Skip to main content
7. janúar 2022

Mikill áhugi á starfsþjálfun í HÍ

Mikill áhugi á starfsþjálfun í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands starfar náið með íslensku atvinnulífi og í nýrri stefnu skólans er áhersla á að námið mæti þörfum íslensks samfélags og stuðli að sjálfbærum heimi. Starfsþjálfun nemenda er einn af mikilvægum þáttum í starfi skólans þar sem þessi tengsl eru mikilvæg báðum, nemandanum og fyrirtækinu. 

„Samstarf háskóla og atvinnulífs er afar mikilvægt enda getur hvorugt án hins verið,“ segir Ásta Dís Óladóttir, dósent í viðskiptafræði sem hefur leitt innleiðingu á starfsþjálfun hjá Viðskiptafræðideild skólans.

„Það er hlutverk Háskóla Íslands að skapa nýja þekkingu sem nýtist samfélaginu í heild sinni og að búa nemendur undir þátttöku í fjölbreyttu og síbreytilegu atvinnulífi. Þess vegna skiptir miklu máli að nemendur fái tækifæri til þess að prófa þekkingu sína í raunhæfum verkefnum í gegnum starfsþjálfun í atvinnulífinu.“

Ásta Dís segir að starfsþjálfun virki í báðar áttir og innkoma nemenda í fyrirtæki geti hreinlega haft verulega jákvæða áhrif á starf þess. 

„Nemendur koma oft inn í fyrirtækin með ferska sýn, nýja þekkingu og kannski annað viðhorf en hefur verið við lýði innan fyrirtækisins. Ég hef fengið ýmsar reynslusögur frá stjórnendum fyrirtækja og stofnana um það hversu gott það reyndist að fá inn tiltekna nemendur því þeir sýndu stjórnendum fram á eitthvað nýtt, komu inn með nýja reynslu eða þekkingu sem nýttist vel í fyrirtækinu og í starfinu.“

Ásta Dís segir að starfsþjálfun hafi það að markmiði að þjálfa nemanda hjá fyrirtæki, stofnun, félagasamtökum eða ráðuneyti þar sem unnin eru störf sem snúa beint að námi nemandans í Viðskiptafræðideild. 

„Starfsþjálfunin felur í sér þjálfun nemanda undir leiðsögn þar sem unnið er að verkefnum á sviði viðskiptafræði. Verkefnin snúa að einhverjum þeirra námsþátta sem nemendur í viðskiptafræði tileikna sér, s.s. fjármálum, markaðsmálum, reikningshaldi eða stjórnun.“

Farið fram úr björtustu vonum

Núna er starfsþjálfun að hefjast í fjórða sinn og Ásta Dís segir að verkefnið hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra sem að því standa. „Við erum í samstarfi við um 40 fyrirtæki, stofnanir og ráðuneyti og því margar áhugaverðar stöður í boði fyrir nemendur bæði í grunn- og meistaranámi á öllum sviðum viðskiptafræðinnar.“
 
Ásta Dís segir að það komi sér reyndar ekki á óvart að nemendur séu spenntir fyrir þessum tengslum við atvinnulífið.  

„Þeir fá einstakt tækifæri til þess að nýta þá þekkingu sem þeir hafa öðlast í náminu og beita þeirri þekkingu í raunhæfum verkefnum í atvinnulífinu. Einnig skapa nemarnir ný tengsl sem geta orðið afar verðmæt að námi loknu enda flestir stjórnendur til í að mæla með öflugum nemendum.“

Hún segir að þeir nemendur sem lokið hafa starfsþjálfun tali um að þjálfunin lyfti þekkingu þeirra upp á annað plan og með starfsþjálfun fái þeir atvinnulífið beint í æð. „Þónokkrir nemendur hafa meira að segja fengið störf í kjölfar þjálfunarinnar hjá þeim fyrirtækjum sem þeir voru hjá. Aðrir hafa komist að því að þetta er einmitt það sem þeir vilja leggja fyrir sig í framtíðinni, komust kannski að hjá draumafyrirtækinu og ætla að sérhæfa sig á því sviði sem fyrirtækið starfar í framhaldinu.“

Hægt er að sjá allar lausar stöður í starfsþjálfun á vef Tengslatorgs HÍ en þar kemur fram að Háskóli Íslands ætli að stórefla starfsþjálfun fyrir nemendur í samvinnu við atvinnulíf og hið opinbera. Fyrirtæki og stofnanir sem leita eftir starfskröftum geta hagnýtt sér vef Tengslatorgs HÍ til að auglýsa laus störf eða önnur atvinnutengd verkefni fyrir stúdenta skólans. Umsóknarfrestur um starfsþjálfun er að þessu sinni til 10. janúar. 

Góð reynsla í atvinnulífinu 

Katrín Ingibergsdóttir, mannauðsstjóri hjá PwC, er í hópi margra sem segjast hafa mjög góða reynslu af starfsþjálfun nema frá HÍ. „Við erum virkilega ánægð með samstarfið við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands um móttöku nema í starfsþjálfun,“ segir Katrín. 

Hún bætir því við að PwC hafi ávallt lagt ríka áherslu á sterk tengsl við fræðasamfélagið og þetta samstarf sé góð staðfesting á því. „Það er ánægjulegt að geta boðið nemum í grunnnámi tækifæri til þess kynnast starfi endurskoðenda betur og eiga kost á því að efla færni sína hjá okkur. Starfsnámið gefur háskólanemum gott tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og fá tækifæri til að kynnast starfsemi endurskoðenda áður en tekin er ákvörðun um frekara nám eða sérsvið. PwC hlakkar til að taka á móti fleiri starfsnemum frá Viðskiptafræðideild.“
 
 
 

Ásta Dís Óladóttir