Meistaranám í afbrotafræði í boði í HÍ frá og með næsta hausti
Boðið verður upp á meistaranám í afbrotafræði á vegum námbrautar í félagsfræði frá og með haustmisseri 2023 í samstarfi við fjölmargar stofnanir innan íslenska réttarkerfisins. Stór og reynslumikill kennarahópur innan og utan háskólans kemur að náminu sem getur fleytt fólki í störf við ólíkar stofnanir sem fást við glæpi og refsingu í íslensku samfélagi.
„Afbrotafræðin sem sjálfstæð fræðigrein í háskólum hefur vaxið mjög á undanförnum áratugum í öðrum ríkjum. Þá hafa afbrotafræðinámskeið við HÍ notið mikilla vinsælda og almennt mikilvægi afbrotafræðinnar aukist,“ segir Margrét Valdimarsdóttir aðspurð um tilurð námsleiðarinnar, en hún er nýr dósent í félags- og afbrotafræði við Háskóla Íslands og hefur unnið að undirbúningi námsleiðarinnar ásamt hópi samstarfsfólks innan félagsfræðinnar.
Margrét bendir á að þegar starfi nokkur fjöldi einstaklinga með afbrotafræðimenntun við greiningar eða stjórnun hjá stofnunum sem sinna löggæslu. „Félagsfræðin er enn fremur komin með góðan hóp af sérfræðingum í fræðigreininni í kennarahópinn og því var ákveðið að kominn væri tími til að bjóða upp á framhaldsnám í afbrotafræði,“ segir Margrét sem sjálf lauk doktorsprófi í afbrotafræði frá City University of New York fyrir þremur árum. Auk hennar koma m.a. prófessorarnir Helgi Gunnlaugsson, Jón Gunnar Bernburg og Þóroddur Bjarnason að skipulagningu og kennslu í náminu.
Fengist við skýringar og afleiðingar afbrota og refsinga
Í námsleiðinni nýju er m.a. fengist við afbrot og frávikshegðun frá ýmsum hliðum, hlutverk löggæslu og réttarvörslukerfisins og kynferðisbrot, lög og réttlæti, svo dæmi séu tekin „Afbrotafræðin snýst í grunninn um að rannsaka þróun, skýringar og afleiðingar afbrota og refsilaga,“ segir Margrét en auk valinkunns hóps fræðimanna í félags- og afbrotafræði innan HÍ koma sérfræðingar frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Ríkislögreglustjóra að kennslu á nýju námsleiðinni.
Aðspurð fyrir hverja námið sé hugsað bendir Margrét á að afbrotafræðin sé í eðli sínu þverfræðileg þótt hún eigi rætur í félagsfræði. „Framhaldsnám í afbrotafræði getur því hentað nemendum með grunnháskólagráðu úr flestum greinum. Nemendur í afbrotafræði erlendis hafa fjölbreyttan grunn, t.d. félagsfræði, sálfræði, lögfræði, lögreglufræði eða hagfræði. Námið getur hentað fólki sem starfar eða hefur starfað í réttarvörslukerfinu mjög vel. Afbrotafræði er hugsuð fyrir fólk sem hefur áhuga á félagslegu samhengi afbrota, refsinga og löggæslu,“ bætir hún við.
Starfsþjálfun í samstarfi við ýmsar stofnanir
Í náminu stendur val nemenda á milli tveggja kjörsviða, rannsóknartengdrar afbrotafræði og hagnýtrar afbrotafræði. Þá gefst nemendum færi til starfsþjálfunar þannig að þeir geti mögulega fundið sína fjöl í atvinnulífi. „Námsbraut í félagsfræðin hefur á síðustu árum gert samstarfssamninga við nokkrar stofnanir eins og Fangelsismálastofnun og Hagstofu Íslands. Nemendur okkar í framhaldsnámi hafa tekið hluta námsins í starfsþjálfun hjá Fangelsismálastofnun og unnið að verkefnum sem tengjast málaflokki afbrota. Með nýju námsleiðinni í afbrotafræði áformum við að efla enn frekar samstarf af þessu tagi við vettvang réttarvörslunnar með sambærilegum samningum við t.d. Ríkislögreglustjóra og Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Margrét.
Og framtíðartækifærin liggja víða fyrir útskrifað fólk. „Rannsóknartengda námslínan mun nýtast fólki sem hefur áhuga á að starfa við rannsóknir, hvort sem það er við greiningu gagna fyrir stofnanir í réttarkerfinu eða við fræðilegar rannsóknir, og verður frábær grunnur að doktorsnámi í afbrotafræði við erlenda háskóla. Hagnýta leiðin mun nýtast fólki sem hefur áhuga á að starfa við löggæslu eða í öðrum störfum innan réttarvörslukerfisins, félagsþjónustunnar eða hjá öðrum stofnunum þar sem þekking og skilningur á samfélaginu er mikilvæg,“ segir Margrét og bætir við að atvinnutækifæri finnist t.d. hjá embættum í löggæslukerfinu og öðrum stofnunum og fyrirtækjum sem þurfa að láta greina upplýsingar.
Hægt er að kynna sér meistaranám í afbrotafræði í kennsluskrá HÍ.