Menning: margbreytileiki og sjálfsmyndir
Haustið 2017 hélt Emmanuel Macron, þá tiltölulega nýtekinn við embætti forseta Frakklands, stefnumarkandi ræðu við Sorbonne-háskóla í París. Þar minnti hann áheyrendur á að ríki Evrópu stæðu frammi fyrir ýmsum mikilvægum áskorunum sem sneru meðal annars að hernaðarlegu öryggi álfunnar, straumi hælisleitenda, loftslagsbreytingum, þróun stafrænnar tækni, hnattvæðingu o.s.frv. „Eina leiðin til að tryggja framtíð okkar“, hélt Macron áfram, „er endurreisn [la refondation] fullvalda, sameinaðrar og lýðræðislegrar Evrópu“. Lagði forsetinn til ýmsar aðgerðir til að ná þessu marki, þar á meðal að stofnuð yrðu net evrópskra háskóla sem yrðu þegar fram liðu stundir hvert um sig að eins konar sameinuðum háskóla, dreifðum á mörg lönd. Með þessu myndi háskólasamstarf í álfunni styrkjast og nemendum gert auðveldara fyrir að stunda hluta námsins utan heimalands síns. Spáði Macron því að í framtíðinni myndi „sérhver ungur Evrópubúi eyða a.m.k. hálfu ári í öðru Evrópulandi (50% úr hverjum aldurshópi árið 2024) og að sérhver nemandi myndi tala tvö Evróputungumál árið 2024“ (Macron 2017b).
Ári síðar svaraði Evrópusambandið þessu ákalli forseta Frakklands með því að stofna til sérstaks átaks innan ERASMUS+ áætlunar sambandsins (átakið kallast á ensku „European University Initiative“) þar sem kallað var eftir umsóknum frá evrópskum háskólum um styrki til að koma á fót og reka svokölluð háskólabandalög (e. „university alliances“) í þeim anda sem Macron lýsti í Sorbonne-ræðunni. Evrópsku háskólabandalögunum er lýst þannig í nýlegu stefnuplaggi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í háskólamálum að þeim sé ætlað að þjóna sem vettvangur fyrir „nemendur, starfsfólk og vísindamenn frá öllum hlutum Evrópu til að ferðast á milli landa án hnökra [can enjoy seamless mobility] og skapa saman nýja þekkingu, þvert á landamæri og fræðasvið“ („Communication“ 2022: 5). Þessi viðleitni er greinilega nátengd hugsjóninni um „opið evrópskt svæði á sviði æðri menntunar“ sem hefur verið eitt af lykilstefnumálum Evrópusambandsins í menntamálum síðan seint á síðustu öld (Guðmundur Hálfdanarson 2011). Opinbert takmark opna menntasvæðisins er að evrópskir háskólar myndi tiltölulega samræmt kerfi þar sem nemendur ferðast tiltölulega frjálst á milli skóla og landa, um leið og „fullt tillit sé tekið til menningarlegs margrbreytileika, ólíkra tungumála, mismunandi menntakerfa landa og sjálfstæði háskóla“ („The Bologna Declaration“). Ýmislegt hefur áunnist í þessum efnum á síðustu árum og áratugum og má þar nefna innleiðingu evrópsks eininga- og matskerfis (European Credit Transfer and Accumulation System, eða ECTS), samræmingu námsgráða í svokölluðu Bologna-ferli og þróun evrópskra viðmiðunarramma um menntun og hæfi (European Quality Frameworks, EQF). Allt auðveldar þetta evrópskum háskólum að vinna saman og nemendum að fá nám og gráður metnar á milli landa. Reyndin hefur samt áður verið sú að enn lærir aðeins lítill hluti evrópskra háskólanema utan heimalands síns eða nýtir sér þá möguleika sem bjóðast með skiptiáætlunum á borð við ERASMUS+ og því fer fjarri að meirihluti háskólakennara í álfunni taki þátt í evrópsku kennslusamstarfi. Háskólabandalögunum er ætlað að bæta úr þessu með enn þéttara samstarfi valinna háskóla sem nær til allra sviða starfsemi þeirra, í þeirri von að þannig verði hugsjónin um opið evrópskt háskólasvæði loksins að veruleika.
Nemendur undirbúnir fyrir samfélagsáskoranir
Fyrsta kall eftir umsóknum um styrki til evrópskra háskólabandalaga var sent út árið 2018 og tóku 17 slík bandalög til starfa haustið 2019, með þátttöku 117 háskóla í 24 löndum („First 17 ‚European Universities‘ selected“ 2019). AURORA-bandalagið, sem Háskóli Íslands á aðild að ásamt átta öðrum evrópskum háskólum, var valið í annarri umferð áætlunarinnar ásamt 23 öðrum háskólabandalögum, en 165 háskólar í 26 löndum eiga aðild að þeim („24 new European Universities“ 2020). Í markmiðslýsingu AURORA-bandalagsins er framtíðarsýn þess lýst þannig að háskólarnir níu stefni að því að mynda „samþætt háskólasvæði sem spanni alla Evrópu“ (e. „an integrated Europe-wide campus“) í því skyni „að brautskrá evrópska nemendur sem eru bæði fúsir til og færir um að takast á við þær alvarlegu áskoranir sem blasa við samfélaginu“. Í starfi bandalagsins er sjónum einkum beint að fjórum forgangssviðum (e. „pilot domains“), sem vísa flest beint til þeirra áskorana sem Macron forseti gerði að umtalsefni í áðurnefndri Sorbonne-ræðu. Þetta eru: Sjálfbærni og loftslagsbreytingar, Stafrænt samfélag og alþjóðleg borgaravitund, Heilsa og vellíðan og Menning: margbreytileiki og sjálfsmyndir (e. Sustainability & Climate Change, Digital Society & Global Citizenship, Health & Wellbeing og Culture, Diversities & Identities). Sérstakir vinnuhópar voru síðan myndaðir um hvert þessara áherslusviða og er þeim ætlað að skipuleggja þverfaglegt samstarf skólanna á hverju þeirra fyrir sig („Aurora EU-Mission Statement“).
"AURORA-verkefninu var hleypt af stokkunum í nóvemberbyrjun 2020 í miðjum covid-faraldri. Á þeim tíma hafði algerlega verið skrúfað fyrir ferðalög á milli landa og af þeim sökum var útilokað að skipuleggja hvers konar nemenda- eða kennaraskipti. Rafræn kennsla í faraldrinum opnaði aftur á móti fyrir nýsköpun í fjölþjóðlegu kennslusamstarfi sem MMS-hópurinn nýtti sér með því að skipuleggja námskeiða á netinu," segir Guðmundur Hálfdanarson, prófessor við Hugvísindasvið.
Það féll í minn hlut, ásamt Florian Freitag, prófessor í norður-amerískum bókmenntum við háskólann í Duisburg-Essen, að stýra vinnuhópi sem er ætlað að skipuleggja samstarf í kennslu og rannsóknum milli háskólanna níu í AURORA-bandalaginu á forgangssviðinu Menning: margbreytileiki og sjálfsmyndir (MMS). Hugsunin að baki forgangssviðinu er greinilega sú sannfæring að menning leiki tvöfalt hlutverk í evrópskum samfélögum, því að í annan stað tengir hún íbúa álfunnar saman í einn vef en í hinn stíar hún þeim upp í aðskilda hópa. Macron benti á fyrra hlutverk menningar í Sorbonne-ræðunni þegar hann hélt því fram að menning og þekking væru sterkasta límið sem héldi íbúum álfunnar saman, eða eins og hann orðaði það: „Vegna þess að í þessari Evrópa ber sérhver Evrópubúi kennsl á örlög sín í útlínum grískra hofa eða brosi Mónu Lísu, skynjar tilfinningar sem spanna alla Evrópu með því að lesa [Robert] Musil eða [Marcel] Proust …, í þessari Evrópu sem hefur farið í gegnum svo mörg stríð og átök þá er það menning hennar sem bindur hana saman“ (Macron 2017a). Eins og Macron ýjar að þá hafa Evrópubúar alls ekki lifað alla tíð í sátt og samlyndi, meðvitaðir um einhvers konar sameiginlegan evrópskan menningararf, heldur hafa þeir einnig skipst upp í stríðandi fylkingar. Þessar fylkingar eru gjarnan skilgreindar með tilvísun í menningarbundin fyrirbæri á borð við tungumálin sem fólk talar eða trúna sem það iðkar, um leið og minnihlutahópar hafa á öllum tímum verið fordæmdir og ofsóttir vegna þess að þeir hafa ekki viljað „aðlagast“ menningu meirihlutans. Evrópsk menning er því allt í senn vettvangur átaka og samstöðu, haturs og samlíðunar. Það er því grundvallaratriði í öllu evrópsku skólastarfi að styrkja vitund nemenda um fjölbreytni evrópskrar menningar og skilning þeirra á þeim menningarlega margbreytileika sem einkennt hefur álfuna alla tíð.
Alþjóðlegt samstarf án ferðalaga
AURORA-verkefninu var hleypt af stokkunum í nóvemberbyrjun 2020 í miðjum covid-faraldri. Á þeim tíma hafði algerlega verið skrúfað fyrir ferðalög á milli landa og af þeim sökum var útilokað að skipuleggja hvers konar nemenda- eða kennaraskipti. Rafræn kennsla í faraldrinum opnaði aftur á móti fyrir nýsköpun í fjölþjóðlegu kennslusamstarfi sem MMS-hópurinn nýtti sér með því að skipuleggja námskeiða á netinu, og þá bæði fyrirlestranámskeið sem voru opin öllum nemendum skólanna í AURORA-bandalaginu og svokölluð COIL-námskeið (COIL er skammstöfun fyrir Collaborative Online International Learning) þar sem háskólar samkenndu valin námskeið á netinu. Í mars á þessu ári, eftir að búið var að aflétta samgöngutakmörkunum að mestu, hélt MMS-vinnuhópurinn svo staðfund við Roviri i Virgili-háskólann í Tarragona á Spáni þar sem lögð voru drög að 30 eininga sameiginlegum og þverfaglegum námspakka (e. „joint interdisciplinary programme“) á grunnstigi sem allir skólarnir níu munu eiga aðild að. Nefnist pakkinn á ensku „Understanding Europe“ og nýtir hann þá breidd sem bandalagið býður upp á til að kynna nemendum sögu álfunnar, stjórnmál, menningarlega fjölbreytni og listsköpun frá ýmsum hliðum („Understanding Europe“). Grunnur námspakkans eru tvö fimm ECTS-eininga kjarnanámskeið sem allir nemendur sem ljúka pakkanum þurfa að taka. Fyrra námskeiðið, „Perspectives on Europe in a Global Context“, er netnámskeið sem háskólinn í Innsbruck stýrir og er það kennt í fyrsta sinn haustmisserið 2022. Námskeiðið, sem stendur yfir í sex vikur, byggist á fyrirlestrum og umræðum um nokkur valin efni sem öll tengjast evrópsku samstarfi og átökum innan álfunnar í tímans rás. Síðara námskeiðið, „Challenges in Europe“, beinir sjónum að sjálfbærni og þeim umhverfisvanda sem Evrópa stendur frammi fyrir. Í námskeiðinu munu nemendur vinna í 3–4 manna hópum, undir leiðsögn kennara, að verkefnum sem tengjast einhverjum af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í lok námskeiðsins, sem verður kennt í fyrsta sinn á vormisseri 2023, verður haldin ráðstefna við Vrije Universiteit í Amsterdam þar sem nemendur kynna niðurstöður hópavinnunnar. Til viðbótar þessum tíu eininga kjarna taka nemendur síðan 20 einingar í sérhæfðum valnámskeiðum sem fjalla um ýmis efni tengd kjarnanámskeiðunum tveimur. Þessi námskeið eru annaðhvort valin úr námskeiðum sem þegar eru kennd við skólana níu eða þeir skipuleggja ný námskeið sem eru sérsniðin fyrir námspakkann. Geta nemendur valið að taka þessi námskeið við sinn heimaskóla eða í skiptinámi við einhvern annan AURORA-háskóla.
Auoravæðing án umbyltingar í kennslu
Hugsunin á bakvið námspakkann er sú að um leið og hann á að styðja við meginmarkmið AURORA-bandalagsins þá þurfi kennarar ekki að umbylta kennslu sinni til að taka þátt í kennslusamstarfinu. Hvað fyrra atriðið varðar þá er hvatt til að námskeiðin í námspakkanum stuðli að svokallaðri „Auroravæðingu“ (e. „Aurorasation“) náms við Háskóla Íslands, en með því er átt við að kennarar hafi ákveðin meginsjónarmið í huga við skipulagningu námskeiða sem þeir kenna. Í þessu felst (1) að þeir nýti sér AURORA-hæfnirammann við skilgreiningu á hæfniviðmiðum námskeiðanna; (2) að þeir hugi að einhvers konar alþjóðlegu samstarfi í kennslunni, til dæmis með því að kenna hluta námskeiðsins í COIL; og (3) að þeir reyni að fremsta megni að flétta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eða þjálfun nemenda til að hafa samfélagsleg áhrif inn í kennsluna. Það skal tekið fram að þessi námskeið má kenna á hvaða tungumáli sem er, þótt alþjóðlegur hluti þeirra fari sjálfsagt í flestum tilvikum fram á ensku. Fjölbreytni er grundvöllur evrópskrar menningar og því er mikilvægt að við þjálfum nemendur okkar í nota sín móðurmál í námi og starfi um leið og við hvetjum þá til að ná tökum á sem flestum öðrum tungumálum og auðga með því skilning sinn á evrópskri menningu og samfélögum.
AURORA-samstarfið býður kennurum Háskóla Íslands upp á fjölmarga möguleika til að skipuleggja kennslu í alþjóðlegu umhverfi og nemendum til að víkka sjóndeildarhringinn annaðhvort með því að taka hluta námsins í skiptinámi eða sitja námskeið sem kennd eru í samstarfi AURORA-skólanna. Við munum sjálfsagt ekki ná því marki sem Macron lagði til að yrði náð árið 2024, það er að helmingur háskólanema hefði eytt í það minnsta einu misseri í öðru landi við háskólanám, en okkur ætti að takast að gera alþjóðlegt samstarf að ríkum og sjálfsögðum þætti í starfi Háskóla Íslands. Á þann hátt munum „gera góðan háskóla enn betri“, svo vitnað sé til kynningar Jóns Atla Benediktssonar rektors á síðustu stefnu Háskóla Íslands (Stefna Háskóla Íslands 2016: 3).