Skip to main content
30. október 2024

Líffræðinemar í rannsóknaleiðangur til Madagaskar

Líffræðinemar í rannsóknaleiðangur til Madagaskar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýjar köngulóartegundir var meðal þess sem nemendur og kennarar í líffræði við Háskóla Íslands fundu þegar þau heimsóttu eyna Madagaskar úti fyrir ströndum Afríku fyrr á þessu ári. Heimsóknin var hluti af námskeiði sem Ingi Agnarsson, prófessor í líffræði, kennir og óhætt er að segja að heimsóknin hafi verið eftirminnileg og gjöful því stór hluti hópsins mun vinna að vísindagrein til birtingar í alþjóðlegum vísindatímaritum á grundvelli þeirra uppgötvana sem þau gerðu í fjölbreyttu lífríki Madagaskar. Konný Íris Káradóttir líffræðinemi og Ingi sögðu okkur ferðasögu hópsins. 

Áratugahefð er fyrir því að nemendur í líffræði leggi land undir fót og heimsæki hitabeltið til að kynnast lífríki sem er gjörólíkt því íslenska. Ferðirnar hafa verið til Asíu og yfirleitt hafa nemendur ekki unnið að rannsóknum í þeim heldur skilað skýrslum um förina. Á þessu varð breyting í ár.

„Við ákváðum að fara í fyrsta skipti til Madagaskar og það kemur til að tvennu. Ég þekki Madagaskar mjög vel og Madagaskar er mjög sérstök eyja þar sem allt sem fyrir augu ber er ólíkt því sem þú sérð annars staðar,“ segir Ingi sem hefur stundað rannsóknir á köngulóm víða um heim og fundið fjölda nýrra tegunda. 

Önnur breyting frá fyrri árum fólst í því að nemendur undirbjuggu rannsóknarverkefni fyrir ferðina. „Við hófum námskeiðið í janúar og þá fór ég og aðrir yfir það við hverju mætti búast, við kynntum Madagaskar og við fórum í það að hanna rannsóknarverkefni. Hugmyndin var því sú að við kæmum til Madagaskar og þá yrðu þau tilbúin að fara að rannsaka,“ útskýrir Ingi.

Lemur

Lemúrar eru líklega meðal þekktustu dýrategundanna sem finna má á Madagaskar.

„Ég er til í að gera hvað sem er til að komast þangað“

Konný var ekki í nokkrum vafa hvort hún ætti að fara með þegar hún heyrði fyrst af ferðinni. „Ég hugaði bara: Þetta er geðveikt tækifæri, ég er aldrei að fara þangað aftur og ég er til í að gera hvað sem er til að komast þangað,“ segir hún. 

Konný segir það hafa verið afar kærkomið af fá að gera alvöru rannsóknir en því hafði hún ekki kynnst áður. „Mér fannst þetta frábært tækifæri því þetta er náttúrulega það sem margir líffræðingar gera og maður vill auðvitað skoða öll sviðin í líffræðinni svo ég geti komist að því hvað ég vil gera í framtíðinni,“ segir líffræðineminn ungi.

nemandi rannskar

Nemendum gafst einstakt tækifæri til rannsókna á Madagaskar.

Alls fóru 28 nemendur með Inga og samkennara hans út til Madagaskar en þegar þangað var komið slógust nemendur og kennarar frá Háskólanum í Antananarivo á Madagaskar í hópinn og unnu rannsóknirnar með íslenska hópnum. „Ég kom með ýmsar hugmyndir að rannsóknaverkefnum sem allar tengdust köngulóm af því að það er það sem ég rannsaka en aðrir nemendur völdu að gera annars kona verkefni. Þannig að við vorum að skoða froska og fugla, gróður, t.d. innfluttar tegundir. Köngulóarverkefnin voru um alls konar köngulóarhegðun eða -útbreiðslu eða jafnvel silki, sérstaka gerð silkis sem er rosalega sterk og svo framvegis,“ segir Ingi.

Aðspurður segir Ingi hópinn hafa fundið tíu tegundir stelsjúkra köngulóa „og mér sýnist að alla vega átta af þessum tíu, kannski fleiri, séu nýjar, s.s. tegundir sem hefur aldrei verið lýst.“ Til að setja þess uppgötvun í samhengi þá bendir Ingi á að áður en hópurinn fór í þessa ferð voru fimm köngulær af þessari gerð þekktar á öllu Madagaskar.

Skoðuðu sterkasta köngulóarsilki sem fundist hefur

Konný og hennar hópur ákváðu í samráði við Inga að rannsaka köngulóna C. Darwini eða barkarkönguló Darwins sem er nefnd eftir Charles Darwin sem þekktastur er fyrir þróunarkenningu sína. Silkið sem tegundin vefur er það sterkasta sem fundist hefur í lífheiminum. Vefir barkarköngulóarinnar eru stórir og liggja oft þvert yfir ár.

„Við skoðuðum hvaða partur af vefnum væri að grípa mestu hreyfiorkuna í bráð. Við notuðum frauðplastbolta og köstuðum þeim á mismunandi staði í vefina og vorum með sérstaka myndavél sem við settum hornrétta á vefinn til þess að skoða hvernig vefurinn hreyfist þegar bráðin lendir í vefnum og hvaða partur af vefnum tekur mesta höggið,“ útskýrir Konný. 

barkarkongulo

Barkarkönguló Darwins er ekki árennileg.

Með aðstoð sérstaks forrits gátu þau svo rýnt í nákvæma hreyfingu vefjarins og hvað hefur áhrif á hreyfiorku hans. Niðurstöðurnar bera þau svo saman við fyrri rannsóknir á vefjum annarra köngulóa.

Hafa fundið að minnsta kosti átta nýjar köngulóartegundir

Ingi segir að margir nemendahópanna séu að vinna að vísindagreinum upp úr sínum rannsóknum og sú fyrsta sé að verða klár en hún fjallar um stelsjúkar könngulær. „Þetta eru litlar köngulær sem hafa hætt að búa til eigin vef en í staðinn leita þær að stórum vefjum annarra köngulóa, sem er kallaður hýsillinn, og þær skríða inn í þann vef og bíða eftir því að sá vefur fangi bráð. Þá fara þær inn í vefinn og annaðhvort stela bráðinni eða fara jafnvel og borða bráðina með hýslinum þegar hún er að éta sína bráð. Þær stela líka silki og öðru úr vefnum,“ úrskýrir Ingi. 

Aðspurður segir Ingi hópinn hafa fundið tíu tegundir stelsjúkra köngulóa „og mér sýnist að alla vega átta af þessum tíu, kannski fleiri, séu nýjar, s.s. tegundir sem hefur aldrei verið lýst.“ Til að setja þess uppgötvun í samhengi þá bendir Ingi á að áður en hópurinn fór í þessa ferð voru fimm köngulær af þessari gerð þekktar á öllu Madagaskar.

„Ég tel að við fáum margar greinar út úr þessu sem nánast allir þessir nemendur eru meðhöfundar að. Þar með er árangri þessa námskeiðs náð því að hugmyndin var sú að þau færu í gegnum vísindastarf, alveg frá  hugmynd til birtingar, ásamt því að vera í hitabeltinu í útlöndum og kynnast öðruvísi lífríki,“ segir Ingi. 

Sigraðist á ótta við köngulær

En nemendur öðluðust ekki aðeins dýrmæta reynslu í rannsóknum heldur yfirstigu þeir alls kyns hindranir og ótta. „Ég var alltaf smá smeyk við skordýrin því þetta var alltaf eitthvað lítið sem er talað illa um í fréttum og bíómyndum,“ útskýrir Konný sem segir Inga hafa kveikt hjá henni mikinn áhuga á þessum stóra dýrahópi. 

Sjálf segist hún samt ekki haft það á prjónunum að halda á neinum köngulóm í þessu ferðalagi en það hafi breyst á ferð þeirra um frumskóginn. „Þá skóflaði Ingi bara á mig stórri könguló og ég var bara: Vá, hvað hún er sæt!“

kongulo

Konný með könguló.

Köngulærnar á Íslandi eru því ekki vitund ógnvekjandi í huga hennar og bekkjarfélaga. „Við erum í skordýraáfanga núna og við erum úti í náttúrunni að sjúga  köngulær í gegnum svokallaðan pútter og komum þeim í etanól til að rannsaka seinna. Þetta svona kom mér yfir rosalega mikið af hlutum sem ég var smá smeyk við,“ segir Konný.

Ingi segir það hafa verið gaman að fylgjast með því hvað hópurinn hafi staðið sig vel í ferðinn. „Þeim fannst svo spennandi að sjá þetta í náttúrunni og þau voru farin að labba út um allt og grípa þær. Og þau voru fram eftir og eftir miðnætti á síðasta degi að klára sínar rannsóknir. Það var alveg bara 100% allt lagt í þetta,“ útskýrir hann.

tana

Frá Madagaskar.

Heimafólk á Madagaskar tók þeim líka opnum örmum og að sögn Konnýjar undirstrikar það að fólk sé almennt gott hvar sem það er í heiminum. „Við náttúrlega fengum að kynnast nemendunum frá Madagaskar og þau voru öll svo frábær og það var gaman að kynnast þeirra menningu og þau voru öll svo hress og skemmtileg og þau voru svo spennt að útskýra þeirra daglega líf fyrir okkur og voru mjög spennt að heyra hvernig lífið okkar er,“ segir hún.

Íslenski hópurinn sem fór til Madagaskar.