Laura Scheving Thorsteinsson fagnar 45 árum við kennslu í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild

Laura Scheving Thorsteinsson hóf kennslu við Námsbraut í hjúkrunarfræði (síðar Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild) sem stundakennari árið 1980 og hefur kennt þar á hverju ári síðan, alltaf meðfram öðru starfi. Hún var lektor á árunum 2002–2007 og aðjúnkt/stundakennari frá 2007– 2025.
Fyrsta námskeiðið sem hún kenndi var aðferðafræði rannsókna. Fleiri kennsluþættir bættust við með tímanum, svo sem tölfræði, sjúklingafræðsla, skráning hjúkrunar, inngangur að hjúkrunarfræði I, hjúkrun sem starfs- og fræðigrein, forystuhlutverk stjórnenda, gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu, samskipti og samtalstækni, heilbrigðisfræðsla, trúarlegar þarfir sjúklinga, teymisvinna, ígrundun í starfi og leiðtogahlutverkið. Á þessum 45 árum hefur hún einnig haft umsjón með ákveðnum námskeiðum, verið leiðbeinandi í margvíslegum lokaverkefnum auk þess að vera prófdómari.
Ánægjulegt að sjá deildina stækka og eflast
„Á þessum tímamótum er mér auðvitað efst í huga þakklæti til alls samstarfsfólks míns við HÍ svo og nemenda minna, sem ég hef séð blómstra í starfi síðar á fjölbreyttum starfsvettvangi,“ segir Laura. „Ég hef séð deildina stóreflast, nemendafjölda aukast og námið þróast. Tilkoma og þróun framhaldsnáms er sérstakt ánægjuefni svo og sívaxandi hjúkrunarrannsóknir og aukin sérfræðiþekking í hjúkrun. En grunngildi hjúkrunar eru enn þau sömu og fagleg umhyggja er enn þá innsta eðli hjúkrunar. Siðfræðileg þekking er enn elsta og mikilvægasta þekkingin í hjúkrun eins og ég heyrði dr. Mörgu Thome fyrrverandi prófessor við deildina segja eitt sinn fyrir margt löngu.“
Heilbrigðisþjónustan hefur þróast mikið á þessu tímabili, en á nú sem fyrr við ýmis krefjandi úrlausnarefni að etja. Í huga Lauru Scheving er heilbrigðisþjónusta ekki botnlaus hít sem krefst sífellt meira fjármagns, eins og stundum er sagt, heldur þjónusta sem er ein af uppsprettum lífsgæða notenda hennar. Hjúkrunarfræðingar og aðrar heilbrigðisstéttir vinna í raun að því að bæta lífsgæði fólks og Laura lítur á það sem forréttindi að vinna að því marki.
„Brýnt er að starfsumhverfi heilbrigðisþjónustunnar sé heilbrigt og framsækið, þannig að hjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn vilji starfa þar. Máttug rödd hjúkrunar er notendum heilbrigðisþjónustu til hagsbóta, vegna þekktra áhrifa hjúkrunar á gæði og öryggi þjónustunnar,“ segir Laura Scheving Thorsteinsson á þessum merku tímamótum.
Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands færir Lauru þakkir fyrir frábært starf og óskar henni heilla í framtíðinni.
Laura Scheving Thorsteinsson hóf kennslu við Námsbraut í hjúkrunarfræði (síðar Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild) sem stundakennari árið 1980 og hefur kennt þar á hverju ári síðan.