Skip to main content
16. apríl 2018

Lesblindir eiga erfiðara með að greina í sundur þekkta hluti

""

Mögulegt er að sjónkerfi lesblindra mótist ekki af reynslu sem skyldi þar sem þeir eiga í meiri vandræðum en aðrir með að greina í sundur þekkta hluti á borð við andlit en ekki áður óþekkta hluti sem engin reynsla hefur fengist af. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri grein eftir hóp vísindamanna og nemenda við Sálfræðideild Háskóla Íslands sem birtist í vísindatímaritinu Cognition. 

Fólk sem er lesblint er alls ekki blint – það sér flest alveg ágætlega! Aftur á móti vefst fyrir því að bera fljótt og örugglega kennsl á þessa litlu, undarlegu hluti sem við köllum orð. Rannsóknamiðstöð um sjónskynjun (Icelandic Vision Lab) hefur um nokkurt skeið rannsakað hvort sjónskynjun geti átt þátt í lestrarörðugleikum fólks. Dr. Heiða María Sigurðardóttir, lektor við Sálfræðideild Háskóla Íslands, stýrir rannsókninni. Helsti samstarfsaðili Heiðu er dr. Árni Kristjánsson, prófessor við sömu deild.

Ný grein eftir Heiðu, Árna og rannsóknarhóp þeirra um hlutverk sjónrænna þátta í lesblindu birtist í Cognition nýlega en auk þeirra komu þær Liv Elísabet Friðriksdóttir og Sigríður Guðjónsdóttir, sem lokið hafa BS-gráðu frá Sálfræðideild Háskóla Íslands, að rannsókninni.

Mörgum finnst eðlilegt að hugsa sem svo að við sjáum með augunum og vissulega eru augun bráðnauðsynlegur búnaður til þess að skynja umheiminn. Aftur á móti mætti allt eins segja að við sjáum með heilanum þar sem heilinn vinnur úr öllum þeim aragrúa upplýsinga sem berast honum í gegnum augun. 

Eitt helsta verkefni sjónkerfisins er að skilja það sem fyrir augu ber, að bera kennsl á að fyrir framan mann sé bolli eða bók eða amma manns eða ÞETTA orð. Verkefnið er svo flókið að það er mesta furða að nokkur geti yfir höfuð ráðið við það. Hvernig í ósköpunum vitum við til dæmis að þetta er amma okkar en ekki einhver allt önnur manneskja? Flestöll andlit eru jú með augu og nef og munn og í raun er fátt sem skilur eitt andlit frá öðru. Og hvernig berum við kennsl á ÞETTA orð? Það er alls ekki einfalt enda er til fullt af öðrum orðum eins og ÞÉTTA sem líta næstum alveg eins út. 

Orð og andlit eiga það sameiginlegt að flest höfum við margra ára reynslu af því að reyna að þekkja þau í sundur. Vísindamenn hafa sýnt fram á að almennt mótast sjónkerfi okkar af slíkri reynslu þannig að heilinn verður betur í stakk búinn til þess að greina á milli slíkra hluta sem við höfum oft áður séð og eru okkur kunnuglegir. Einstaka sinnum lendum við þó í því að þurfa að þekkja í sundur hluti sem við höfum aldrei áður séð. Ef við hittum allt í einu fyrir tvær geimverur af fjarlægri plánetu þá gætum við mögulega séð að þær litu ekki alveg nákvæmlega eins út. En af því að sjónkerfið okkar hefur ekki fengið neina sérstaka þjálfun í að greina í sundur geimverur þá værum við líklega ekki sérlega slyng í því. 

Í fyrrnefndri rannsókn sem sagt er frá í Cognition var frammistaða lesblindra á þremur sjónskynjunarprófum borin saman við frammistöðu þeirra sem ekki voru lesblindir. Í einu prófinu reyndi á að greina í sundur andlit, í öðru svokölluð rugluð andlit (e. scrambled faces) sem deila tilteknum sjónrænum upplýsingum með andlitum en líta þó út eins og óræð mynstur, og í þriðja prófinu nýja og óþekkta hluti sem fólk hafði ekki séð áður en minntu ef til vill helst á geimverur. Í ljós kom að samanborið við annað fólk áttu lesblindir í vandræðum með að greina í sundur andlit en aftur á móti í litlum sem engum vandræðum með að greina í sundur rugluð andlit eða óþekktu „geimverurnar“. 

Ástæða þess gæti verið sú að sjónkerfi lesblindra mótist ekki af reynslunni sem skyldi. Lesblindir eiga því mögulega ekki í meiri vandræðum en aðrir þegar kemur að því að greina í sundur hluti sem enginn hefur neina sérstaka reynslu af, svo sem „geimverur“. Þegar kemur að andlitum og orðum gætu lesblindir aftur á móti átt í meiri erfiðleikum en aðrir þar sem reynslan af þessum hlutum mótar ekki sjónkerfi þeirra í sama mæli og þeirra sem ekki eru lesblindir. Því verður sjónkerfi lesblindra ef til vill ekki sérlega næmt fyrir þeim sjónrænu þáttum sem máli skipta til að þekkja í sundur kunnuglega en innbyrðis líka hluti á borð við andlit og orð. 

Þetta er þó aðeins ein möguleg túlkun á niðurstöðum rannsóknarinnar og þörf er á frekari rannsóknum á því hvort og þá hvaða hlutverk sjónskynjun spilar í lestri og lestrarörðugleikum. 
 

Dr. Heiða María Sigurðardóttir, lektor við Sálfræðideild Háskóla Íslands, stýrir rannsókn á því hvort sjónskynjun geti átt þátt í lestrarörðugleikum fólks.

Taktu þátt í næstu rannsókn

Rannsóknarhópurinn hyggst halda áfram að skoða þessa þætti og auglýsir eftir þátttakendum í rannsóknina „Lesblinda og æðri sjónskynjun“. Þeir verða að vera 18 ára eða eldri og með eðlilega eða leiðrétta sjón. Bæði er óskað eftir þátttakendum sem greindir hafa verið með lesblindu (dyslexíu) og fólki sem ekki er með lesblindu. Greitt verður fyrir þátttöku í rannsókninni.

Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort sjónskynjun fólks geti spáð fyrir um hvernig því gengur að lesa og verða þátttakendur beðnir um að taka þátt í sjónskynjunarverkefnum.
 
Áhugasamir geta haft samband með því að senda tölvupóst á skynjun@hi.is eða hringt í síma 847-9115*. Athugið að þeir sem hafa samband eru með því aðeins að lýsa yfir áhuga sínum á því að fá frekari upplýsingar, ekki að skuldbinda sig til þátttöku.

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr. Heiða María Sigurðardóttir, lektor við Sálfræðideild Háskóla Íslands.

*Upplýsingar veitir Berglind Anna Víðisdóttir, nemi í sálfræði við Háskóla Íslands.

Hægt er að fræðast frekar um rannsóknina á Facebook-síðu hennar.

Um Heiðu Maríu Sigurðardóttur

Nánar um andlitsskynjun á Vísindavefnum

Um Rannsóknamiðstöð um sjónskynjun

Hjá Rannsóknamiðstöð um sjónskynjun (Icelandic Vision Lab) eru gerðar rannsóknir á sjónskynjun og öðrum hugarferlum. Á meðal rannsóknarefna eru: sjónræn athygli, augnhreyfingar, hluta- og andlitsskynjun, sjónrænt minni, sjónræn „mynsturgreining“ (e. visual statistics) og áhrif náms og reynslu á skynferli. Rannsóknirnar eru margar hverjar grunnrannsóknir á virkni sjónkerfisins í dæmigerðu fullorðnu fólki. Sumar rannsóknirnar snúa þó sérstaklega að tilteknum hópi fólks. Þar má nefna börn, fólk með samskynjun (e. synesthesia), atvinnumenn í íþróttum, fólk með kvíðaraskanir, blint eða sjónskert fólk og fólk með lesblindu eða lesröskun (dyslexia). 

""