Lokaverkefnið Neteinelti fært Heimili og skóla
Ellefu manna hópur kennaranema í grunnskólakennarafræðum gerði stuttmynd og vefinn neteinelti.is sem lokaverkefni til B.Ed.-gráðu vorið 2014. Hópurinn ákvað nýverið að færa Heimili og skóla, landssamtökum foreldra, vefinn til umsjónar en samtökin hafa þegar notað hann í fræðslustarfi sínu í grunnskólum.
Vefurinn neteinelti.is á vel heima í fræðslustarfi samtakanna en Heimili og skóli stýra SAFT-verkefninu sem stendur fyrir „samfélag, fjölskylda og tækni“ og er það formlegt samstarfsverkefni Heimilis og skóla, Ríkislögreglustjóra, Rauða krossins og Barnaheilla – Save the Children á Íslandi um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Heimili og skóli og SAFT standa fyrir öflugu fræðslustarfi m.a. í grunnskólum og hafa góð tengsl við skóla og samtök foreldra um allt land.
Vefurinn neteinelti.is og stuttmyndin sem honum fylgir fjalla um neteinelti; forvarnir, viðbrögð og afleiðingar þess. Stuttmyndin er um 16 mínútna löng með viðtölum við ungmenni og ýmsa fagaðila sem þekkja efnið vel. Á vefnum neteinelti.is er einnig mikið af fræðandi efni m.a. um hættumerki, hlutverk skóla, ýmis samskiptaforrit og boðleiðir neteineltis. Einnig eru á vefnum stutt viðtöl m.a. um nafnleynd og dreifingu mynda og reynslu foreldris og ungmennis. Þarna eru góð ráð til uppalenda og upplýsingar um hvert börn og ungmenni, foreldrar og kennarar geta leitað þegar einelti á netinu kemur upp og margt fleira.
Neteinelti.is er annað tveggja verka sem urðu til undir merkjum skapandi hópverkefnis til B.Ed.-gráðu vorið 2014. Hitt er brúðuleikhús í fimm þáttum um þau Von og Trausta, efni sem nota má til að byggja upp góðan bekkjaranda og styrkja jákvæð samskipti meðal yngstu grunnskólabarnanna. Þverfaglegt nám og læsi var viðfangsefnið vorið 2013 en nú er skapandi hópverkefni komið í gang í þriðja sinn og áherslan sem fyrr á sköpun, teymisvinnu, kennslufræði og kennarastarfið.
Það er ósk kennaranemanna að neteinelti.is nýtist vel í margvíslegu fræðslustarfi því neteinelti er ofbeldi sem hvergi á að líðast. Tækninni fleygir fram og í kjölfarið hafa öll samskipti orðið auðveldari og aðgengilegri – og þau geta líka verið betri og skemmtilegri ef tæknin er notuð rétt og vel.