Mörg börn telja sig vera lengi í leikskólanum
Við upplifum tímann með ólíkum hætti, t.d. eftir því við hvað við erum að fást eða hversu gömul við erum. Þau þekkja það sem ekið hafa með börn milli landshluta að þau upplifa tíma með allt öðrum hætti en fullorðnir. En hvernig skyldu börn upplifa tíma sinn á leikskólanum þar sem þau verja stórum hluta vökutíma síns? Við þessa spurningu fékkst Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjunkt í leikskólafræði við Háskóla Íslands, nýverið en hún ræddi ásamt samstarfskonu sinni við á annað hundrað börn um upplifun þeirra af leikskóladvöl sinni.
Í rannsókn Önnu Magneu og Kristínar Dýrfjörð, dósents við Háskólann á Akureyri, var markmiðið bæði að fá fram sjónarmið barnanna sjálfra og varpa ljósi á þá þætti sem hafa áhrif á upplifun þeirra á tíma sínum á leikskólanum. „Umræða um lengd daglegrar viðveru barna í íslenskum leikskólum hefur verið hávær undanfarin ár. Fram hefur komið í erlendum samanburðarrannsóknum að íslensk börn dvelja lengur í leikskólanum en börn í mörgum Evrópulöndum. Börn yngri en þriggja ára dvöldu að meðaltali um 37,3 tíma á viku í leikskóla á Íslandi árið 2016, en börn eldri en þriggja ára 38,1 tíma á viku. Meðaltal dvalartíma barna í Evrópu var um 28 tímar fyrir báða hópana og er dvalartími barna á Íslandi því vel yfir meðaltali í Evrópu,“ benda þær Anna Magnea og Kristín á í vísindagrein um niðurstöður sínar sem birtist í veftímaritinu Netlu í desember 2021.
Þær undirstrika jafnframt að þessi langa viðvera haldist í hendur við langan vinnutíma hér á landi en jafnframt sé lögð mikil áhersla á að börn eigi rétt á að sækja leikskóla, þetta fyrsta skólastig, til þess að geta notið bernskunnar.
Anna Magnea og Kristín benda líka á að í umræðum um áhrif langs dvalartíma á leikskólum þurfi að hlusta á raddir barnanna sjálfra en lítið hafi verið gert af því hingað til. „Í þeirri umræðu þarf leikskólinn að vera skilgreindur sem félagslegur vettvangur fyrir börn sem virkra lýðræðislega borgara og fyrsta skólastigið, en ekki sem gæsla.“
Þær stöllur heimsóttu því níu deildir á sex leikskólum og vörðu tíma með hátt í 180 börnum á aldrinum 4 til 5 ára, bæði til þess að átta sig á tímaskyni þeirra og hlutverki tímans í dagskipulagi leikskólans. „Dagskipulag getur verið afar ólíkt eftir leikskólum, allt frá því að vera opið og sveigjanlegt, þar sem einu föstu liðirnir eru svefn og hvíldartímar, matartími, leiktími og útivera og yfir í að vera skipulagt frá einum klukkutíma til annars,“ benda þær á í greininni.
Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjunkt í leikskólafræði við Háskóla Íslands, er annar höfunda rannsóknarinnar. Þar er m.a. undirstrikað að vegna þess hversu löngum tíma börnin verja í leikskólanum sé afar mikilvægt að taka mið af þeirra þörfum og hlusta á raddir þeirra við skipulag skólastarfs. „Skilaboð þessarar rannsóknar eru þau, að vinátta barna sé þeim mikilvæg og að þau fái tækifæri til að fást við fjölbreytt viðfangsefni í leikskólanum sem börnin fá að stýra. Einnig að tímaskyni þeirra sé gefinn gaumur og að dagskipulag leikskóla taki mið af skynjun barna á tíma.“
„Klukkan er tólf þegar ég kem og hundrað þegar ég er sóttur eða fimmtán“
Í rannsókninni spurðu þær börnin um ýmsa þætti sem tengjast klukku, tímaskyni og upplifun á tímalengd atburða, en einnig um hvað skapaði merkingu fyrir þau í leikskólanum, t.d. hvað tæki stuttan tíma og hvað langan. Þær benda á að rannsóknir hafi sýnt að börn á leikskólaaldri geti rifjað upp nokkrar athafnir í dagskipulagi leikskóla í réttri tímaröð og skilið tengsl og röð athafna í dagskipulagi, svo sem morgunmat, samverustund og hádegismat og þess háttar.
Niðurstöður Önnu Magneu og Kristínar sýna að leikskólarnir sem tóku þátt í rannsókninni störfuðu ýmist samkvæmt hefðbundnu eða sveigjanlegu skipulagi en ákveðna fasta liði var þó að finna í starfinu, eins og matartíma, samverustundir, leik og útiveru.
Þær stöllur benda á í greininni að börnin sem rætt var við þekktu ekki annað en að dvelja í leikskóla megnið af vökutíma sínum. Skiptar skoðanir hafi verið um tímalengdina meðal þeirra barna sem tjáðu sig um dvalartímann. „Mörg barnanna töldu sig vera lengi í leikskólanum, sumum börnum fannst misjafnt hvort þau eru lengi eða stutt og einhverjum barnanna fannst þau vera stutt í leikskólanum,“ segir í greininni en þar eru líka tekin nokkur dæmi um svör:
- „Ég kem á undan öllum í leikskólanum, en fer stundum snemma, en stundum ekki snemma.“
- „Ég er búinn að vera lengi í leikskólanum þegar pabbi sækir mig.“
- „Ég þarf stundum að bíða lengi í leikskólanum þegar mamma er lengi að sækja mig.“
- „Ég er lengi í leikskólanum og það er rosalega langt síðan ég var bara stuttan leikskóla.“
- „Þegar ég er að leika úti, þá er ég lengi, en þegar ég er að leika inni, þá er ég stutt.“
- „Stundum er maður lengi í leikskólanum, en ekki alltaf.“
- „Klukkan er tólf þegar ég kem og hundrað þegar ég er sóttur eða fimmtán.“
Mikilvæg að hlusta á raddir barna
Upplifun barna af eigin dvalartíma í leikskóla er því nokkuð einstaklingsbundin en þær Anna Magnea og Kristín segja að ljóst sé að flest börnin sem rætt var við hafi áttað sig vel á röð atburða og hafi tímaskyn sem tengist þeim þótt það sé ekki bundið klukku. „Það er margt í skipulagi leikskóla sem styður slíka upplifun, bæði er víða sjónrænt dagskipulag haft uppi við eða farið er yfir það í samverustundum. Flestir leikskóladagar markast af atriðum sem eru eins dag frá degi, eins og matartímar, samverustundir og útivera. Þau mynda einhvers konar takt eða hrynjanda yfir daginn sem festist í minni barna, verða að vaðsteinum í daglegu starfi, en gefa börnum tilfinningu fyrir röð atburða og þróa með þeim tímaskyn,“ benda þær Anna Magnea og Kristín á í greininni.
Þær undirstrika enn fremur að vegna þess hversu löngum tíma börnin verja í leikskólanum sé afar mikilvægt að taka mið af þeirra þörfum og hlusta á raddir þeirra við skipulag skólastarfs. „Skilaboð þessarar rannsóknar eru þau, að vinátta barna sé þeim mikilvæg og að þau fái tækifæri til að fást við fjölbreytt viðfangsefni í leikskólanum sem börnin fá að stýra. Einnig að tímaskyni þeirra sé gefinn gaumur og að dagskipulag leikskóla taki mið af skynjun barna á tíma, eða eins og skáldið Guðrún Eva Mínervudóttir (Kristjana B. Guðbrandsdóttir, 2018) sagði: „Gerðu færra, gerðu eitt í einu, gerðu það hægar. Hafðu lengra bil á milli gjörða.“