrum fagstéttum sem þið eigið eftir að vera í samstarfi við.

Framundan eru gríðarlega spennandi tímar, en stefnt er að flutningi Menntavísindasviðs í Sögu í lok árs. Fari allt að óskum þá mun sú starfsemi sem nú fer fram í húsakynnum sviðsins í Stakkahlíð og Skipholti að mestu fara fram í Sögu frá áramótum, ásamt því sem verkleg íþróttakennsla fer áfram fram í Laugardal. Þið sem nú eruð að hefja nám munuð taka þátt í byggja upp háskólastarfsemi í Sögu sem áður hýsti eitt glæsilegasta hótel landsins. Flutningur sviðsins er gríðarlega umfangsmikið verkefni því við sviðið starfa um 200 manns og verða nemendur á komandi starfsári um 2500 talsins.

Í Sögu verður vinnuaðstaða og námsaðstaða fyrir allt starfsfólk og nemendur Menntavísindasviðs, ásamt því sem ein hæð mun hýsa upplýsingatæknisvið háskólans. Þá verður margvísleg þjónustustarfsemi á neðri hæðum, s.s. veitingaþjónusta, mötuneyti, sköpunar- og tæknismiðja og fjölbreytt aðstaða fyrir nemendur til hópa- og verkefnavinnu.

Flutningurinn er þegar hafinn, en í sumar var hluti húsnæðis í Stakkahlíð sem heitir Hamar tæmdur og sameinaðist þá bókasafn Menntavísindasviðs Landsbókasafni-Háskólabókasafni. Þið munuð því sækja alla helstu bókasafnsþjónustu á Landsbókasafn, en þó verður námsgagnaver staðsett í Sögu. Nú í haust er því ákveðið millibilsástand, vegna flutningsins, en stefnt er að því að öll starfsemin verði að mestu flutt um áramótin. Ég bið ykkur því að vera undir það búin og sýna því skilning að einhver röskun verður á starfsemi sviðsins næstu mánuði. Til að mynda hefur komið í ljós að sú kennsla sem átti að vera staðsett á 2. hæð í Sögu mun hefjast í öðru húsnæði og vera þar þangað til í lok september. Það er því mikilvægt, kæru nýnemar, að þið fylgist daglega með stundatöflu ykkar í Uglu, ekki síst núna fyrstu vikurnar. Það mun skipta miklu máli að við leggjumst á eitt, starfsfólk og nemendur, við að láta hlutina ganga upp eins vel og hægt er, sýna þolinmæði, sveigjanleika og vera jákvæð. Það getur verið áskorun að hefja háskólanám og tekur tíma að kynnast öllum hliðum þess að vera háskólanemi. Nýtið ykkur nemendaþjónustu sem háskólinn skipuleggur, einkum á Háskólatorgi, en einnig á kennsluskrifstofu Menntavísindasviðs í Stakkahlíð. Þið getið einnig nýtt ykkur netspjall, hringt eða sent tölvupóst á mvs@hi.is.

Einkunnarorð á stefnu Háskóla Íslands er betri háskóli- betra samfélag. Eitt af meginmarkmiðum okkar sem störfum hér á Menntavísindasviði er að standa fyrir fjölbreyttum rannsóknum á sviði menntunar og skapa mikilvæga þekkingu sem skiptir miklu máli til að bæta gæði og þróa nýjar leiðir í skóla- og frístundastarfi. Kennararnir sem þið munuð kynnast stunda rannsóknir á sínum fagsviðum ásamt því að skipuleggja nám og kennslu. Sem háskólanemar gefst ykkur dýrmætt tækifæri til að vera þátttakendur í akademísku þekkingarsamfélagi og ég hvet ykkur til að nýta þennan tíma vel, kynna ykkur nýjustu rannsóknir og kenningar á ykkar fagsviðum.

En gleymið ekki að menntun er ævilangt ferli – við menntumst ekki í eitt skipti fyrir öll, við manneskjur erum gerðar til þess að læra, og í nútímasamfélagi er sífelld krafa á að við endurnýjum hæfni okkar og þekkingu. Þess vegna starfar fagfólk á sviði menntunar víðsvegar um samfélagið, í skóla- og frístundastarfi, hjá stofnunum og fyrirtækjum, og sinnir menntun, fræðslu, velferð, þjálfun og heilsu og valdeflingu fólks. Atvinnutækifærin eru mörg.

Á þessum fyrstu dögum ykkar í háskólanum vil ég hvetja ykkur til að nýta öll þau tækifæri sem bjóðast. Kynnið ykkur námskeiðin, kynnist kennurum og samnemendum, og takið þátt í félagslífinu. Háskólagangan hverfist ekki aðeins um formlegt nám heldur einnig um persónulegan þroska og félagsleg tengsl. Þið munuð kynnast fólki með ólíkan bakgrunn og með mismunandi sjónarmið, sem mun auðga reynslu ykkar og víkka sjóndeildarhringinn. Þess vegna hve ég ykkur til að hafa frumkvæði að því að tengjast samnemendum ykkar, ekki bíða endilega eftir því að einhver annar hafi frumkvæði– tala þú við manneskjuna við hliðina á þér, fyrir framan þig eða fyrir aftan þig.

Kæru nýnemar, mín von er sú að þið sem nú eruð að hefja háskólanám hér á Menntavísindasviði munið njóta ykkar í námi og starfi. Þið verðið á einn eða annan hátt þátttakendur í flutningum sviðsins í Sögu og munuð eiga aðild að því að skrifa nýja sögu í kafla háskólans. Starfsfólk Menntavísindasviðs leitast við að aðstoða ykkur eftir fremsta megni – en þið megið ekki láta ykkar kyrrt eftir liggja. Kynnið ykkur vel allar upplýsingar á heimasíðu háskólans og hafið í huga að flestar upplýsingar sem ykkur mun vanta eru að finna á innri samskiptavefnum Uglu og á Canvas vef námskeiðanna sem þið eruð skráð í. Ég hvet ykkur til að taka  virkan þátt í dagskránni hér í dag.

Innilega velkomin til náms á Menntavísindasvið!

Myndir: Gunnar Sverrisson

Móttaka nýnema á Menntavísindasviði fór fram í Laugardalshöll / Myndir: Gunnar Sverrisson
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði fór fram í Laugardalshöll
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði fór fram í Laugardalshöll
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði fór fram í Laugardalshöll
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði fór fram í Laugardalshöll
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði fór fram í Laugardalshöll
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði fór fram í Laugardalshöll
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði fór fram í Laugardalshöll