Skip to main content
4. september 2017

Miklar félagslegar breytingar verða í heiminum samfara bráðnun jökla

""

Í grein sem birtist í dag í hinu virta vísindatímariti Proceedings of the National Academy of Sciences, er greint frá djúpstæðum áhrifum hopandi jökla á lífríki í ferskvatni og á strandsvæðum en greinin byggist á rannsóknum vísindamanna undanfarin ár. Í hópi höfunda eru tveir íslenskir vísindamenn,  Gísli Már Gíslason, prófessor í vatnalíffræði við Háskóla Íslands, og Jón S. Ólafsson, vatnalíffræðingur við Hafrannsóknarstofnun.

Vísindamenn hafa lengi varað við „aðkallandi alþjóðlegri þörf“ til að fást við keðjuverkandi áhrif hörfunar jökla á ýmis vistkerfi. „Áhrif bráðnunar jökla á hækkun sjávar hefur hlotið mikla athygli undanfarin ár en þessi grein fjallar um margvíslegar breytingar á vistkerfum í jökulám og á grunnsævi vegna breytinga á jöklum,“ segir Gísli Már, prófessor við Háskóla Íslands og einn höfunda. „Þessar breytingar munu hafa miklar félagslegar afleiðingar.“

Að sögn Gísla kalla höfundar greinarinnar eftir auknum áherslum stjórnvalda víða í heiminum á bætt skipulag og mótvægisaðgerðir til að draga úr hinum neikvæðu samfélagslegu áhrifum sem munu eiga sér stað á fjölmörgum svæðum á jörðinni.

Að sögn Gísla þekja jöklar nú um tíu prósent af flatarmáli lands á jörðinni. „Þeir hörfa hratt hvarvetna í heiminum. Jöklar munu minnka mikið á þessari öld. Mesta bráðnunin verður í jöklum í Alaskaflóa, á heimskautasvæðum Kanda,  Grænlandi, Íslandi og Suðurheimskautslandinu.“

Gísli Már segir að hins vegar muni mestra neikvæðra áhrifa gæta í Ölpunun og í jöklum Suður-Ameríku. „Djúpstæðust verða áhrifin í Ölpunum þar sem flatarmál jökla hefur minnkað um meira en helming síðan 1880. Spár gera ráð fyrir að þeir verði um 4 til 13% af núverandi stærð árið 2100.“

Í greininni kemur fram að rennsli jökuláa verði tilviljanakenndara þegar afrennsli jökla minnkar og háðara tilviljanakenndri úrkomu og snjóbráðnun. Minnkun jökla muni breyta setflutningum auk þess sem líf- og jarðefnafræðilegir þættir taki miklum breytingum.

„Ófyrirsjáanleg áhrif af minnkun jökla tengjast losun mengandi efna, þar á meðal frá iðnaðarútblæstri sem bundinn er í jökulísnum. Þetta er t.d. kvikasilfur, illgresis- og meindýraeitur auk þrávirkra lífrænna efna. Flutningur þeirra niður árnar mun síðan dvína þegar rúmmál jökla minnkar.“

„Áhrif bráðnunar jökla á hækkun sjávar hefur hlotið mikla athygli undanfarin ár en þessi grein fjallar um margvíslegar breytingar á vistkerfum í jökulám og á grunnsævi vegna breytinga á jöklum.“

Gísli Már Gíslason, prófessor við Háskóla Íslands

Gísli Már segir að áhrifin verði mikil á náttúrulegt umhverfi, þar á meðal á líffræðilega fjölbreytni tegunda, vistkerfisþjónustu sem jökulár veita, sérstaklega á vatn fyrir landbúnað, vatnsaflsvirkjanir og drykkjarvatn.

„Hér erum við m.a. að tala um veruleg áhrif á ferla og þjónustu vistkerfa með breyttu framboði vatns fyrir mannfólkið. Þetta kallar á endurskipulagningu á hreinsunarferlum til viðhalds á vatnsgæðum og til varna gegn náttúruvá,“ segir Gísli Már. Hann bendir einnig á breytingar á eðli ferðamennsku sem tengist jöklum auk breytinga á landslagi og menningu.
Gísli Már segir að líklega séum við nú miklu  nær en áður að skilja þau gríðarlegu áhrif sem hopun jökla hafi á vistkerfi í jökulám og á strandsvæðum, en breytingar muni ná frá líffræðilegum fjölbreytileika tegunda til eðli ferðaþjónustu, frá rafmagnsframleiðslu með vatnsafli að hreinu drykkjarvatni. Hann nefnir einnig þá margþættu breytingar sem geta orðið á lífskjörum fólks. „Næstu skref verða að breyta viðhorfum almennings til hopunar jökla og að meta hættuna á svæðum sem verða fyrir mestum áhrifum.“

Höfundar greinarinnar leggja til að eftirfarandi verði gert:
•        Kortlagning jöklabreytinga með nýjustu tækni, líkt og hefur verið gert á Íslandi.
•        Vöktun á helstu líf- og jarðefnafræðilegum breytum, þ.m.t. mengun og breytingum á líffræðilegum fjölbreytileika í jökulám með stöðluðum söfnunaraðferðum.
•       Mat á nýtingu vatns og á menningarlegum áhrifum frá vistkerfum sem tengjast jöklum, sérstaklega á mengun og veiðar á laxfiskum.
•        Breytilegu skipulagi stjórnunar verði komið á á viðkvæmustu svæðunum sem verða fyrir mestum áhrifum af jöklabreytingum.  Áhersla verði lögð á að alþjóðleg lög verði sett til verndar vatnsbólum sem jöklarnir mynda.

„Hér erum við m.a. að tala um veruleg áhrif á ferla og þjónustu vistkerfa með breyttu framboði vatns fyrir mannfólkið. Þetta kallar á endurskipulagningu á hreinsunarferlum til viðhalds á vatnsgæðum og til varna gegn náttúruvá,“ segir Gísli Már. Hann bendir einnig á breytingar á eðli ferðamennsku sem tengist jöklum auk breytinga á landslagi og menningu.

Gísli Már segir að líklega séum við nú miklu  nær en áður að skilja þau gríðarlegu áhrif sem hopun jökla hafi á vistkerfi í jökulám og á strandsvæðum, en breytingar muni ná frá líffræðilegum fjölbreytileika tegunda til eðli ferðaþjónustu, frá rafmagnsframleiðslu með vatnsafli að hreinu drykkjarvatni. Hann nefnir einnig þá margþættu breytingar sem geta orðið á lífskjörum fólks. „Næstu skref verða að breyta viðhorfum almennings til hopunar jökla og að meta hættuna á svæðum sem verða fyrir mestum áhrifum.“

Rannsókninni stýrði Alexander Milner við Háskólann í Birmingham og er hann aðalhöfundur. Aðrir höfundar eru Alexander M. Milner, Kieran Khamis, Tom J. Battin, John E. Brittain, Nicholas E. Barrand, Leopold Füreder, Sophie Cauvy-Fraunie, Gísli Már Gíslason, Dean Jacobsen, David M. Hannah, Andrew J. Hodson, Eran Hood, Valeria Lencioni, Jón S. Óafsson, Christopher T. Robinson, Martyn Tranter og Lee E. Brown.

Ferðamenn á jökli.