Mannlífið dafnar á ný á Háskólasvæðinu
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á stúdenta og starfsfólk í dag (5. mars):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Það er erfitt að koma orðum að því hversu ánægjulegt það er að sjá mannlífið dafna á ný á Háskólasvæðinu. Nemendur skólans eru mættir í byggingarnar að nýju og vaxandi fjöldi námskeiða er nú í staðkennslu. Þrátt fyrir kosti fjarkennslunnar megum við aldrei gleyma því að háskóli er samfélag og uppspretta nýsköpunar í öllum skilningi. Þar kemur fólk saman úr ólíkum áttum til að njóta samveru eða skiptast á skoðunum og hugmyndir vakna sem oft leiða til hagnýtingar nýrrar þekkingar heilum samfélögum til hagsbóta.
Þótt staðkennsla hafi aukist síðustu daga eru fjölmörg námskeið enn í fjarkennslu. Ég hvet ykkur, kæru nemendur, til að fylgjast með breytingum á kennslufyrirkomulagi hjá fræðasviðum skólans, deildum, námsleiðum og einstökum kennurum. Lögð er áhersla á að námskeið í staðnámi verði einnig aðgengileg rafrænt, í gegnum streymi eða upptökur.
Nýlegar tilslakanir á samkomutakmörkunum hafa sannarlega haft mjög jákvæð áhrif á háskólasamfélagið allt en verum minnug þess að lítið má út af bregða. Því er brýnt að fylgja nándarreglum og huga vandlega að eigin sóttvörnum. Hámarksfjöldi sem má koma saman í hverju rými er 150 manns og skylt er að nota andlitsgrímur þar sem ekki er unnt að uppfylla regluna um 1 metra milli einstaklinga.
Óvissuástand vegna jarðhræringa á Reykjanesi hefur haft mikil áhrif á okkur öll sem búum í návígi við þau svæði þar sem skjálftarnir eiga upptök sín. Eðlilegt er að kvíði sæki að við þessar aðstæður en hættustig almannavarna gildir á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og í Árnessýslu. Ég hvet ykkur kæru nemendur og starfsfólk til að leita upplýsinga á heimasíðu Almannavarna um viðbúnað og varnir við jarðskjálftum.
Vart hefur liðið sá dagur síðustu vikuna að vísindafólk Háskóla Íslands hafi ekki verið í fjölmiðlum við að skýra og túlka atburðina sem tengjast jarðskjálftum og mögulegum eldsumbrotum á Reykjanesi. Fagleg frammistaða vísindafólks okkar sýnir mikilvægi þess að eiga fólk í fremstu röð í jarðvísindum. Ég vil þakka jarðvísindafólki Háskólans af öllu hjarta fyrir mikilsvert framlag í þágu samfélagsins og almannahagsmuna með öryggi okkar allra að leiðarljósi.
Um síðustu helgi fór fram stafrænn Háskóladagur sem tókst afar vel. Þúsundir lögðu leið sína inn á vefsíður námsleiða við skólann okkar og sömuleiðis á fjarfundi til að kynna sér fjölbreytta námsmöguleika. Ég vil þakka þeim mikla fjölda nemenda og starfsmanna sem lögðu á sig mikla vinnu í þágu skólans á þessum mikilvæga degi og við undirbúning hans.
Háskóli Íslands leggur áherslu á að þekkingarsköpun við skólann hafi víðtæk áhrif og að í starfinu sé tekist á við áskoranir samtímans. Um síðustu helgi kom stór hópur vísindafólks skólans fram í beinu streymi sem fékk mikla athygli. Þar var fjallað um áskoranir á borð við náttúruvá, kvíða, lýðheilsu, heimsfaraldur, ójöfnuð, loftslagsbreytingar, sjálfbærni, glæpi, þróun tungumálsins og nýsköpun í kennslu og menningu. Ég vil þakka þeim sem lögðu krafta sína til þessa verkefnis.
Dagarnir lengjast óðfluga og vorjafndægur nálgast kæru nemendur og samstarfsfólk. Á tímum þar sem óvissa ríkir er mikilvægt að leiða hugann að vorinu sem er í vændum og öllu því jákvæða sem best við getum. Hugum hvert að öðru.
Góða helgi.
Jón Atli Benediktsson, rektor“