Skip to main content
28. október 2021

Lífvísindafólk framtíðarinnar kynnti spennandi rannsóknir á Spekigleði

Lífvísindafólk framtíðarinnar kynnti spennandi rannsóknir á Spekigleði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Framhaldsnám innan Háskóla Íslands hefur tekið miklum breytingum á síðasta áratug og innan skólans er nú að finna fjölmargar öflugar einingar þar sem hópar vísindamanna og nemenda fást í sameiningu við knýjandi samfélagsleg viðfangsefni. Á sviði lífvísinda er t.d. að finna afar öflugt framhaldsnemaprógramm sem kallast í daglegu tali GPMLS. Þar eru rannsóknir í sameindalíffræði nýttar til að varpa nýju ljósi á hlutverk gena í tilteknum sjúkdómum og áhrif umhverfis á líkamsstarfsemina. Prógrammið stóð fyrir svokallaðri Spekilgleði á dögunum þar sem framhaldsnemar kynntu afar fjölbreytt viðfangsefni, þar á meðal rannsóknir sem miða að því að greina brjóstakrabbamein fyrr en nú er gert.

GPMLS sem stendur fyrir Graduate Program in Molecular Life Scicences og var sett á laggirnar um það leyti sem efnahagshrunið skall á Íslendingum. Markmiðið með starfi GPMLS er ekki síst að efla kennslu og rannsóknir á sviði sameindalífvísinda hér á landi. 

„GPMLS var upphaflega stofnað af Lífvísindasetri Háskóla Íslands. Prógrammið hefur vaxið og dafnað og í dag koma meðlimir GPMLS frá ýmsum deildum Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri sem allir eiga það sameiginlegt að stunda rannsóknir á sviði sameindalífvísinda. Í dag eru yfir 100 vísindamenn og nemendur skráðir í prógrammið, en markmiðið með stofnun þess var m.a. að gera rannsóknanám á þessu fræðasviði að sýnilegum og eftirsóknarverðum kosti á alþjóðavísu,“ segir Berglind Ósk Einarsdóttir, nýdoktor og verkefnsisstjóri GPMLS-prógrammsins. 

Að hennar sögn fást þátttakendur við rannsóknir á hinum ýmsu sviðum sameindalífvísinda, svo sem frumulíffræði, ónæmisfræði og lífefnafræði. „Sem dæmi má nefna þá eru verkefni í gangi sem miða að því að skilgreina hlutverk ákveðinna gena í sjúkdómsmyndun sem getur gefið mikilvægar upplýsingar við þróun á nýjum lyfjum. Einnig er unnið að verkefnum sem hafa það markmið að skilja betur hvernig frumur stýra genatjáningu við mismunandi umhverfisáhrif,“ segir Berglind enn fremur.

Berglind Einarsdottir

Berglind Ósk Einarsdóttir, nýdoktor og verkefnsisstjóri GPMLS-prógrammsins, ávarpar gesti á Spekigleðinni í Hörpu.

Stofnað til þverfaglegra rannsóknateyma á Spekigleði

Kórónuveirufaraldurinn setti nokkurn svip á störf hópsins innan GPMLS-prógrammsins og því var það afar kærkomið fyrir þátttakendur að geta hist á Spekigleði í Hörpu fyrr í haust. „Markmið Spekigleðinnar var að gefa meistara- og doktorsnemum tækifæri til að kynna rannsóknarverkefni sín í örkynningum ásamt því að skapa grundvöll fyrir vísindamenn til að hittast og ræða saman. Með þessu móti geta þeir rannsakendur sem vinna að sams konar verkefnum borið saman bækur sínar og stofnað til þverfaglegra rannsóknarteyma,“ segir Berglind. 

Hún bætir við að auk þess hafi að þessu sinni verið boðið upp á fyrirlestur frá Henry Alexander Henryssyni heimspekingi um skapandi og gagnrýna hugsun í vísindastarfi. Einnig hafi Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild, rætt um framtíð lífvísinda næstu fimm árin og Ragnhildur Káradóttir, prófessor við sömu deild og Cambridge-háskóla, fjallað um hvernig á að byggja upp árangursríkan vísindaferil. „Allir þessir fyrirlestrar gefa nemendum innsýn í það spennandi starf sem fram undan er og er þeim hvatning til að stefna hátt og og nýta hvert tækifæri vel,“ segir Berglind.

„Með því að finna lífmerki í blóðvökva brjóstakrabbameinssjúklinga er hægt að þróa nýja og bætta snemmgreiningaraðferð á brjóstakrabbameini án mikilla inngripa. Sú greiningaraðferð gæti nýst til að bera kennsl á brjóstakrabbamein á byrjunarstigi sem ekki myndi greinast í brjóstamyndatöku,“ segir Kristrún Ýr Holm, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum, sem var ein þeirra sem kynnti rannsóknir sínar á Spekigleðinni. MYND/Kristinn Ingvarsson

Leita leiða til að greina brjóstakrabbamein fyrr

Ein þeirra sem kynnti rannsóknir sínar á Spekigleðinni var Kristrún Ýr Holm, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum. Hún leitar að svokölluðum lífmerkjum í blóðvökva sem geta verið notuð til snemmgreiningar á brjóstakrabbameini. „Röntgenmyndataka af brjóstum er algengasta skimunaraðferðin sem notuð er í dag við að snemmgreina brjóstakrabbamein en á byrjunarstigi krabbameinsmyndunar eru æxlin hins vegar ekki alltaf sjáanleg á röntgenmyndum. Einnig getur reynst erfitt að greina æxli kvenna með þéttan brjóstvef, eins og hjá ungum konum. Það er þörf á betri skimunaraðferð til að greina brjóstakrabbamein fyrr og það er í raun kveikjan að rannsókninni. Því fyrr sem brjóstakrabbamein greinist því ólíklegra er að meinið hafi náð að dreifa sér og því meiri líkur á lækningu,“ bendir Kristrún á.

Verkefnið er unnið undir leiðsögn Margrétar Þorsteinsdóttur, prófessors við Lyfjafræðideild, og Sigríðar Klöru Böðvarsdóttur, doktors og forstöðumanns Lífvísindaseturs Háskólans, en að rannsókninni hér á landi kemur einnig dr. Finnur Freyr Eiríksson, sérfræðingur á Heilbrigðisvísindastofnunar HÍ. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Imperial College í London undir stjórn Zoltan Takats, prófessors við skólann, en rannsóknarhópurinn vonast til að geta fundið aðferð til þess að skima fyrir brjóstakrabbameinum sem krefst lítils inngrips, t.d. með því að greina blóðvökvasýni. 

„Rannsóknin felst í því að greina styrk sértækra próteina úr blóðvökva með svokallaðri massagreiningaraðferð. Með þessari aðferð vonumst við til að bera kennsl á ákveðin prótein í blóðvökva sem geta verið notuð sem lífmerki fyrir brjóstakrabbameinsgreiningu,“ segir Kristrún og bætir við að lífmerki segi gjarnan til um líffræðilegt ástand einstaklings. „Gögn um tilvist ákveðinna lífmerkja eru notuð til að greina og spá fyrir um sjúkdóma og í blóðvökva er mikið magn af smásameindum og próteinum sem hægt væri að nota sem lífmerki fyrir sjúkdóma, t.d. einstök krabbamein.“

Kristrun Yr

Kristrún Ýr kynnir rannsókn sína á Spekigleðinni í Hörpu.

Aðferðin gæti komið í veg fyrir óþarfa fyrirbyggjandi brjóstnámsaðgerðir

Undir í rannsókninni er blóðvökvi úr skýrt afmörkuðum hópi Íslendinga og að sögn Kristrúnar hafa próteinmælingar aðeins verið framkvæmdar hjá litlum hluta rannsóknaþýðisins. Þó hafa þegar fengist vísbendingar um að mögulega sé munur á tjáningu fáeinna próteina í blóðvökva þeirra sem hafa fengið brjóstakrabbamein og viðmiðunarhóps. „Við munum bráðlega hefja mælingar þar sem við skoðum allt rannsóknaþýðið. Þá munum við bæði skoða prótein og smásameindir og eru vonir bundnar við að lífmerki finnist í þeim mælingum,“ segir Kristrún enn fremur. 

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið hjá íslenskum konum og því er að ljóst að til mikils er að vinna að geta greint slíkt mein sem allra fyrst. „Með því að finna lífmerki í blóðvökva brjóstakrabbameinssjúklinga er hægt að þróa nýja og bætta snemmgreiningaraðferð á brjóstakrabbameini án mikilla inngripa. Sú greiningaraðferð gæti nýst til að bera kennsl á brjóstakrabbamein á byrjunarstigi sem ekki myndi greinast í brjóstamyndatöku,“ segir Kristrún. Hún bætir við að einnig væri hægt að fylgjast reglulega með einstaklingum í aukinni áhættu á að fá brjóstakrabbamein, t.d. konum sem bera arfgenga breytingu í hinum vel þekktu BRCA-genum. „BRCA1 og 2 arfberar fara gjarnan í fyrirbyggjandi brjóstnám. Með því að finna ný lífmerki í blóði væri hægt að spá fyrir um hvort og hvenær þörf sé á brjóstnámi og því mögulega hægt að koma í veg fyrir ótímabærar og jafnvel óþarfa fyrirbyggjandi brjóstnámsaðgerðir,“ segir Kristrún.

Ponta

GPMLS var upphaflega stofnað af Lífvísindasetri Háskóla Íslands. Prógrammið hefur vaxið og dafnað og í dag koma meðlimir GPMLS frá ýmsum deildum Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri sem allir eiga það sameiginlegt að stunda rannsóknir á sviði sameindalífvísinda.

Styrkur í fjölda þátttakenda úr ólíkum áttum

Kristrún segir það afar lærdómríkt að taka þátt í GPMLS-framhaldsnemaprógraminu því þar fái nemendur gott tækifæri til að kynna rannsóknir sínar með skýrum og fræðilegum hætti. „Þessar kynningar eru bæði skemmtilegar og hjálpa nemendum að setja verkefnið sitt í heildarsamhengi. Einnig gefur GPMLS nemendum kost á að styrkja tengslanet sitt og auka þar með samvinnu á milli vísindamanna,“ segir hún.

Berglind bætir við að styrkur prógrammsins liggi ekki síst í því hversu margir háskólar og ólíkar deildir taka þátt í því en það gefi færi á að halda viðburði þar sem nemendur og vísindamenn með þverfaglegan bakgrunn og þekkingu koma saman. „Þessir viðburðir hafa í mörgum tilfellum orðið upphafið að blómlegu samstarfi og eftir að hafa fylgst með þeim rannsóknarverkefnum sem kynnt voru á Spekigleðinni teljum við að framtíð lífvísinda á Íslandi sé björt og að tilefni sé til að styðja vel við vísindamenn. Mörg af þessu verkefnum geta orðið grundvöllur að stofnun nýsköpunarfyrirtækja en til þess að svo geti orðið þarf að gera umhverfið fyrir slíkt enn hagstæðara og veita öflugari stuðning,“ segir Berglind að endingu.

Fleiri myndir frá Spekigleðinni.

Frá Spekigleði