Lengsta tímabil þar sem skjálftar fara ekki yfir fjóra
Jarðvísindamenn Háskóla Íslands sitja í Vísindaráði almannavarna en fundur var í ráðinu eftir hádegið í gær til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu auk vísindamanna Háskólans sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, ÍSOR, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingum Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur og HS-Orku. Á fundinum voru einnig erlendir samstarfsaðilar Veðurstofunnar og Háskóla Íslands, auk fulltrúa frá Isavia-ANS.
Á fundinum var farið yfir nýjustu mælingar og gögn.
Helstu niðurstöður fundarins voru eftirfarandi:
- Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið með minna móti undanfarna tvo sólarhringa. Um er að ræða lengsta tímabil sem ekki hafa mælst skjálftar yfir 4 að stærð frá því að hrinan hófst 24. febrúar.
- Skjálftavirknin er áfram að mestu tengd þeim hluta kvikugangsins sem liggur næst Fagradalsfjalli.
- GPS-mælingar benda til þess að áfram flæði kvika inn í ganginn, en hægt hafi á flæðinu síðustu daga.
- Virknin á Reykjanesskaga hefur verið kaflaskipt undanfarið ár þar sem komið hafa kaflar með skjálftahrinum og kvikuinnskotum. Það er mat vísindaráðs að of snemmt sé að segja til um hvort draga muni enn frekar úr skjálftavirkninni eða kvikuflæðinu.
- Þær sviðsmyndir sem gefnar hafa verið út eru áfram í gildi.
Nánar um niðurstöður fundarins
Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið með minna móti undanfarna tvo sólarhringa. Um er að ræða lengsta tímabil sem ekki hafa mælst skjálftar yfir 4 að stærð frá því að hrinan hófst 24. febrúar. Um 1400 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í gær, 17. mars. Þrír skjálftar mældust yfir 3,0 að stærð, sá stærsti kl. 02:37 af stærð 3,3 í Fagradalsfjalli um 1 km norður af Nátthaga. Skjálftavirknin er áfram að mestu tengd þeim hluta kvikugangsins sem liggur næst Fagradalsfjalli.
GPS-mælingar benda til þess að áfram flæði kvika inn í ganginn, en hægt hafi á flæðinu síðustu daga. Smám saman hefur verið að hægja á flæðinu allt frá því að kröftugir skjálftar mældust um síðustu helgi. Von er á nýjum gervihnattamyndum á morgun, sem unnið verður úr til að afla vísbendinga um stöðu mála hvað varðar þróun kvikuflæðis á umbrotasvæðinu.
Á fundinum var farið var yfir þær sprungur sem myndast hafa á yfirborði í hrinunni og þegar hafa verið kortlagðar. Sú vinna mun halda áfram næstu daga ef veður leyfir, en kortlagningin fer fram með aðstoð dróna og nýtist til að leggja mat á umfang umbrotanna.
Eins var farið yfir nýjustu gasmælingar á svæðinu og sýndu þær engar breytingar frá því sem áður hefur mælst. Meðal annars var styrkur á Radon gasi (222Rn) mældur, en þekkt er að styrkur gassins aukist rétt fyrir eða á meðan að á eldgosi stendur.