Menningarhátíðin UPPSKERA í tilefni 20 ára afmælis fötlunarfræða

Menningarhátíðin Uppskera fer fram dagana 8. febrúar til 8. mars í Reykjavík. Hátíðin er haldin í tilefni 20 ára afmælis fötlunarfræða við Háskóla Íslands og er henni ætlað að vekja athygli á framlagi fræðafólks, samtaka fatlaðs fólks og fatlaðs listafólks til íslenskrar menningar.
Tveir lykilviðburðir verða á dagskrá, málþing með listrænu ívafi í Háskóla Íslands 21. febrúar og sviðslistahátíð í Hörpu 22. febrúar. Þá verða fjölbreyttir viðburðir í tengslum við hátíðina víðs vegar um borgina, þar sem listsköpun fatlaðs fólks verður í forgrunni.
Sýningar, smiðjur og samtöl
(brot úr dagskrá)
Dagskráin hefst 8. febrúar með opnun á myndlistasýningunni Sögum í Gerðubergi. Þar verða sýnd fjölbreytt verk eftir níu listamanneskjur. Sama kvöld mun R.E.C. Arts Reykjavík standa fyrir gjörningaveislu í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem listamenn úr jaðarsettum hópum stíga á stokk.
9. febrúar verður norska kvikmyndin Salt&Pepper sýnd í Bíó Paradís í samstarfi við Félag heyrnarlausra. Handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar, Con Mehlum, er sjálfur heyrnarlaus og hann mun segja frá framleiðslu hennar að sýningu lokinni.
13. febrúar verður ljóðakvöld í Mannréttindahúsi í samstarfi við Reykjavík Poetics, Tabú, ÖBÍ, Neurodiverse Writers’ Space og Anfinnsverkefnið. Ljóð og textar eftir fatlaðar konur og önnur jaðarsett kyn verða lesin upp af höfundum sínum.
21. febrúar stendur Háskóli Íslands fyrir málþingi með listrænu ívafi í tilefni 20 ára afmælis fötlunarfræða. Flutt verða fræðileg erindi um þróun fötlunarfæða og fötlunarlist í bland við tónlistaratriði og gjörninga. Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, listfræðingur, baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks og doktorsnemi, verður málþingsstjóri.
22. febrúar verður blásið til sviðslistaveislu í Hörpu. Sýnd verða brot úr margverðlaunuðum verkum þar sem fatlað listafólk leikur aðalhlutverk. Þar á meðal úr dansverkunum Svörtum fuglum og Dúettum og leikverkunum Fúsi, aldur og fyrri störf, Taktu flugið beibí og Eden.Tvö atriði verða frumflutt. Elva Dögg Gunnarsdóttir, einnig þekkt sem Madam Tourette, verður gestgjafi. Frítt er á viðburðinn en takmörkuð sæti verða í boði. Miði á tix.is (O krónur).
1. mars verður málþing um Brjáluð fræði í Norræna húsinu. Þar verða Brjáluð fræði kynnt til sögunnar en þau eiga sér rætur í aktivisma og mannréttindabaráttu áttunda áratugarins. Á málþinginu verðar kynntar rannsóknir og rithöfundar lesa úr eigin bókum um andlegar áskoranir.
6.mars verður kvikmyndasýning í Bíó Paradís og dagskránni lýkur 8. mars með málþingi um inngildingu og kvikmyndagerð í Norræna húsinu.
Að auki verða á dagskrá viðburðir og smiðjur á söfnum borgarinnar
Aðgengi fyrir öll
Dagskrá hátíðarinnar er sett fram á auðlesnu máli og viðburðirnir haldnir á aðgengilegum stöðum. Allir viðburðir verða táknmálstúlkaðir og dagskrá í Hörpu verður einnig sjónlýst.
Hátíðin er öllum opin að kostnaðarlausu.
Uppskera er haldin í samstarfi við Háskóla Íslands og Hörpu.
Dagskrá Uppskeru í heild sinni má finna á vef hátíðarinnar.