Skip to main content
24. júní 2024

„Mér finnst óskaplega gaman að vera kennari“

„Mér finnst óskaplega gaman að vera kennari“ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor emerita við Menntavísindasvið, var aðalfyrirlesari á alþjóðlegri menntaráðstefnu sem haldin var af Kennaraháskóla Hong Kong (The Education University of Hong Kong), International Congress on Educational Futures, í apríl síðastliðnum. Hún hefur verið leiðandi í uppbyggingu þekkingar á sviði kennslufræða og menntunar fyrir alla, verið virk í að byggja upp doktorsnám og rannsóknir á Menntavísindasviði auk þess sem hún hefur víðfeðma reynslu af að ritstýra fræðatímaritum innlendis sem og á alþjóðlegum vettvangi.

Hafdísi bauðst að vera aðalfyrirlesari á ráðstefnunni í Hong Kong en ásamt henni voru fyrirlesarar frá UNESCO, Peking University, University College London (UCL) og Deakin University auk ýmissa annarra stofnana og háskóla. Í fyrirlestrinum fjallaði hún um velferð nemenda, fagmennsku kennara, kennaranám og starfstengda sjálfsrýni. 

„Þegar ég hóf kennslu fyrir 50 árum fékk ég svokallaðan hjálparbekk upp í hendurnar, eins slíkir bekkir voru kallaðir þá, þrátt fyrir að hafa látið vita að ég kynni ekkert að kenna börnum sem áttu erfitt með nám. Ég kveið töluvert fyrir að byrja en um leið og ég steig inn í skólastofuna fann ég að þarna átti ég að vera. Ég var ekki vel undir kennsluna búin en prófaði mig áfram, ræddi við samkennara og skólastjórnendur um hvernig ég gæti farið að og með undirbúningi og ígrundun fann ég leiðir til að koma til móts við nemendur. Síðar í framhaldsnámi mínu náði ég að tengja margt sem ég var að gera við hinar ýmsu fræðikenningar og fann um leið hvernig ég efldist við sjá að aðrir kennarar og fræðimenn voru á svipaðri línu.“ 

Ekki hægt að kenna öllum eins

Hafdís kynntist hugmyndum um inngildandi skólastarf í framhaldsnámi sínu árið 1990 og greip þá hugmyndafræði. Þá var sú stefna kölluð heildtæk skólastefna hér á landi og síðar skóli án aðgreiningar. Hugmyndirnar koma upphaflega úr smiðju foreldra og fólks sem vann með fötluðum nemendum en Hafdís tengdi þær strax við almenna bekkjarkennslu og gekk út frá þeim við skipulag kennslunnar.

„Mér fannst hugmyndirnar tengjast mínum gildum og viðhorfum og vildi strax reyna að finna út hvernig kenna mætti mikið blönduðum bekkjum, þannig var talað á þessum tíma,“ segir Hafdís og heldur áfram. „Um leið og ég hóf kennslu fannst mér það vera á mína ábyrgð að kenna þannig að allir nemendur mínir hefðu af því gagn og gaman. Það er þó ekki þar með sagt að mér hafi alltaf tekist það og einmitt þess vegna fór ég í framhaldsnám. Ég áttaði mig fljótt á því að ekki er hægt að kenna öllum eins og ekki hægt að ætlast til að öll börn læri á sama hátt. Fyrir vikið verður kennslan að bjóða upp á fjölbreyttar námsleiðir og námsgögn. Þegar kom að námsmati átti ég erfitt með hefðbundin próf og einkunnagjafir, sama hvort notaðar voru tölur, bókstafir, orð eða setningar. Viðmiðið er tölfræðilegt og byggir á ákveðnum samanburði. Ég var alltaf að leita að gagnlegri aðferð fyrir nemendur sem hvetur þá áfram, nemendur eru ólíkir og mismunandi hvað hentar best. Ég var fyrir vikið alltaf að reyna að þróa einhvers konar leiðsagnarmat eða leiðsagnarnám.“ 

Viðbragðssnjallir kennarar

Í BA- og MA-verkefnum sínum nýtti Hafdís sér starfendarannsóknir og snerust verkefnin um hvernig bæta mætti kennsluna fyrir alla nemendur. Doktorsverkefni Hafdísar var á svipuðum nótum en þá fylgdi hún eftir sex kennurum sem kenndu fjölbreyttum nemendahópum og skoðaði hvernig og hvers vegna kennslan gekk vel. Í kjölfarið kom hún upp með hugtakið viðbragðssnjallir kennarar, sem hún byggði á bókinni Skólinn hans Barbapa. Rannsóknir hennar hafa meðal annars snúist um að rannsaka störf kennara og starfskenningu þeirra, um kennslu og nemendur í inngildandi skólastarfi og um kennaranám.

Undanfarin 25 ár hefur Hafdís rannsakað kennslu hjá rúmlega tvö hunduð kennurum en margar rannsóknir hennar fjalla um starf kennarans. Hún hefur heimsótt kennara, fylgst með í kennslustundum og rætt við þá um starfið en við val þátttakenda hefur viðmið hennar verið kennsla fjölbreyttra nemendahópa. 

„Mér finnst mjög áhugavert að fylgjast með kennurum í starfi, fylgjast með hvernig þeir bregðast við nemendum sínum, eru lausnamiðaðir og viðbragðssnjallir. Ég hef lært einstaklega mikið af þessum kennurum en það er alltaf hægt að bæta skólastarfið og við verðum að vera meðvituð um hvað má betur fara, hlusta á kennara, nemendur og foreldra. 
Fyrir um fimmtán árum vann ég rannsókn um kennslu í margbreytilegum nemendahópum og fannst áhugavert að sjá við greiningu gagnanna að ánægðustu kennararnir og þeir sem töldu sig kenna fjölbreyttum nemendahópum voru þeir sem kenndu í teymi kennara eða í teymi fólks með fjölbreytta menntun.“

Mikilvægt hafa fjölbreyttan hóp doktorsnema

Hafdís telur mikilvægt að kennarar fá tækifæri til að skoða eigið starf og segir  starfendarannsóknir mjög gagnlegar. Í vetur birti Netla sértímarit með frásögnum af tíu áhugaverðum kennurum, sem Hafdís ásamt Jónínu Völu Kristinsdóttur og Svanborgu R. Jónsdóttur stýrðu. Hún hefur einnig tekið þátt í norrænum og evrópskum verkefnum sem gaf henni tækifæri til að kynnast skólastarfi vítt og breitt um Evrópu og hvernig verið er að byggja upp inngildandi skólastarf í hinum ýmsum löndum.

Hafdís hefur tekið þátt í þróun doktorsnáms á Menntavísindasviði og sat í doktorsnámsnefnd í nokkur ár og segir það hafi verið frábær tími. „Það er mikilvægt að við höldum áfram að þróa doktorsnám við Menntavísindasvið, ekki eingöngu rannsóknarverkefni þar sem doktorsnemar eru ráðnir til að vinna með rannsóknarteymi að ákveðnu verkefni. Það skiptir máli að þeir sem hafa sterkan bakgrunn í skólastarfi rannsaki það sem þeim finnst vera áhugavert og skipta skólastarf máli að þeirra mati. Þau sem koma  úr almennu skólastarfi sjá starfið oft með öðrum augum en rannsakendur og fræðimenn. Mikilvægt er að fá þeirra sýn á það sem er að gerast í skólunum og þurfum við því fjölbreyttan hóp doktorsnema.“ 

Annasamt starf ritstjórans

Hafdís hefur víðfeðma reynslu af því að ritstýra fræðatímaritum, bæði innan lands og á alþjóðlegum vettvangi. Hún var annar af tveimur ritstjórum menntatímaritsins Tímarit um uppeldi og menntun (TUM) á árunum 2017–2021. Hún var í hópi aðstoðarritstjóra Teaching and Teacher Education (TATE) á árunum 2013–2015 og frá árinu 2018 hefur hún verið annar af tveimur aðalritstjórum TATE, en með henni starfar Dr. Robert Kleinsasser, prófessor við Arizona State University. Með þeim starfa níu aðstoðarritstjórar og á þessum tíma hefur tímaritið blásið út, innsendum greinum á ári hefur fjölgað úr 900 í tæpar 3000 en birtar greinar á síðasta ári voru 330. 

„TATE er tímarit sem birtir greinar um nám og kennslu á leik-, grunn-, framhalds- og háskólastigi og um kennaramenntun. Við leggjum áherslu á að birta greinar frá sem flestum löndum og erum opin fyrir fjölbreyttri aðferðafræði. Það er mikil aðsókn í að fá birtar rannsóknargreinar hjá TATE. Það var töluvert átak fyrir mig að fara úr hlutverki kennara eða leiðbeinanda í ritstjórastarfið og velja greinar til birtinga. Ég hef lært mikið á þessu, lesið óhemju mikið og hef gott yfirlit yfir það sem er efst á baugi í menntamálum. Ég er samt alltaf meiri kennari í mér en stjórnandi og oft langar mig meira til að leiðbeina höfundum við greinaskrifin en hafna greinum þeirra.“ Hafdís hefur einnig verið í ritstjórn fleiri erlendra tímarita og í stjórnun áhuganeta um rannsóknir. 

Óskaplega gaman að vera kennari

Komin eru tvö ár frá því að Hafdís fór á eftirlaun. Hún segist hafa reynt að undirbúa þessi tímamót vel og byrjaði að velja verkefni vandlega og draga úr ýmsum störfum. Þrátt fyrir það var hún með svo mörg verkefni í gangi þegar hún hætti að hún vann alla virka daga fyrsta árið. Á síðasta ári birti hún ellefu greinar og kafla en á þessu ári eru væntanlegar að minnst kosti fimm birtingar. 

„Mér finnst óskaplega gaman að vera kennari, hefur aldrei leiðst það og er þakklát fyrir að hafa fengið að kenna í 50 ár. Ég komst fljótt að því að það á betur við mig þegar reynir á mig sem kennara, þegar ég þarf að setjast niður eða hugsa upphátt um hvernig ég geti brugðist við, leyst mál, eða vakið áhuga nemenda. Það veitir mér óendanlega gleði þegar hlutir ganga upp. En það á líka mjög vel við mig að vinna í teymi, það hentar mér betur en að vinna ein. Ég hef verið lánsöm í gegnum árin að hafa unnið með einstökum kennurum og foreldrum, rannsakendum og fræðimönnum,“ segir Hafdís að lokum.

 Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor emerita við Menntavísindasvið. / Mynd: Kristinn Ingvarsson